Fréttir
í jökli er dæld með hringlaga sprungum utan um
Vestari Skaftárketillinn 19. ágúst 2000, skömmu eftir hlaup. Horft til suðausturs.

Lokafundur jöklarannsóknarverkefnisins SVALI haldinn á Grænlandi

Öndvegisrannsóknaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar

5.6.2015

Þessa dagana fer fram á Grænlandi lokafundur jöklarannsóknarverkefnisins SVALI sem er þáttur í Öndvegisrannsóknaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar en þar er fengist við margvíslegar rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga (sjá TFI eða TRI). Veðurstofan tekur þátt ásamt Jarðvísindastofnun Háskólans en verkefnið hófst árið 2010.

Fundurinn er hluti af ráðstefnu er nefnist Ilulissat Climate Days, með áherslu á breytingar á freðhvolfi Grænlands. Áherslur SVALA fundarins eru aftur á móti:

  • Breytingar á landís á Norðurskautssvæðinu og við Norður-Atlantshaf
  • Breytingar á skriðjöklum og jökulhvelum, skilningur á ferlum, áhrif á sjávarborð

SVALI er norrænn samstarfsvettvangur fyrir jöklafræðinga við sautján rannsóknarstofnanir og háskóla þar sem fengist hefur verið við greiningu jöklamælinga og líkanreikninga á veðurfari, afkomu jökla og ísflæði. Unnið var að endurbótum á reiknilíkönum og ritaðar yfirlitsskýrslur. Mikilvægur þáttur í verkefninu er dreifing upplýsinga um jöklabreytingar til hagsmunaaðila og almennings. Verkefnisstjóri á Veðurstofu Íslands er Tómas Jóhannesson.

Áframhaldandi rannsóknir staðfesta hraðvaxandi breytingar á freðhvolfi Grænlands og Norðurheimsskautsins – jökulhvelum, hafís og freðmýrum. Á Grænlandsjökli hefur bráðnunin meira en tvöfaldast, fjöldi ísjaka hefur aukist vegna örrar framrásar skriðjökla og hafísbreiðan hefur þynnst með styttri hafístímabilum og minni hafísþéttleika. Þetta eru magnaðar birtingarmyndir hnattrænnar hlýnunar. Bráðnunin sumarið 2012 sló met og náði í fyrsta skipti yfir allan Grænlandsísinn frá austri til vesturs. Nýlegir atburðir sem þessi vekja enn meiri athygli á Grænlandi en áður, einkum með tilliti til áhrifa á sjávarstöðu víða um heim.

Ráðstefnan Ilulissat Climate Days skoðar nýlegar, yfirstandandi og væntanlegar breytingar á ísnum á Grænlandi með sérstaka áherslu á afleiðingarnar fyrir grænlenskt samfélag, bæði hefðbundna þætti og ný tækifæri. Þetta er sjálfstætt framhald ráðstefnunnar Nuuk Climate Days sem haldin var 2009 með þátttöku yfir 150 vísindamanna, hagsmunaaðila og stefnumótenda.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica