Fréttir

Lægir fyrir austan en hvessir fyrir norðan - 30.12.2015

Nú er lægðin komin norður fyrir land og fer að draga úr vindi austantil. Um og eftir hádegi má búast við stormi eða roki á norðanverðu landinu með öflugum hviðum.

Spáð er suðvestan 18 - 28 m/s um hádegi, hvassast á annesjum norðantil. Skúrir eða él en styttir að mestu upp norðaustanlands síðdegis. Hægari í kvöld.

Lesa meira

Tíðarfar ársins 2015 - stutt - 29.12.2015

Árið var það kaldasta á öldinni en þó var hiti víðast hvar í rúmu meðallagi áranna 1961 til 1990.

Það hófst með óvenju umhleypingasömum vetri, illviðri voru tíð og úrkomur miklar. Síðari hluta þess vetrar skánaði tíð nokkuð en kringum sumarmál skipti um veðurlag með óhagstæðri tíð og snjóa leysti seint. Heldur hlýnaði þegar á leið sumarið en tíð hélst samt óhagstæð með miklum úrkomum. Syðra var veður þó skaplegt.

Haustmánuðir voru hagstæðari norðaustan- og austanlands. Í lok nóvember snjóaði óvenjumikið um landið suðvestanvert og varð desember skakviðrasamur með illviðrum og foktjóni.

Lesa meira

Viðvörun vegna fárviðris - 29.12.2015

29.12.2015 Langt suður í hafi er 958 mb ört vaxandi lægð sem fer hratt til norðurs. Gert er ráð fyrir að loftþrýstingur verði um 934 mb fljótlega eftir miðnætti í kvöld og 933 mb við Melrakkasléttu um kl. 07 í fyrramálið. Spáð er ofsaveðri eða fárviðri austantil á landinu í nótt og í fyrramálið, fyrst suðaustanlands. Samfara svona verðurhæð, lágum loftþrýstingi og sjávarföllum má búast við að sjávarstaða verði talsvert há og eru eigendur báta hvattir til að tryggja báta sína. Einnig er fólk hvatt til að festa lausamuni.

Lesa meira

Vatnavextir og flóð á Suðausturlandi og Austfjörðum - 29.12.2015

Miklir vatnavextir eru á Suðausturlandi og Austfjörðum vegna mikillar úrkomu og leysinga. Flóð eru í Geithellnaá og Fossá í Berufirði og hafði rennsli þeirra tugfaldast á innan við sólarhring. Áfram er varað er við vexti í ám suðaustanlands. Hætta hefur skapast vegna vatnselgs í þéttbýli. Vot snjóflóð og krapaflóð hafa fallið og ekki er hægt að útiloka skriðuföll þar sem snjó hefur tekið upp. Krapaflóð féll á bæinn Aðalból í Hrafnkelsdal í gærkvöldi og sex hús voru rýmd á Eskifirði.

Lesa meira

Jarðskjálftar í Bárðarbunguöskjunni - 26.12.2015

Í nótt mældust tveir skjálftar í Bárðarbungu-öskjunni, báðir 3,3 að stærð. Sá fyrri mældist kl. 02:32 og sá seinni kl. 04:51. Einnig hefur einnig orðið vart við þenslu í öskjunni og er ekki ólíklegt að bæði þessi merki tengist kvikusöfnun. Þó er ekki talið að mjög stutt sé í annað eldgos. Líklegra er að kvikusöfnunarfasi taki langan tíma. Eldstöðin er samt mikið vöktuð, daga og nætur, á Veðurstofunni.

Lesa meira

Starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu uppfært - 21.12.2015

Hinn 18. desember síðastliðinn veitti Samgöngustofa Veðurstofu Íslands ótímabundið starfsleyfi til flugleiðsöguþjónustu.

Fram að þessu hefur starfsleyfið verið endurnýjað til ákveðins tíma í senn en nú gilda einungis almenn skilyrði. Að þeim uppfylltum er starfsleyfið í rauninni ótímabundið og í skjalinu segir að starfsleyfið sé í gildi svo lengi sem starfsleyfishafinn heldur áfram að uppfylla kröfurnar og gætir samræmis við forsendur starfsleyfisins.

Lesa meira

Tímamótasamningur um markmið í loftslagsmálum samþykktur - 12.12.2015

Tímamótasamkomulag í loftslagsmálum náðist í kvöld á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Samningurinn var samþykktur einróma, með atkvæðum 195 þjóða. Mikil fagnaðarlæti brutust út í fundarsalnum þegar ljóst var að samkomulagið væri í höfn. Fulltrúar margra þjóða táruðust af gleði yfir því að samkomulag hefði náðst. Sjá vef ruv.is.

Nánari útlistun má sjá á vef umhverfisráðuneytisins. Frakkar fá einróma hrós fyrir gott skipulag og stjórn viðræðna, sem hafi átt sinn þátt í að samkomulag náðist nú.

Lesa meira

Erindi um jökla á loftslagsráðstefnunni í París - 8.12.2015

Veðurstofa Íslands stóð að hliðarviðburði á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, miðvikudaginn 9. desember 2015.
Streymi var af viðburðinum yfir netið.

Upptökur erindanna verða i boði á vefnum næsta mánuðinn.

Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og ber yfirskriftina Retreating Arctic Glaciers: Monitoring and adaptation efforts.

Lesa meira

Tíðarfar í nóvember 2015 - 6.12.2015

Tíð var lengst af hagstæð. Framan af mánuðinum var hlýtt í veðri, úrkoma var þá mikil um landið sunnanvert en þurrviðrasamt nyrðra. Skammvinnt kuldakast gerði í kringum þann 20. og aftur var kalt í lok mánaðarins. Þá snjóaði óvenjumikið á höfuðborgarsvæðinu. Í heild var hiti í mánuðinum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, mest um landið austanvert, en nær meðallagi suðvestanlands. Úrkoma var um 75 prósent umfram meðalúrkomu í Reykjavík, en þriðjung umfram meðallag á Akureyri.

Lesa meira

Viðvörun vegna fárviðris - 6.12.2015

6.12.2015 Langt suður í hafi er lægð sem dýpkar með eindæmum hratt og verður 944 mb seint annað kvöld (mánudag), suður af Reykjanesi. Þá verður 1020 mb hæðarhryggur skammt norður af Scoresbysundi. Saman valda þessi tvö veðrakerfi vindstyrk af styrk ofsaveðurs eða fárviðris yfir Íslandi.

Spáin fyrir mánudaginn hljóðar uppá miklu verra veður en var í nýliðinni viku. Ofsaveður er 11 vindstig (gamli skalinn, Beaufort) og er þá meðalvindhraði meiri en 28 m/s. Fárviðri er 12 vindstig og er þá meðalvindhraði meiri en 32 m/s.

Lesa meira

Viðvörun vegna óveðurs - 4.12.2015

Nýjustu spár frá því í morgun gefa áfram til kynna að óveðurslægð að dýpt um 940 mb verði skammt suður af landinu síðdegis í dag. Miðju lægðarinnar er spáð austar en í gær og er nú búist við að hún verði 130 km suður af Kirkjubæjarklaustri kl. 18 í kvöld.

Nú er nýsnævi víða um land og getur snjósöfnun í skafrenningi verið mjög hröð í gil og fjallsbrúnir sem snúa undan vindi. Við þessar aðstæður getur snjóflóðahætta skapast á skömmum tíma.

Lesa meira

Búist við ofsaveðri með suðurströndinni - 3.12.2015

Búist er við stormi (meðalvindi yfir 20 m/s) á landinu síðdegis í dag, föstudag, og ofsaveðri (meðalvindi yfir 28 m/s) við Öræfajökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjöll og í Vestmannaeyjum. Ekkert ferðaveður með suðurströndinni.

Athygli er einnig vakin á því að á morgun, laugardag, er útlit fyrir norðanstorm með stórhríð á norðanverðu landinu.

Lesa meira

Aðventuþing Veðurfræðifélagsins - 2.12.2015

Aðventuþing Veðurfræðifélagsins verður haldið fimmtudaginn 3. des. 2015 kl. 13:30. Veðurfræðifélagið og þing þess eru opin öllum sem áhuga hafa á veðri og veðurfari. Öll erindin, utan eitt, eru flutt á íslensku.

Fyrirlesarar fyrir kaffihlé eru Einar Sveinbjörnsson, Gabriel Sattig, Trausti Jónsson, Björn Erlingsson og Páll Bergþórsson. Og eftir kaffi flytja þau Þorsteinn Þorsteinsson, Bolli Pálmason, Guðrún Elín Jóhannsdóttir og Haraldur Ólafsson sín erindi. Sjá ljósmyndir að loknu þingi í annarri grein.

Lesa meira

Viðvörun vegna óveðurs - 30.11.2015

Ekkert ferðaveður er á landinu þriðjudaginn 1. desember 2015.

Snemma má búast við slæmu skyggni vegna skafrennings víða suðvestanlands, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut.

Síðdegis, milli kl 15 og 18, snýst vindur í hægari vestanátt með éljagangi, fyrst á Reykjanesi. Versnandi veðri er spáð austanlands síðla dags, með austan hvassviðri eða stormi og mikilli ofankomu.

Lesa meira

Öndvegisverkefnið NORDRESS - 27.11.2015

NORDRESS verkefnið hófst árið 2015 og fellur undir öndvegisáætlun norræna rannsóknarráðsins.

Staðið verður fyrir opnu málþingi í Háskóla Íslands þriðjudaginn 1. desember 2015, þar sem verkefnið verður kynnt og fjallað um áhættu og viðnámsþrótt samfélaga á Norðurslóðum. Yfirskrift málþingsins er Cold Disasters - Risk and Resilience in the Arctic.

Lesa meira

Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum - 25.11.2015

Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag sóknaráætlun í loftslagsmálum á fundi sem hýstur var í móttökusal Veðurstofu. Skerpt er á áherslum Íslands og starf í málaflokknum eflt til að árangri verði náð.

Sextán verkefni miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis, styðja við alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar.

Vöktun á jöklum Íslands verður m.a. efld og stefnt að því að kynna jöklana og umhverfi þeirra sem lifandi kennslustofu um loftslagsbreytingar.

Lesa meira

Bárðarbunga vöktuð en ekki merki um gos - 18.11.2015

Merki sjást um þenslu á svæðinu kringum Bárðarbungu sem benda til kvikusöfnunar undir öskjunni en algengt er að þenslumerki mælist í nánd við eldstöðvar eftir eldgos. Skjálftum í öskjunni hefur eitthvað fjölgað. Bárðarbunga er vöktuð allan sólarhringinn og engin augljós merki sjást um yfirvofandi gos.

Lesa meira

FUTUREVOLC og hagsmunaaðilar - 9.11.2015

FUTUREVOLC verkefnið var kynnt á fjölmennum fundi hagsmunaaðila þann 5. nóvember síðastliðinn. Í verkefninu unnu stórir rannsóknahópar sameiginlega að rannsóknum og vöktun á eldvirkum svæðum.

Sýnt þykir, að best er að fulltrúar almannavarna séu virkir þátttakendur í slíkum rannsóknarverkefnum alveg frá upphafi. Mikilvægt er að bæta bæði viðvaranir um yfirvofandi eldgos og mat á þróun eldgosavirkni eftir að gos er hafið. Að þessu er stefnt með þeirri samþættingu gagna, bæði rannsókna og vöktunar, sem FUTUREVOLC stuðlar að.

Vefhandbók íslenskra eldfjalla var kynnt en gerð hennar er styrkt af ICAO.

Lesa meira

Breytingar á veðurþjónustu - 6.11.2015

Veðurstofan er um þessar mundir að gera breytingar á veðurþjónustu sinni. Starf veðurfræðinga hefur verið að breytast mikið að undanförnu vegna tæknilegra framfara, þróunar veðurlíkana og nútímamiðlunar veðurupplýsinga og mun beinast meira að ráðgjöf til samfélagsins og viðbragðsaðila en verið hefur.

Þessar breytingar eru ekki endanlegar. Áætlað er að innleiða nýtt viðvaranakerfi á næsta ári þar sem varað verður við veðurvá og hverri viðvörun gefin litakóði sem ákvarðast mun af líkum og áætluðum samfélagslegum áhrifum. Síðar meir mun viðvaranakerfið ná til allrar náttúruvár.

Lesa meira
Veðurfréttir

Tölvarar kvaddir - 3.11.2015

Sunnudaginn 1. nóvember tók nýtt skipulag gildi á Eftirlits- og spásviði og við það urðu töluverð kaflaskipti í sögu Veðurstofu Íslands. Sá starfshópur sem hefur lengstan starfsferil á Veðurstofu Íslands lét þá formlega af störfum.

Þeirra verður sárt saknað af samstarfsfólki, sem og af mörgum Íslendingnum, því raddir þeirra hafa fylgt okkur um langa tíð. Veðurstofa Íslands þakkar þeim innilega fyrir störf sín og auðsýnda hollustu í garð stofnunarinnar í öll þessi ár.

Lesa meira

Tíðarfar í október 2015 - 2.11.2015

Tíð var hagstæð um meginhluta landins þótt úrkomusamt í meira lagi þætti um landið suðvestan- og sunnanvert. Hlýtt var á landinu, sérstaklega þó norðaustan- og austanlands.

Lesa meira

FUTUREVOLC verkefnið árangursríkt - 29.10.2015

Í vikunni verða haldnir hérlendis tveir viðamiklir fundir í FUTUREVOLC, sem er verkefni um eldfjallavá.

Að loknum ársfundi verður haldin kynningarfundur með hagsmunaaðilum svo sem almannavörnum, lögreglu, flugrekstraraðilum og stofnunum er sinna mengunarvöktun.

FUTUREVOLC hófst 2012. Samhent átak sá til þess að markmið verkefnisins náðust og náttúran sjálf lét ekki sitt eftir liggja. Á Íslandi urðu ný mælitæki til þess að nýliðnir náttúruatburðir eru svo vel skráðir að þess eru fá ef nokkur dæmi annarsstaðar í heiminum.

Lesa meira

Veðurspálíkan uppfært - 27.10.2015

Spátími veðurspálíkans Veðurstofunnar hefur nú verið lengdur um 18 klst eða að 66 klukkustundum.

Veðurþáttakort og staðarspár byggja því nú á veðurlíkani sem keyrt er í neti með 2,5 km láréttri möskvastærð fyrstu 66 klst. Þá tekur við evrópskt veðurlíkan sem aðeins er keyrt með 16 km möskvastærð.

Einnig var spásvæði líkans Veðurstofunnar stækkað til að bæta klakkaúrkomuspár og jafnframt gerðar ýmsar uppfærslur á innlagsgögnum sem lýsa landinu.

Lesa meira

Ársafkoma Hofsjökuls nú jákvæð - 21.10.2015

Hofsjökull stækkar loks, eftir samfellda rýrnun síðastliðin 20 ár. Ársafkoma jökulsins mælist nú jákvæð í fyrsta sinn og jafnvægislína hefur lækkað um 200 m. Niðurstaðan skýrist af óvenju mikilli ákomu síðastliðinn vetur og lítilli leysingu í sumar.

Of snemmt er að segja til um hvort hafin er nokkurra ára niðursveifla í lofthita. Veðurfar hefur verið með svalara móti á Norður-Atlantshafssvæðinu sl. misseri en ekki er þó lát á hnatthlýnun, því allar líkur eru á að ársmeðalhiti jarðar slái öll met á árinu 2015.

Lesa meira

Veðurappið endurbætt - 16.10.2015

Veðurappið auðveldar notendum skoða veðurspár í snjallsíma og það hefur nú verið endurbætt.

Spáritin eru aftur orðin aðgengileg.

Eins og áður er hægt að sjá staðaspár allra stöðva á einu gagnvirku og þysjanlegu korti og biðja um tilkynningu í símann ef veðurspáin uppfyllir valin skilyrði varðandi hitastig, vind og/eða úrkomu.

Lesa meira

Tíðarfar í september 2015 - 6.10.2015

Tíðarfar var almennt talið hagstætt á landinu og hlýtt var í veðri. Á fáeinum stöðvum varð mánuðurinn sá hlýjasti á árinu. Úrkoma var lítillega yfir meðallagi um landið sunnanvert en víðast undir meðallagi fyrir norðan. Á fáeinum stöðvum vestan til á Norðurlandi var óvenjuþurrt.

Lesa meira
Gervitunglamynd: Ísland snævi þakið

Tuttugu ár frá snjóflóðaslysunum miklu á Vestfjörðum - 5.10.2015

Í ár eru tuttugu ár liðin frá því að 35 manns létust í snjóflóðum á Vestfjörðum í þremur slysum. Slysin breyttu viðhorfi stjórnvalda og almennings til snjóflóða sem náttúruvár og árið 1995 varð vendipunktur í vinnu við hættumat, varnir og vöktun vegna ofanflóða.

Lesa meira

Upptök jökulhlaupsins á og við jaðar Skaftárjökuls - 3.10.2015

Í könnunarferð að jaðri Skaftárjökuls fimmtudaginn 1. október mátti sjá að hlaupið hafði í upphafi brotist upp úr jöklinum á nokkrum stöðum. Breiðir svartir taumar sáust og dreif af ísjökum lá niður jökulinn, sjá fleiri ljósmyndir í annarri grein.

Hlaupið virðist einnig hafa náð að bræða sér hringlaga rás eða rásir. Rennsli upp í gegnum jökulinn stóð þó ekki lengi.

Lesa meira

Flugkönnun Skaftárhlaupsins - 2.10.2015

Starfsmenn Veðurstofunnar fóru könnunarferð yfir Skaftá fyrr í dag, 2. okt. Vatnið braust upp við jaðar Skaftárjökuls á venjulegum stað norðaustan Langasjávar. Í gærkvöld og nótt braut áin svo mjög úr bökkum við mælahúsið undir Sveinstindi að Veðurstofumenn, sem þar höfðust við, færðu sig úr húsinu og tjölduðu hærra í landinu. Um hádegið var verulegt vatnsmagn komið í Eldhraun niður af Skaftárdal og vestan Kirkjubæjarklausturs. Vatn tók að flæða framhjá varnargarði við bæinn Múla um hádegið og lækkaði þá vatnshæð í Eldvatni.

Skýrslan Vatnafar í Eldhrauni. Náttúrulegar breytingar og áhrif veitumannvirkja varpar ljósi á flókið samspil vatns og lands á þessu svæði.

Lesa meira

Framvinda Skaftárhlaupsins - 2.10.2015

Rennsli í Skaftá við Sveinstind náði hámarki um kl. 2 í nótt, 2100 m³/s. Raunverulegt rennsli hefur þó líklega verið miklu meira, jafnvel 3000 m³/s, þar sem mikið vatn rennur utan mælisviðs stöðvarinnar.

Gera má ráð fyrir að rennsli í Eldvatni við Ása sé að ná hámarki nú eftir hádegið en mikið vatn rennur víðsvegar út á hraunið og má búast við að þar flæði næstu daga.

Fjallað er um gasmælingar og gefinn tengill á skýrslu um vatnafar í Eldhrauni (pdf 2,4 Mb).

Lesa meira

Skaftárhlaupið eitt hið stærsta - 1.10.2015

Skaftárhlaupið kom fram á mælinum við Sveinstind kl. 03:30 í nótt, 1. október. Rennslisaukningin við Sveinstind er hin örasta sem mælst hefur síðan stöðinni var komið á fót árið 1971. Fyrstu athuganir benda til að hlaupið verði eitt hið stærsta, sem komið hefur úr Skaftárkötlum. Neðan Skaftárdals skiptist Skaftá í þrjá farvegi og liggur einn um Eldvatn framhjá Ásum og gegnum Flögulón niður í Kúðafljót, annar út á Eldhraun í Árkvíslum og sá þriðji rennur framhjá Kirkjubæjarklaustri. Sjá ljósmyndir af Skaftá teknar í Búlandi.

Lesa meira

Íshellan sígur - í beinni útsendingu - 30.9.2015

Skaftárhlaup er hafið. Heildarsig íshellunnar yfir Eystri Skaftárkatli eykst hratt. Skoða má hæðarbreytingarnar á vefnum um leið og þær gerast, mældar með GPS tæki uppi á jöklinum.

Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu og ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir. Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn.

Lesa meira

Vatnavá: Skaftárhlaup er hafið - 29.9.2015

Íshellan yfir eystri Skaftárkatli í Vatnajökli sígur samkvæmt GPS mæli sem er á íshellunni. Þetta merkir að Skaftárhlaup er að öllum líkindum hafið og búast má við að hlaups verði vart við Sveinstind seint á miðvikudag eða fimmtudag. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu og ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir. Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn.

Lesa meira

Skaftárhlaup er yfirvofandi - 29.9.2015

Sterkar vísbendingar eru um að hlaup sé yfirvofandi í Skaftá. Meðal annars er fylgst grannt með gögnum úr GPS-stöð í Eystri Skaftárkatli í Vatnajökli enda er nú komið á 6. ár síðan hann hljóp. Verið er að athuga gögn úr vatnshæðarmælanetinu og fara yfir stöðuna. Frekari upplýsingar verða gefnar síðar í dag.

Lesa meira

Skýjamyndir - 26.9.2015

Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO, er að undirbúa nýja útgáfu af skýjaatlas - International Cloud Atlas, ICA. Skýjaatlasinn samanstendur af skýjamyndum og/eða myndskeiðum ásamt nákvæmri lýsingu á skýjunum með hverri mynd eða hverju myndskeiði.

Lesa meira

Viðvörun vegna úrkomu og vatnavaxta - 25.9.2015

Lægð gengur upp að landinu á laugardagsmorgun og er spáð verulegri úrkomu víða á sunnan- og vestanverðu landinu fram á aðfaranótt sunnudags. Mest verður rigningin á Suðausturlandi og má búast við verulegum vatnavöxtum sunnan jökla, á láglendi jafnt sem hálendi. Við slíkar aðstæður gæti skriðuhætta aukist. Ferðafólk er hvatt til að gæta ítrustu varúðar við vatnsföll.

Lesa meira

Smá jarðskjálftahrina í Kötlu - 22.9.2015

Í nótt varð grunnur skjálfti að stærð 3,3 við suðausturhluta Kötluöskjunnar. Um tíu eftirskjálftar áttu sér stað, flestir einnig grunnir og hugsanlega tengdir jarðhitavirkni. Með morgninum dró úr virkninni.

Svipaðar skjálftahrinur gerast stöku sinnum í Kötlu, að meðaltali 1-3 sinnum á ári. Veðurstofan fylgist grannt með svæðinu og mun upplýsa ef eitthvað breytist.

Lesa meira
Skrifstofubygging

Vefurinn verður niðri fram á kvöld - 21.9.2015

Vegna breytinga og endurnýjunar á rafmagnskerfum verður vefurinn niðri frá um kl. 15:30 til um kl. 20 í kvöld. Beðist er velvirðingar á þessu.

Liggi mikið við, verða tilkynningar frá sérfræðingum birtar á Facebooksíðu Veðurstofunnar.

Lesa meira

Verðlaunahafar á Degi íslenskrar náttúru - 16.9.2015

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti þáttaröðinni „Lífríkið í sjónum við Ísland“ eftir þá Erlend Bogason og Pétur Halldórsson Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti hlutu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði og hins vegar Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum.

Lesa meira

Dagur íslenskrar náttúru 2015 - 14.9.2015

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn er hátíðlegur 16. september ár hvert og hann ber nú upp á miðvikudag. Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðherra verður að þessu sinni haldin á Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg. Athöfnin hefst kl. 14:00 og henni verður streymt á vefinn.

Þar afhendir Sigrún Magnúsdóttir, ráðherra, Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Lesa meira

Daglegt veður frá 2000 nú á vefnum - 8.9.2015

Veðurstofan hefur um langa hríð birt töflur um veður frá degi til dags á fjórum veðurstöðvum; Reykjavík, Akureyri, Höfn í Hornafirði og á Keflavíkurflugvelli.

Í skjölunum má sjá meðalhita, hámarks- og lágmarkshita hvers dags, daglega úrkomu, úrkomutegund, snjóhulu og snjódýpt, sólskinsstundafjölda (sé hann mældur), sólarhringsmeðalvindhraða, mesta 10-mínútna meðalvindhraða auk mestu vindhviðu. Veðrið frá degi til dags er sýnt á línuritum. Þessi skjöl eru nú fáanleg á vefnum, fimmtán ár aftur í tímann.

Lesa meira

Viðvörun vegna vatnavár - 7.9.2015

Rétt er að vekja athygli á að í yfirstandandi viku sýna veðurspár mikinn lægðagang og því ljóst að vikan verður vætu- og vindasöm. Spáð er mikilli úrkomu, fyrst á vestanverðu landinu, svo á Snæfellsnesi að sunnanverðum Vatnajökli og síðan á svæðinu frá Mýrdalsjökli að sunnanverðum Austfjörðum. Í slíku vatnsveðri má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum þar sem veðrið gengur yfir, svo fólki á ferð er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Fylgst verður með skriðuhættu í tengslum við þetta vatnsveður.

Lesa meira

Vatns- og aurflóð á Siglufirði - 4.9.2015

Mikið tjón varð á Siglufirði nýverið af vatnsflóði og þeim árframburði sem fylgdi.

Af þessu tilefni vill Veðurstofan reifa það hvernig brugðist er við þegar spáð er miklu vatnsveðri, líkt og var dagana 24.-28. ágúst 2015.

Fjallað er um um endurkomutíma slíkra viðburða og tenglar gefnir á frekari upplýsingar og myndir.

Lesa meira

Tíðarfar í ágúst 2015 - 1.9.2015

Tíðarfar í ágúst var talið óhagstætt allvíða um landið norðan- og austanvert en annars skárra. Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en víðast hvar nokkuð undir meðallagi síðustu tíu ára. Sérlega úrkomusamt var á norðanverðu Austurlandi, sums staðar í útsveitum norðanlands og á Ströndum; og úrkoma á fáeinum stöðvum meiri en hún hefur áður mælst í ágústmánuði. Suðvestanlands var úrkoma nærri meðallagi.

Lesa meira

Undirbúningur fyrir væntanlega ofurtölvu - 20.8.2015

Orka í Danmörku er dýr og ekki framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum nema að mjög litlu leyti. Með samstarfi um rekstur ofurtölvu á Íslandi njóta Danir umhverfisvænna orkugjafa Íslands.

Í Morgunútgáfunni á Rás 1 var viðtal við Theodór Frey Hervarsson um dönsku ofurtölvuna sem væntanleg er á Veðurstofuna.

Framfarir verða í veðurspám, hafísspám, reikningum á fortíðarloftslagi og framtíðarsviðsmyndum mögulegra loftslagsbreytinga.

Lesa meira

Hvassviðri sunnan- og vestantil - 11.8.2015

Veðurstofan vekur athygli á spá um hvassviðri eða storm með snörpum vindhviðum sunnan- og vestantil á landinu á miðvikudag. Búast má við vindhviðum allt að 35 m/s við fjöll við suður- og suðvesturströndina og á miðhálendinu.

Vegfarendum með aftanívagna er ráðlagt að fara ekki um þessi svæði fyrr en vind lægir. Einnig er ráðlagt að huga að tjöldum og lausamunum.

Lesa meira

Tíðarfar í júlí 2015 - 4.8.2015

Júlímánuður var mjög kaldur um mestallt land. Á litlu svæði um landið suðvestanvert var hann þó lítillega hlýrri en meðaltal áranna 1961 til 1990 en meir en 2 stig undir því víða inn til landsins um landið norðaustan- og austanvert. Hiti var undir meðallagi júlímánaða síðustu tíu ára um land allt. Óvenjuþurrt var við norðanverðan Faxaflóa, Breiðafjörð, á sunnanverðum Vestfjörðum og á stöku stað á Norðurlandi vestanverðu. Sólarlítið var um landið norðaustanvert og mjög dauf þurrkatíð.

Lesa meira

Tíðarfar í júlí - stutt - 31.7.2015

Júlímánuður var mjög kaldur víðast hvar á landinu. Sérlega kalt var norðaustan- og austanlands, en hiti nærri meðallagi suðvestanlands. Óvenjuþurrt var um landið norðvestanvert.

Lesa meira

Safetravel - 4.7.2015

Forvarnir í ferðamennsku hafa eflst með aukinni samvinnu þeirra er koma að öryggi ferðafólks. Vefurinn Safetravel er rekin af Landsbjörgu í því augnamiði og er hluti af heildarverkefninu Safetravel sem hleypt var af stokkunum 2010. Nýjung á vefnum er áberandi tilkynningaborði sem fyllir skjáinn við fyrstu sýn á hverri vefsíðu. Málefnum vefsins er skipt í nokkra flokka: Útivist, Akstur, Ferðaáætlun, Sprungukort, Útbúnaðarlista og 112 Iceland App. Fjölmargar og ítarlegar upplýsingar má fá um allt sem tengist ferðalögum á Íslandi og öryggi í ferðamennsku.

Lesa meira

Jarðskjálftahrinu lokið og litakóði lækkaður - 3.7.2015

Í ljósi þess að skjálftahrinunni á Reykjaneshrygg er að mestu lokið, hefur Veðurstofan Íslands ákveðið að breyta litakóða fyrir eldstöðina Eldey aftur í grænt. Engin merki sjást um að skjálftavirknin sé tengd kvikuhreyfingum í efri hluta jarðskorpunnar. Greining á sýnum sem tekin voru úr sjó þann 1. júlí sýna heldur engin frávik sem benda til þess að kvika hafi komist í snertingu við vatn.

Lesa meira
Skrifstofubygging

Hugsanlegar tafir á vefþjónustu - 2.7.2015

Vegna vinnu við flutninga á tækjum milli tölvusala Veðurstofunnar í dag og á morgun geta orðið hnökrar á þjónustu ytri vefs. Beðist er velvirðingar á þessu. Notendum sem verða fyrir töfum á vedur.is er ráðlagt að bíða í nokkrar mínútur. Þessir flutningar eru hluti af átaki sem mun efla þjónustu Veðurstofunnar þegar fram í sækir.

Lesa meira

Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg - 1.7.2015

Eins og fyrr segir, þá stendur yfir snörp jarðskjálftahrina nærri Geirfuglaskeri. Hrinur á þessu svæði eru algengar og vara stundum í nokkra daga. Ekki eru nein mælanleg merki um eldsumbrot. Vegna virkninnar hefur þó verið ákveðið að breyta litakóða fyrir flug úr grænum í gulan fyrir Eldey en það þýðir að virknin sé vel yfir venjulegum bakgrunnsgildum. Sjófarendur eru beðnir að gera Veðurstofu viðvart ef breytingar sjást í hafi, svo sem á hitastigi sjávar eða litbrigðum, eða ef vart verður við fiskidauða.

Lesa meira

Tíðarfar í júní 2015 - 1.7.2015

Júnímánuður var kaldur miðað við hitafar það sem af er öldinni en nærri meðallagi sé miðað við tímabilið 1961 til 1990.  Um hluta Vesturlands var fremur hlýtt síðari hluta mánaðarins og tíð þá hagstæð, en annars var tíðarfar óhagstætt lengst af og gróður tók seint við sér.

Lesa meira

Skjálftahrina á Reykjaneshrygg - 1.7.2015

Skjálftahrina sem hófst um kl. 21:00 í gærkvöldi, 30. júní, stendur enn. Stærsti skjálftinn var 5,0 að stærð kl. 02:25 í nótt og fannst hann víða á Reykjanesskaga, á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi og einnig barst tilkynning frá skipi sem statt var um 10 km frá upptökum skjálftans. Nokkrir skjálftar eru á milli 4 og 5 að stærð. Samfelld virkni var frá kl. 21:00 í gærkvöldi til miðnættis. Síðasta hviðan var um kl. 07:00 í morgun og síðan hefur verið rólegt. Skjálfta varð þó vart á Seltjarnarnesi laust fyrir hádegi.

Lesa meira

Viðvörun um hvassviðri syðst á landinu - 25.6.2015

Veðurstofan vekur athygli á spá um hvassviðri með snörpum vindhviðum syðst á landinu í nótt og á morgun, föstudag. Langt suður í hafi er víðáttumikið 983 mb lægðasvæði, sem þokast norður á bóginn. Hvessir því smám saman úr austri sunnanlands og vindhraði verður 13-18 m/s undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum í nótt og á morgun, en vindhviður geta náð 30 m/s á þeim slóðum. Fer að draga úr vindi annað kvöld (föstudag). Vegfarendum með aftanívagna er ráðlagt að fara ekki um þessi svæði fyrr en vind lægir.

Lesa meira

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga - 19.6.2015

Undanfarnar vikur hefur verið nokkuð mikil jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum og nágrenni hans. Sögulegar upplýsingar benda til að jarðskjálftar á þessu svæði geti orðið allt að 6,5 að stærð.

Þess ber að geta að byggð hefur færst miklu nær skjálftasvæðinu. Engin áreiðanleg leið er til að segja fyrir um hvenær stórir skjálftar verða milli Kleifarvatns og Ölfuss en fólki er bent á að nota þetta tilefni til að rifja upp viðbrögð við jarðskjálftum og fara yfir viðbúnað á heimilinu.

Lesa meira

Flogið og mælt vegna Skaftárhlaups - 19.6.2015

Flogið var upp eftir farvegi Skaftár fimmtudaginn 18. júní og ummerki flóðsins skoðuð. Lent var við Sveinstind og gerðar gasmælingar. Einnig var reynt skoða Skaftárkatla en of lágskýjað var til þess að hægt væri að skoða þá.

Við flugið upp Skaftá fór að bera á hlaupvatni, nokkrum tugkílómetrum ofan Kirkjubæjarklausturs. Brennisteinslykt var sterk neðan við Sveinstind og gasmælingar um kl 19:45 sýndu styrk H2S mestan um 26 ppm og SO2 um 0,6 ppm.

Lesa meira

Skaftárhlaup er hafið - 17.6.2015

Skaftárhlaup er mjög líklega hafið. Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli og getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls. Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Lesa meira

Sumarþing Veðurfræðifélagsins - 15.6.2015

Sumarþing Veðurfræðifélagsins fór fram hinn 16. júní 2015. Þingið var haldið í matsal Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 7 og hófst kl. 13:30.

Veðurfræðifélagið og þing þess eru opin öllum sem áhuga hafa á veðri og veðurfari.

Öll erindin nema eitt voru flutt á íslensku. Meðal efnis var eðli illviðra, stök illviðri, flóðahorfur í Reykjavík, úrkoma á jökulhveli og snjómælingar.

Lesa meira
í jökli er dæld með hringlaga sprungum utan um

Lokafundur jöklarannsóknarverkefnisins SVALI haldinn á Grænlandi - 5.6.2015

Í byrjun júní var haldinn lokafundur jöklarannsóknarverkefnisins SVALI sem hófst árið 2010. Fundurinn var haldinn á Grænlandi. Áherslurnar voru breytingar á landís á Norðurskautssvæðinu og við Norður-Atlantshaf, breytingar á skriðjöklum og jökulhvelum og áhrif á sjávarborð.

Áframhaldandi rannsóknir staðfesta hraðvaxandi breytingar á freðhvolfinu; jökulhvelum, hafís og freðmýrum. Á Grænlandsjökli hefur bráðnunin meira en tvöfaldast, fjöldi ísjaka hefur aukist vegna örrar framrásar skriðjökla og hafísbreiðan hefur þynnst með styttri hafístímabilum og minni hafísþéttleika. Þetta eru sláandi birtingarmyndir hnattrænnar hlýnunar.

Lesa meira

Tíðarfar í maí 2015 - 3.6.2015

Mjög kalt var á landinu í maí. Tíðarfar var óhagstætt og gróður tók lítt við sér. Mun kaldara var þó í maí 1979 og víða á landinu var ámóta kalt í maí 1982 og nú. Kuldinn var að tiltölu mestur á hálendinu, en þar var hiti allvíða -3 til -4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára, en mildast var á Austfjörðum þar sem hiti var um -1,1 til -1,5 undir sama meðaltali. Fyrstu tvær vikurnar voru sérlega kaldar og tíð þá erfið en síðari hluta mánaðarins var tíðin skárri og heldur hlýrra var í veðri lengst af.

Lesa meira
Hús Veðurstofu Íslands

Skipt um spennistöð Veðurstofu - 2.6.2015

Miðvikudaginn 3. júní 2015 er verið að skipta um spennistöð Veðurstofunnar við Bústaðaveg. Sú spennistöð veitir rafmagni í öll hús Veðurstofunnar á lóðinni, þ.e. Bústaðaveg 7, Bústaðaveg 9 og Útskála. Rafmagnið frá Orkuveitu Reykjavíkur var tekið af klukkan 8:00 og starfsemi í húsunum er keyrð á varaafli. Verkið gæti tekið allt að 10 klukkustundir. Vonir standa til þess að þjónusta Veðurstofunnar skerðist ekki meðan á þessu stendur.

Lesa meira
Jarðskjálftar við Kleifarvatn

Jarðskjálftahrina við Kleifarvatn - 29.5.2015

Stuttu eftir hádegið þann 29. maí kl. 13:10 varð skjálfti af stærð 4 með upptök undir norðanverðum Sveifluhálsi við Kleifarvatn. Hann fannst víða á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Annar skjálfti af stærð 3,1 varð um klukkustund fyrr á sömu slóðum og fannst hann einnig í Reykjavík.   

Lesa meira

Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga - Tími til aðgerða - 21.5.2015

Landsvirkjun stendur fyrir opnum fundum í tilefni af 50 ára afmæli sínu um þessar mundir og kallar til sín sérfræðinga, meðal annars frá Veðurstofunni.

Föstudaginn 22. maí 2015 var haldinn í Hörpu opinn fundur um framtíðaráhrif loftslagsbreytinga og hvernig fyrirtæki geta unnið gegn áhrifum þeirra. Erindin sem flutt voru:

Áherslur stjórnvalda í loftslagsmálum

Hvernig vinnur Landsvirkjun gegn loftslagsbreytingum

Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Ísland

Ábyrgð, samstaða og samstarf um lausn vandans

Lesa meira

Lítið hlaup í Gígjukvísl - 11.5.2015

11.5.2015 Lítið Grímsvatnahlaup er hafið í Gígjukvísl. Vert er að benda á að brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess mjög nálægt útfalli árinnar við jökuljaðar (innan við nokkur hundruð metra) getur orðið svo mikill að það skaði slímhúð í augum og öndunarvegi.

Utan þess skapar hlaupið enga hættu fyrir mannvirki og umferð á Skeiðarársandi. Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni.

Lesa meira

Tíðarfar í apríl 2015 - 4.5.2015

Mjög kalt var fyrstu tvo daga mánaðarins og sömuleiðis í síðustu vikunni. Tíð var lengst af hagstæð um landið norðaustan- og austanvert, en þótti síðri í öðrum landshlutum. Hiti var lítillega undir meðallagi áranna 1961 til 1990 um landið suðvestanvert en annars yfir því – mest á Austurlandi þar sem hiti var einnig lítillega yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mun kaldara var í apríl 2013 heldur en nú.

Lesa meira

Litakóði flugs vegna Bárðarbungu nú grænn - 24.4.2015

Veðurstofa Íslands tilkynnti 24. apríl 2015 að litakóði fyrir flug vegna Bárðarbungu væri nú GRÆNN. Litakóðinn er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldfjalla.

Engin merki um vaxandi ókyrrð hafa sést í Bárðarbungu síðan eldgosinu í Holuhrauni lauk, 27. febrúar 2015.

Bárðarbungueldstöðin er enn vöktuð vandlega og verði nokkur markverð breyting á ástandinu verður strax látið vita.

Lesa meira

Íslenski veturinn 2014-2015 - 21.4.2015

Íslenski veturinn 2014 til 2015 var ívið kaldari heldur en að meðallagi síðustu tíu árin í Reykjavík, en yfir því á Akureyri.

Lesa meira

Vefgreinar um Bárðarbungu og Holuhraun - 10.4.2015

Um mánaðamótin var náttúruvárborðinn fjarlægður úr haus vefsins. Flýtileiðirnar er nú að finna í samantektargrein.

Vöktun á gasi frá hraunflákanum er enn stöðug. Gasdreifingarlíkanið er enn virkt en reglubundin textaspá um gasdreifingu er ekki lengur gefin út.

Eftirlit með jarðhræringum minnkar ekki og verði vart við marktækar breytingar verður náttúruvárborðinn virkjaður á ný.

Lesa meira

Tíðarfar í mars 2015 - 1.4.2015

Mánuðurinn var illviðra- og úrkomusamur, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands. Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 um land allt en undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Vesturlandi. Veðurlag var stórgert og meðalvindhraði óvenjuhár. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum.

Norðurljósavirkni var mikil, einkum 17. mars 2015, eins og sést á nokkrum afar fallegum myndum frá Oddi Sigurðssyni.

Lesa meira

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2015 - 26.3.2015

Nýliðið ár 2014 var líklega það hlýjasta í að minnsta kosti 165 ár. Á listanum yfir 10 hlýjustu árin er einungis eitt frá síðustu öld, árið 1998.

Þótt enn sé ekki ljóst hvaða áhrif loftslagsbreytingar muni hafa á aftakaveður, ætti það að valda áhyggjum hversu illa þjóðfélög víða um heim ráða við ríkjandi tíðni aftakaveðra.

Í tilefni af nýliðnum Alþjóðadegi veðurs, hinn 23. mars, er hér umfjöllun um loftslagsbreytingar og tilvísun í ávarp Ban Ki-Moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Lesa meira

Af Degi vatnsins 2015 - 24.3.2015

Degi vatnsins er fagnað þann 22. mars ár hvert og þema ársins 2015 er vatn og sjálfbær þróun. Af þessu tilefni er hér gefið yfirlit yfir þau verkefni Veðurstofunnar sem tengjast vatni.

Árið 2011 var rammatilskipun Evrópusambandsins um verndun vatns innleidd með nýjum lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Innleiðing tilskipunarinnar er hluti af skuldbindingu Íslands samkvæmt EES samningnum.

Samkvæmt lögunum nær vatn yfir straumvötn, stöðuvötn, árósa, strandsjó, grunnvatn og jökla. Allt vatn skal vera í mjög góðu eða góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi, þó með þeim fyrirvara að aðgerðir til þess rýri ekki hag íbúa og kostnaður fari ekki úr hófi fram. Til að ná fram markmiðunum skal vinna vatnaáætlun, aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun.

Lesa meira

Af sólmyrkvanum 2015 - 20.3.2015

Í tilefni af sólmyrkvanum að morgni föstudagsins 20. mars 2015 var gerð háloftamæling við Bústaðaveg 9 til að mæla lofthita og sólgeislun. Hér má sjá niðurstöðurnar, ásamt ljósmyndum af sleppingunni.

Einnig hefur verið gert samsett myndskeið frá gervitungli ESA sem sýnir sólmyrkvann fara eins og óvæntan skugga yfir Ísland. Fyrst sést dagurinn fikra sig yfir hnöttinn frá austri til vesturs. En svo birtist skugginn, snöggur í förum, og þekkist á því að fara í ranga átt miðað við sólarganginn.

Lesa meira

Sólmyrkvinn 20. mars 2015 - 19.3.2015

Í fyrramálið, föstudagsmorguninn 20. mars 2015, verður mesti sólmyrkvi sem sést hefur frá Íslandi í 61 ár. Svo vill til í þetta sinn, að sólmyrkvann ber upp á jafndægur á vori.

Sums staðar munu ský hindra sýn. Vert er því að fylgjast með skýjahuluspánni, þar sem hvítt þýðir heiðskír himinn.

Ítarlegar upplýsingar má finna um sólmyrkvann á stjörnufræðivefnum.

Fólk er eindregið varað við að horfa á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðar. Slíkt getur valdið varanlegum augnskaða og blindu í verstu tilvikum.

Háloftabelg með mælitækjum verður sleppt við Veðurstofuhúsið á níunda tímanum.

Lesa meira

Ársfundur Veðurstofu Íslands 2015 - 15.3.2015

Ársfundur Veðurstofu Íslands var haldinn að Bústaðavegi 7 í dag, að morgni fimmtudagsins 19. mars 2015. Þema fundarins var náttúruatburðir síðasta árs, vöktun og eftirlit.

Fundurinn var vel sóttur og vel tókst til. Að loknu ávarpi umhverfisráðherra voru flutt fimm afar áhugaverð erindi.

Fundinum var streymt á vefinn og upptakan er nú í boði. Einstakt myndskeið af uppsetningu mælitækja á Vatnajökli er að finna í blálokin (01:46).

Ársskýrsla Veðurstofunnar liggur enn frammi. Eintök má nálgast í móttökunni.

Lesa meira

Afar slæmt veður, laugardaginn 14. mars - 13.3.2015

Veður verður sérstaklega slæmt um allt vestan- og norðanvert landið og hvassara en síðastliðinn þriðjudag; mikil rigning og snjóleysing sunnan- og vestantil; tré geta rifnað upp með rótum og þakplötur fokið. Einnig má búast við grjót- og malarfoki.

Viðvaranir vegna vatnavaxta og leysinga eru í gildi, sem og votra snjóflóða, krapaflóða og skriðufalla. Ölduhæð suður af landinu er einnig há.

Á höfuðborgarsvæðinu er óvarlegt að vera á ferli frá því snemma morguns fram yfir hádegi og ferðalög á milli landshluta eru alls ekki ráðleg.

Lesa meira
glampar á vatnspoll

Viðvörun vegna vatnavaxta, hláku og veðurofsa - 12.3.2015

Spáð er mikilli rigningu sunnan- og suðaustanlands með hlýindum síðdegis á föstudag, 13. mars, og vatnsveðurofsa næstu tvo daga, sjá fréttatilkynningu.

Varað er við vexti í ám í kring um Eyjafjalla-og Mýrdalsjökul og Vatnajökul. Búast má við miklum leysingum um allt land og vatnsflóðum, krapaflóðum og aurflóðum.

Þannig aðstæður skapast ekki nema á nokkurra ára fresti. Hafa skal þetta í huga áður en ferðalög eru skipulögð.

Til að fyrirbyggja vatnstjón er ráðlagt að huga vel að frárennslislögnum og niðurföllum og hreinsa ís ef við á.

Lesa meira

Tíðarfar í febrúar 2015 - 11.3.2015

Mánuðurinn var kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í febrúar á seinni árum og var hitinn undir meðallagi síðustu tíu ára alls staðar á landinu, og undir meðallagi áranna 1961 til 1990 um landið sunnan- og suðvestanvert og víða vestanlands. Úrkomusamt var um nær allt land. Umhleypingasamt var og veðurlag nokkuð stórgert og meðalvindhraði óvenjuhár.

Lesa meira

Versnandi veður - 10.3.2015

Ört vaxandi suðaustanátt um hádegi, 18-28 m/s um þrjúleytið með mjög snörpum vindhviðum við fjöll S- og V-lands en hvessir N- og A-til í kvöld.

Búist er við vonskuveðri frá því eftir hádegi fram á nótt. Skyggni verður lélegt vegna snjókomu og skafrennings og má búast við samgöngutruflunum á láglendi sem og á fjallvegum. Veðrið gengur yfir S- og V-lands í kvöld en um miðnætti NA-lands.

Lesa meira

Vonskuveður - 9.3.2015

Búist er við vonskuveðri frá því eftir hádegi á morgun fram á aðra nótt. Skyggni veður lélegt vegna snjókomu og skafrennings og búast má við að ferðalög yfir heiðar og fjallvegi verði erfið eða ómöguleg. Veðrið gengur yfir sunnan og vestanlands milli kl. 19 og 21 en eftir miðnætti á austanverðu landinu.

Lesa meira

Um óvissustig og hættustig - 4.3.2015

Nú er aukin snjóflóðahætta og spárnar mikið lesnar. Því er rétt að skerpa á hugtökum er varða náttúruvá:

Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggð en óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði.

Árétta þarf, að umtalsverð snjóflóðahætta samkvæmt svæðisspá fyrir stóran landshluta þarf ekki að fela í sér hættu á snjóflóðum í byggð á viðkomandi svæði.

Lesa meira

Eldgosinu í Holuhrauni er lokið - 28.2.2015

Eldgosinu, sem hófst í Holuhrauni 31. ágúst síðastliðinn, er LOKIÐ. Engin glóð sást í þyrluflugi 27. febrúar.

Gasið getur ENN dreifst um allt land.

Hraunið er 85 km² að stærð. Meðalþykkt þess er um 10 - 14 metrar (mest 40 m) og rúmmálið um 1,4 km³.

Öskjusig Bárðarbungu er a.m.k. 61 m þar sem mest er. Sigið var 5 cm á dag í síðustu viku, að teknu tilliti til ísskriðs inn að miðju öskjunnar, en var tugir cm á dag þegar mest var. Rúmmál sigskálarinnar er um 1,7 - 1,8 km³.

Áfram dregur úr skjálftavirkni.

Lífshætta stafar ENN af eldfjallagasi við hraunbreiðuna.

Lesa meira

Varasöm snjóalög á Suðvesturlandi - 26.2.2015

Maður á vélsleða setti af stað myndarlegt snjóflóð í Bláfjöllum í dag. Hann náði að keyra undan flóðinu.

Fjallaferðamenn á SV horninu ættu að fara varlega, sér í lagi í hlíðum mót vestri og norðri. Gryfja sem tekin var á skíðasvæðinu í Bláfjöllum í morgun sýnir þéttan vindfleka á eldri snjó. Neðarlega í nýja snjónum er þunnt lag með mýkri snjó. Brot fást í stöðugleikaprófunum á þessu mjúka lagi, en einnig í vindflekanum.

Lesa meira

Viðvörun - stormur eða rok í dag - 25.2.2015

Búist er við stormi eða roki á landinu í dag og á Vestfjörðum á morgun.

Í dag má búast við austan 20-28 m/s með snjókomu sunnan- og vestanlands, en síðar slyddu eða rigningu við ströndina, 18-28 síðdegis, hvassast við suðurströndina. Hægari og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi í fyrstu, en síðan 18-23 þar og snjókoma eða skafrenningur.

Norðan 20-28 m/s og snjókoma eða éljagangur á vestast á landinu á morgun, hvassast á Vestfjörðum.

Heldur hlýnandi veður í bili, en kólnar aftur á morgun. Norðvestan hvassviðri eða stormur víða um land annað kvöld.

Lesa meira
hæðir speglast í vatni - kyrrð

Erindi um loftslagsbreytingar í dag - 25.2.2015

Hér á landi er staddur jarðfræðingurinn Johann Stötter frá Háskólanum í Innsbruck sem er íslenskum jarðfræðingum að góðu kunnur fyrir rannsóknir á jöklajarðfræði sem hann stundaði á Tröllaskaga um árabil.

Johann hélt erindi kl. 15:00 25. febrúar í matsal VÍ um loftslagsbreytingar í Austurríki og afleiðingar þeirra og lýsti helstu niðurstöðum nýrrar skýrslu.

Lesa meira

Viðvörun - stormur eða rok - 24.2.2015

Búist er við stormi eða roki á landinu og hætt við samgöngutruflunum, fyrst um landið sunnan- og vestanvert.

Gengur í suðaustan og austan 20-28 m/s sunnan- og vestanlands á miðvikudegi með snjókomu eða slyddu en síðar rigningu syðst. Hægari og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi en hvessir einnig þar síðdegis með ofankomu. Vægt frost en hiti um eða yfir frostmarki sunnantil seinnipartinn.

Á miðvikudagskvöld og aðfaranótt fimmtudags dregur verulega úr vindi og úrkomu á landinu. Þó má reikna með að áfram verði hvasst og snjókoma á Vestfjörðum og gæti gengið í norðan ofsaveður þar á fimmtudagsmorgun með talsverðri ofankomu.

Lesa meira

Samanburður á færsluhraða GPS stöðva - 22.2.2015

Nú er hægt að skoða kort sem ber saman færsluhraða á GPS stöðvum í nágrenni Bárðarbungu síðastliðinn mánuð við færsluhraða frá 21. september 2014 til dagsins í dag.

Dagsetningin 21. sept. er valin vegna þess að þá er talið að færslur tengdar framrás kvikugangsins hafi hætt og að færslumerkin kringum Bárðarbungu eftir það, tengist eingöngu sigi öskjunnar.

Lesa meira

Viðvörun - ofsaveður syðst á landinu - 21.2.2015

Búist er við stormi á landinu í nótt og á morgun með ofsaveðri (meðalvindi yfir 28 m/s) syðst.  Hvessir í nótt; austan 20-30 m/s á sunnanverðu landinu á morgun, snjókoma og skafrenningur, hvassast með suðurströndinni.

Búast má við að hviður við fjöll sunnan- og suðvestanlands geti farið yfir 40 m/s í nótt og á morgun. Versta veðrið verður sunnanlands. Hár vindstyrkur ásamt snjókomu og skafrenningi þýðir að skyggni verður lítið sem ekkert og ekkert ferðaveður.

Þó úrkomuminna verði í öðrum landshlutum er vindstyrkur þar nægur til að hreyfa lausan snjó sem fyrir er og mynda kóf og tefja ferðalög eða hamla þeim.

Lesa meira

Þorraþing Veðurfræðifélagsins - 16.2.2015

Þorraþing Veðurfræðifélagsins fór fram þriðjudaginn 17. febrúar 2015 í húsakynnum Veðurstofunnar að Bústaðavegi 7. Að loknum fyrirlestrum var gengið til aðalfundarstarfa.

Veðurfræðifélagið og þing þess eru opin öllum sem áhuga hafa á veðri og veðurfari.

Lesa meira

Viðvörun vegna vatnavaxta og hláku - 13.2.2015

Spáð er mikilli rigningu sunnan og vestanlands með hlýindum síðdegis á morgun (laugard. 14. febrúar) auk hlýinda um allt land og fram á sunnudag.

Varað er við vexti í ám á Snæfellsnesi, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Vöð yfir ár á þessum svæðum geta orðið varhugaverð.

Sunnanáttin sem veldur hlákunni er hvöss og má búast við að hún nái stormstyrk þar sem hún steypir sér niður af fjöllum um landið V- og N-vert, samfara mjög snörpum vindhviðum.

Síðdegis á sunnudag dregur úr vindi og kólnar, en snýst síðan í suðvestan éljaveður.

Lesa meira

Tíðarfar í janúar 2015 - 2.2.2015

Mánuðurinn var kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í janúar á seinni árum og var hitinn undir meðallagi síðustu tíu ára alls staðar á landinu, en víðast hvar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 nema sums staðar sunnanlands. Úrkomusamt var um nær allt land en þó ekki nærri metum. Nokkuð var umhleypingasamt en þó ekki mörg stórviðri.

Lesa meira

Tíðarfar ársins 2014 - 26.1.2015

Árið 2014 einkenndist af miklum hlýindum meginhluta ársins en víða var mjög úrkomusamt og sumarið sólarrýrt. Óvenjuhlýtt var á landinu öllu. Við norðurströndina og víða austanlands er árið það hlýjasta frá upphafi mælinga, þar á meðal bæði í Grímsey og á Teigarhorni þar sem mælt hefur verið samfellt að kalla frá 1874 og 1872. Þrátt fyrir hlýindin þótti tíðarfar nokkuð blendið því sumarið var dauft um landið sunnan- og vestanvert. Þrálátar úrkomur voru austanlands framan af ári og það endaði með illviðrasömum desember.

Lesa meira

Jökulsá á Fjöllum - krapastífla - 20.1.2015

Ís hrannast upp við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði.

Sú íshella sem lá yfir ánni og bökkunum hefur brotnað upp. Hrannir, jökulskarir og ísruðningur safnast fyrir. Þetta er stærsta krapastífla í ánni síðan í desember 2010 og þekur nokkra kílómetra farvegarins.

Ef ís og krapi hrannast upp í meira mæli gæti vatn haldið áfram að flæða upp á veginn. Aukist rennsli árinnar vegna snjóbráðnunar eða rigningar, þá getur áin bólgnað upp enn frekar.

Lesa meira

Nýr ráðherra í heimsókn - 8.1.2015

Nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, heimsótti Veðurstofu Íslands.

Sigrún á að baki farsælan feril í stjórnmálum auk þess að búa að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Sigrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ríki og borg og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í sextán ár.

Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála.

Sigrún var kjörin á þing vorið 2013 og hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verið formaður Þingvallanefndar auk þess að gegna embætti þingflokksformanns.

Lesa meira

Tíðarfar í desember 2014 - 5.1.2015

Mánuðurinn var kaldur suðvestanlands en hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 í öðrum landshlutum, en undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Nokkuð umhleypinga- og illviðrasamt var í veðri og úrkoma víðast yfir meðallagi. Snjór var meiri en að jafnaði í desember.

Lesa meira


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica