Fréttir

Forsida

Veðurstofa Íslands tekur þátt í fjölþjóðlegu verkefni um bætta áhættustjórnun vegna náttúruvár - 18.12.2023

MEDiate verkefnið hlaut árið 2022 tæplega 5 milljón evra styrk til þriggja ára úr Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Verkefnið snýst um að þróa kerfi fyrir fjölþátta náttúruvá og að varpa ljósi á seiglu samfélagsins til að bæta staðbundna og svæðisbundna áhættustjórnun vegna náttúruvár.


Mediate hópurinn samanstendur af 18 samstarfsaðilum frá sjö Evrópulöndum og leiðir rannsóknastofnunin NORSAR verkefnið.

Lesa meira
COP28_S_engl_landscape-01-1200x940

Veðurstofan stendur fyrir viðburði á COP28 - 7.12.2023

Hvert er hlutverk ríkisvaldsins þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum? En sveitarstjórnastigsins? Hvernig getum við fest aðlögun að loftslagsbreytingum í sessi þegar kemur að ákvörðunum til framtíðar? Hvernig komum við auga á samlegð á milli mótvægisaðgerða og aðlögunar? Hvernig er norrænu samstarfi háttað og hvaða tækifæri felast í frekara samstarfi um aðlögun að loftslagsbreytingum? Hvaða áhrif geta Norðurlöndin haft á alþjóðavísu á sviði aðlögunar?

Þessar spurningar og margar fleiri verða ræddar á hliðarviðburði sem skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar stendur fyrir í Norræna skálanum á COP28 í Dubai. Viðburðurinn fer fram þann 9. Desember en einnig verður hægt að fylgjast með honum í streymi í gegnum þennan hlekk.

Lesa meira
5-des-2023

Tíðarfar í nóvember 2023 - 5.12.2023

Nóvember var þurr um land allt og tíðarfar gott. Það var hlýtt á sunanverðu landinu en kaldara norðanlands. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum en það var tiltölulega hægviðrasamt.

Lesa meira
Mynd-2

Hitafar ársins 2023 - 30.11.2023

Síðustu mánuðir eru óvenjuheitir og byggt á því er reiknuð hitaspá fyrir árið 2023. Líklega verður hnattrænn hiti ársins 1,43 ± 0,04°C  umfram meðaltal áranna 1850 – 1900. Þessar niðurstöður byggja á fyrstu 10 mánuðum ársins. Þetta er 0,1°C heitara en síðasta  metár, en í Parísarsamningnum  er má finna loforð um að  “halda hækkun á hitastigi á heimsvísu vel undir 2°C yfir gildum fyrir iðnvæðingu og fylgja eftir viðleitni til að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C”. Hlýnun jarðar síðustu áratugi má reka til losunar gróðurhúsalofttegunda. Nokkurra ára fresti bætist svo við hlýnun sem drifin er af veðurfarsfyrirbærinu El Nino, og í ár gætir einmitt El Nino. Þar sem mörg ár líða á milli öflugra El Nino atburða veldur hnattræn hlýnun í millitíðinni því að þau verða yfirleitt metár.

Lesa meira
Skjamynd-hiti-

Hlýjasti október síðan mælingar hófust - 9.11.2023

Október 2023 var hlýjasti október mánuður sem mælst hefur á heimsvísu. Yfirborðshiti var að meðaltali  15,3 °C, sem er 0,85  °C yfir meðaltali samanburðartímabilsins 1991-2020 fyrir október og 0,4 °C  yfir fyrra meti, sem var október 2019. Hitafrávik á jörðinni fyrir október 2023 var það næst hæsta sem sést hefur síðan mælingar hófust, en metið á september mánuður þessa árs.

Lesa meira

Tíðarfar í október 2023 - 2.11.2023

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í október. Hiti á landsvísu var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Það var að tiltölu kaldast á Norðausturlandi en hlýrra suðvestanlands. Það var sérlega hægviðrasamt í lok mánaðar.

Lesa meira
HB-og-Gulli

Fjórða samantektarskýrsla vísindanefndar - 18.10.2023

Í nýrri skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi segir að ekki verði um villst, að loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Skýrslan var kynnt í dag og er hún fjórða samantektarskýrslan sem kemur út á vegum vísindanefndar sem skipuð er í hvert sinn af ráðherra. Fyrsta skýrslan kom út árið 2000, en síðasta skýrsla kom út 2018.

Lesa meira
Visindaskyrsla_FB_Poster

Fjórða samantektarskýrsla vísindanefndar kynnt á morgun - 17.10.2023

Fjórða samantektarskýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar verður gefin út og kynnt miðvikudaginn 18. október í Grósku, Reykjavík. Kynningunni verður streymt beint og hefst hún kl. 8.30 og stendur til kl. 10.00. 

Lesa meira
Ruv--1-

Líkur hafa aukist á að nýr kvikugangur myndist undir Fagradalsfjalli - 13.10.2023

Merki um landris á Reykjanesskaga mældust fljótlega eftir að eldgosinu við Litla Hrút lauk í byrjun ágúst í sumar.  Landrisið er á svipuðum slóðum og það var fyrir gosið 10. júlí sem stóð yfir í um 4 vikur. Nýjustu GPS mælingar gefa nú vísbendingar um hröðun á landrisinu.

Lesa meira
Hopmynd_Ofanflodahopur_2023

Vel heppnaður samráðsfundur ofanflóðastarfsfólks í Neskaupstað - 6.10.2023

Samráðsfundur snjóathugunarmanna og ofanflóðastarfsfólks Veðurstofunnar var haldinn í Neskaupstað dagana 3.-5. október. Fundirnir eru árlegir, en annað hvert ár eru þeir haldnir í Reykjavík og hitt árið á öðrum stöðum landsins þar sem snjóathugunarmenn starfa. Stór hluti ofanflóðastarfsfólks Veðurstofunnar tók einnig þátt í vel heppnaðri vinnustofu sem Almannavarnarnefnd Austurlands og Veðurstofan stóðu fyrir í Neskaupstað. Þar hittust hinir ýmsu aðilar á svæðinu og ræddu ofanflóðamál útfrá mismunandi sjónarhornum.


Lesa meira

Tíðarfar í september 2023 - 4.10.2023

Hiti í september var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Úrkoma var yfir meðallagi á mest öllu landinu. Mikið vatnsveður gerði á Austfjörðum, Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjarðarkjálkanum dagana 18. og 19.

Lesa meira

Hægt hefur á landrisinu í Öskju - 3.10.2023

Mælingar sýna að hægt hefur á landrisinu í Öskju frá því í byrjun ágúst. Þetta er eitt af því sem var rætt á stöðufundi sérfræðinga Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og Almannavörnum sem haldinn var á Veðurstofunni. Á nokkrum GPS-mælum cGNSS sem staðsettir eru við Öskju hefur ekkert landris mælst frá því í lok ágúst. Á sama tímabili eru engar vísbendingar um aukna jarðskjálftavirkni eða óeðlilegar breytingar á jarðhitavirkni í Öskju.

Lesa meira
Mynd-2-island

Úrkoma og úrkomuákefð í vatnsveðrinu á austanverðu landinu í september. - 29.9.2023

Veðurlíkan Veðurstofu Íslands spáði mikilli úrkomu á austanverðu landinu, einkum á norðanverðum Austfjörðum. Þann 18. og 19. september síðastliðinn var lægð á austurleið fyrir sunnan land en sömuleiðis nálgaðist landið hlý lægð úr suðaustri. Veðraskil tengd þessum lægðum báru mikla úrkomu inn á austanvert landið, einkum Austfirði

Lesa meira
Adlogun6

Skýrslan Loftslagsþolið Ísland kynnt í gær - 27.9.2023

Loftslagsþolið Ísland er yfirskriftin á skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis, orku og loftslagsráðuneytið. Skýrslan inniheldur tillögur stýrihóps sem skipaður var af ráðuneytinu í október 2022 um gerð landáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Eins og segir í skýrslunni þá er nauðsyn aðlögunaraðgerða orðin veruleiki vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar á þessari öld og því þarf að líta til loftslagsþols byggðar, innviða, atvinnuvega og seiglu mismunandi hópa fólks og lífríkis frammi fyrir loftslagsbreytingum.

Lesa meira
Sumar-vidvaranir

Viðvaranir í sumar færri en síðustu ár - 14.9.2023

Sumarið 2023 var fremur viðburðalítið er kemur að veðurviðvörunum, en einungis sjö gular viðvaranir voru gefnar út þetta sumarið og voru þær allar vegna vinds. Þær skiptast þannig að fimm voru gefnar út í júní, tvær í júlí, en engin viðvörun var gefin út í ágúst mánuði. Sumarið sker sig út er horft er til baka, en síðastliðin fimm sumur voru um 36 viðvaranir gefnar út að jafnaði.

Lesa meira

Merki um landris á Reykjanesskaga - 12.9.2023

Merki um landris er farið að sjást á Reykjanesskaga eftir að eldgosinu við Litla Hrút lauk

siðan byrjun águst.  Sérfræðingar á Veðurstofunni segja að þeim sýnist á GPS-mælum að landrisið sé á svipuðum slóðum og fyrir síðasta gos í sumar. Þó er aflögun ennþá of litil til að hún sjáist á gervitunglamyndum. Líklegast erum við að horfa á þessa langtímaviðvörun sem við höfum áður haft. Land hefur tekið að rísa um leið og fyrri tveimur gosum lauk en eitthvað hægara en vísbendingar benda til nú.

Lesa meira

Tíðarfar í ágúst 2023 - 5.9.2023

Ágúst var hlýr um meginhluta landsins, nema allra austast. Það var óvenju hægviðrasamt og úrkoma undir meðallagi. Það var mjög þurrt fram eftir mánuðinum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á mörgum stöðum mældist meirihluti mánaðarúrkomunnar á einum til tveimur sólarhringum seint í mánuðinum.

Lesa meira
Forsdiumynd-bjolfur

Unnið að uppsetningu veðursjár á Bjólfi - 5.9.2023

Veðurstofa Íslands er þessa dagana að koma upp veðursjá á toppi Bjólfs fyrir ofan Seyðisfjörð. Þetta er hluti af uppbyggingu á veðursjárkerfi Íslands sem unnið hefur verið að síðustu ár og er áætlað að ljúki á þessum áratug. Í því felst að bæta mælingar og vöktun á veðri yfir öllu Íslandi og stórum hluta miðana í kring um landið. Veðurstofan hefur verið með 2 veðursjár í rekstri, á Miðnesheiði við Keflavík og á Miðfelli á Fljótsdalsheiði, síðan 2012 og er með áætlun að fjölga þeim í 6 á þessum áratug.

Lesa meira

Rennsli í Skaftá nálgast nú dæmigert grunnrennsli - 4.9.2023

Uppfært 4. september kl. 13:45

Rennsli í Skaftá hefur farið hægt minnkandi undanfarna daga og nálgast nú dæmigert grunnrennsli við Sveinstind. Niðri í byggð fer hlaupvatn hægt sjatnandi. Í þessu hlaupi mældist mesta rennsli við Sveinstind tæplega 750 m3/s og er það mun minna en í stærstu hlaupum. T.d. var hámarksrennslí í hlaupinu 2021 áætlað um 1500 m3/s og 3000 m3/s í hlaupinu 2015  Áætlað er að 220 gígalítrar (=0.22 km3) hlaupvatns hafi runnið fram við Sveinstind. Að vatnsmagni er þetta því meðalstórt hlaup úr Eystri Skaftárkatli, þótt rennslishámark hafi verið í lægra lagi. Ekki sjást þess merki að rennsli sé hafið úr Vestari Skaftárkatli en hafa ber í huga að hann getur hlaupið hvenær sem er úr þessu.

Lesa meira
Esjuskafl-24-8

Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni er horfinn í ár - 29.8.2023

Það hefur verið fylgst með Esju skaflinum síðan á 19. öld og hann stundum nefndum óformlegur mælikvarði á tíðarfar á suðvesturhorni landsins. Skaflinn hefur ekki horfið síðan 2019 en þá hafði hann ekki horfið í ein sjö ár. Skaflinn sést venjulega vel frá höfuðborginni, en hann er staðsettur við efstu brún Kistufellsmegin í Gunnlaugsskarði.

Lesa meira
Viti-lake-from-the-North-mynd-Michelle-Parks

Engar sjáanlegar breytingar á jarðhitavirkni í kringum Öskju og Víti - 23.8.2023

Ferð vísindamanna frá Veðurstofunni að Öskju heppnaðist vel og er nú lokið.

Fyrsta niðurstöður sýna engar breytingar á gasi eða vatni frá fyrri árum en verið er að greina sýnin betur. Engar sjáanlegar breytingar eru á landslagi og mælingar á hitastig og sýrustigi benda ekki til þess að breytingar hafa orðið á jarðhitavirkni í kringum Öskju og Víti. Tilkynningin sem barst þann 12.ágúst um gufustrók sem sást við jaðar Bátshrauns hefur verið túlkaður sem ryk vegna grjóthruns úr bröttum hlíðum öskjunnar.

Lesa meira
D929d32b-ab4a-4bfe-9306-7d462394a836

Óbreytt staða í Öskju - 15.8.2023

Aflögunarmælingar (GPS og InSAR) sýna að landris heldur áfram í Öskju á stöðugum hraða síðan í lok september 2021. Dýpi og staðsetning á upptökum aflögunarinnar hefur ekki breyst síðan í september 2021, en upptökin eru á um 3 km dýpi og ekki eru vísbendingar um að það hafi breyst.  

Lesa meira
Páll Bergþórsson í fyrstu veðurfréttum í sjónvarpi

Páll Bergþórsson 100 ára í dag - 13.8.2023

Páll Bergþórsson veðurfræðingur og fyrrv. veðurstofustjóri er 100 ára í dag. Páll fæddist að Fljótstungu í Hvítársíðu 13. ágúst 1923. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944. Að loknu tveggja ára námi í verkfræði við Háskóla Íslands hélt hann til Svíþjóðar 1947 og stundaði nám í veðurfræði við Sveriges Meteorologiska och Hydrologiska Institut (SMHI) í Stokkhólmi og lauk þar prófi 1949. Heim kominn frá veðurfræðinámi 1949 hóf Páll störf sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands en hann hafði áður starfað þar sem aðstoðarmaður frá 1946 til 1947 og sumarið 1948. Meginverkefni hans á stofnuninni allt til 1982 sneru að almennri veðurspáþjónustu og flugveðurþjónustu. Hann var deildarstjóri veðurfarsrannsókna frá 1982 til 1989. Árið 1989 var Páll skipaður veðurstofustjóri frá 1. október og gegndi því embætti til ársloka 1993, þá sjötugur að aldri.

Lesa meira

Kaflaskil í eldvirkninni á Reykjanesskaga - 10.8.2023

Uppfært 10. ágúst 2023
Veðurstofan hefur uppfært hættumatskortið fyrir gosstöðvarnar við Litla-Hrút. Það skal tekið skýrt fram að enn er hætta nærri gossvæðinu. Mikill hiti leynist í nýja hrauninu. Sums staðar er aðeins þunn skel yfir annars funheitu og óstorknuðu hrauni. Jaðrar nýja hraunsins eru óstöðugir og úr þeim geta fallið stóri hraunmolar. Gas sem sleppur úr hrauninu getur safnast í dældir. Í kjölfar umbrotanna leynast líka sprungur á svæðinu sem skapa hættu.

Lesa meira

Tíðarfar í júlí 2023 - 2.8.2023

Júlí var mjög þurr á sunnan- og vestanverðu landinu. Á allmörgum stöðvum í þeim landshlutum mældist heildarúrkoman innan við 10 mm og er víða sú minnsta sem vitað er um í júlí. Sólskinsstundir í Reykjavík voru óvenju margar og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri. Norðan- og norðaustanáttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Það var kalt á norðan- og austanverðu landinu en að tiltölu hlýrra á Suðvesturlandi.

Lesa meira

Tíðarfar í júní 2023 - 4.7.2023

Mánuðurinn var hlýr á austurhelmingi landsins. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Austurlandi. Meðalhitamet júnímánaðar féllu á þónokkrum stöðum, t.d. á Akureyri og Egilsstöðum, og á Hallormsstað mældist hæsti mánaðarmeðalhiti sem mælst hefur í júní á Íslandi. Í Reykjavík var mánuðurinn úrkomusamur og sólarsnauður, en þar var nýliðinn mánuður fimmti úrkomusamasti og sjötti sólskinsminnsti júnímánuður frá upphafi mælinga.


Lesa meira
Skjalftar_myrdalsjokull

Virkni í Mýrdalsjökli - 30.6.2023

Aukin skjálftavirkni hefur verið í Kötlu síðustu daga. Skömmu eftir miðnætti í nótt 30. júní hófst hrina og klukkan 6:30 höfðu rúmlega 95 skjálftar mælst, 8 yfir 3 stig og sá stærsti 4.4. Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli síðustu vikur er sú mesta síðan haustið 2016. Mælingar sýna aukningu í rafleiðni í Múlakvísl sem er nú óvenjuhá miðað við árstíma. Gasmælir á Láguhvolum sýnir aukningu í jarðhitagasi. Túlkun mælinga bendir frekar til jarðhitavirkni en ekki er hægt að útiloka kvikuhreyfingar.

Lesa meira
Anna-hulda-pallbord

Tækifæri fyrir Evrópu til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga - 27.6.2023

Áberandi samhljómur er á milli áskorana Evrópuþjóða þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga og hvaða aðferðum skal beita til þess að undirbúa samfélög álfunnar undir afleiðingar þeirra. Samvinna og samstaða, sameiginlegt þekkingarnet, langtímahugsun, réttlát umskipti og tafarlaus innleiðing aðgerða eru meðal lykilatriða til þess að búa sig undir breyttan heim samkvæmt evrópskri ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem fram fór í Dublin í vikunni.

Lesa meira
Grimsvotn-nr-1

Engar sýnilegar breytingar í virkni í Grímsvötnum - 19.6.2023

Árleg vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands á Vatnajökul, var farin í fyrstu viku júní.  

Frá síðustu áramótum hafa um það bil 10-30 skjálftar (stærri en 1,0) mælst í hverjum mánuði í Grímsvötnum þar sem mest virknin var í seinnihluta apríl og byrjun maí. Stærsti skjálfti ársins 2023 mældist 3,3 að stærð þann 23. apríl. Frá því um miðjan maí hefur dregið úr skjálftavirkni. 

Lesa meira
Askja-gervitunglamynd

Land heldur áfram að rísa í Öskju á stöðugum hraða og eru engar vísbendingar um aukna virkni umfram það. - 16.6.2023

Aflögunarmælingar (GPS og InSAR) sýna að landris heldur áfram í Öskju á stöðugum hraða síðan í lok september 2021. Landris í Ólafsgígum, rétt vestan Öskjuvatns, nemur nú um 60 cm síðan það hófst í ágúst 2021. Lesa meira
Header-fyrir-FB

Samvinna sterkasta vopnið til þess að byggja upp loftslagsþol - 14.6.2023

Á vefsíðu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar var í dag birt ágrip  yfir helstu niðurstöður norrænnar ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, NOCCA 2023, sem fram fór í Reykjavík í apríl. Ráðstefnan fjallaði meðal annars um leiðir til þess að festa aðlögun að loftslagsbreytingum betur í sessi þegar kemur að stefnumótun- og ákvarðanatöku á sveitarstjórnastigi og hvernig Norðurlöndin geti nýtt slagkraft sinn til góðra verka í átt að loftslagsþoli.

Lesa meira

Tíðarfar í maí 2023 - 2.6.2023

Maí var hlýrri en að meðallagi um allt land, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var sólríkt og þurrt á Norðaustur- og Austurlandi en óvenju þungbúið og úrkomusamt á vestanverðu landinu. Aldrei hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í maímánuði í Reykjavík og þar mældist meira en tvöföld meðalmaíúrkoma. Nokkuð var um hvassviðri síðari hluta mánaðar, en þá voru suðvestlægar áttir ríkjandi.


Lesa meira

Fjöldi viðvarana vegna veðurs í meðallagi veturinn 2022-2023 - 2.6.2023

Útgefnar viðvaranir vegna veðurs síðastliðinn vetur voru 325 talsins og er sá fjöldi í meðallagi. Mun fleiri viðvaranir voru gefnar út veturinn 2019 – 2020 og 2021 – 2022, en þá var fjöldi útgefinna viðvarana 439 og 426. Flestar viðvaranir voru gefnar út í febrúar, 16 appelsínugular og 64 gular samtals 80 viðvaranir sem eru tæplega þrjár viðvaranir á dag að meðaltali.

Lesa meira
Gervigreind-forsidumynd

Rannsóknir benda til þess að notkun gervigreindar geti aukið nákvæmni í veðurspám - 19.5.2023

Þegar veðurfræðingar gera spár byggja þeir á reikniniðurstöðum veðurfræðilíkana og nýjustu veðurathugana, hvort sem þær koma frá fjarkönnun (veðurtunglum, veðursjám o.s.frv.) eða mælingum veðurstöðva. Nútíma veðurspálíkön nýta öll þau  eðlisfræðilögmál sem ráða hreyfingum og orkuskiptum andrúmsloftsins. Þau eru sett fram sem stærðfræðijöfnur á tölvutæku formi í flóknu forriti sem er yfirleitt kallað veðurspálíkan. Veðurfræðilíkön þróuðust á síðari hluta 20. aldar og fleygði fram samfara því sem tölvur urðu öflugri. Á síðustu árum hefur verið mikil þróun í að nota gervigreind til að bæta úrvinnslu veðurgagna, m.a. til þess að bæta veðurspár úr veðurspálíkönum. Nýjustu rannsóknir benda til þess að nú sé þeim áfanga náð að með aðstoð gervigreindar verði spár nákvæmari en með hefðbundnum aðferðum.

Lesa meira
Katla005052023

Skjálftahrina í Kötluöskju - 5.5.2023

Uppfært kl. 11:40

Mælingar benda til þess að virknin í Kötluöskju teljist nú til eðlilegrar bakgrunnsvirkni eldstöðvarinnar. Fluglitakóðinn fyrir Kötlu hefur verið færður aftur niður á grænan. Óvissustig Almannavarna er áfram í gildi og náið verður fylgst með þróun mála í Mýrdalsjökli.

Lesa meira

Tíðarfar í apríl 2023 - 3.5.2023

Tíðarfar var hagstætt í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr á landinu öllu. Það kólnaði þó talsvert síðustu vikuna.

Lesa meira

Gott skipulag byggðar og landnotkun mikilvægasta forvörnin til að draga úr slysum og tjóni vegna náttúruhamfara - 27.4.2023

Áfram er unnið að því að skrá snjóflóð og krapaflóð sem féllu í hrinunni á Austfjörðum í lok mars og vinna úr ýmsum gögnum. Sérstök áhersla er lögð á að greina þær aðstæður sem sköpuðust á stuttum tíma í upphafi hrinunnar þegar snjóflóð féllu niður í byggð í Neskaupstað. Tilgangurinn er að draga lærdóm af flóðunum m.a. til þess að auka líkurnar á því að snjóflóðavakt geti greint slíkar aðstæður tímanlega. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi með íbúum Fjarðabyggðar sem haldinn var á dögunum.

Lesa meira
Logo_ERIC_definitivo_566_0

Umfangsmesta gagnaþjónusta fyrir jarðvísindi frá upphafi opnuð - 26.4.2023

Evrópsku innviðasamtökin, EPOS ERIC sem Ísland er aðili að, opnuðu í gær aðgengi að alþjóðlegri gagnagátt fyrir jarðvísindi. Gagnagáttin er afrakstur 20 ára rannsóknarstarfs og nýsköpunar á vegum samtakanna.

Lesa meira
Yfirlitsmynd

Sveitarfélög skipta sköpum þegar kemur að því að byggja upp loftslagsþolin samfélög - 19.4.2023

Norræn ráðstefna um aðlögun að loftslagsbreytingum, NOCCA23 , fór fram í Reykjavík 17. og 18. apríl. Áherslumál ráðstefnunnar í ár voru áskoranir norrænna sveitarfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hvaða leiðir þau geta farið til þess að búa sig undir þær.

Á ráðstefnunni voru saman komnir aðilar sem starfa á sviði aðlögunar, starfsmenn og stefnumótendur frá sveitarfélögum og ráðuneytum, fagstofnunum og fyrirtækjum, háskólum og félagasamtökum.

Lesa meira

Styttist í nýja vef Veðurstofunnar - 18.4.2023

Veðurstofa Íslands undirritaði á dögunum samning við Origo um smíði á nýjum vef, en verkið var boðið út af Ríkiskaupum á síðasta ári. Um er að ræða þróunarsamstarf sem nær til vinnu við hönnun, smíði, uppsetningar og innleiðingar á fjölbreyttum gagnatenginum og veflausnum. Verkefnið er umfangsmikið og verða nýjar afurðir vefsins birtar notendum í áföngum og reiknað er með að fyrstu afurðir líti dagsins í sumar.

Lesa meira
Header-fyrir-FB

Norræn ráðstefna um loftslagsbreytingar og aðlögun fer fram í Reykjavík í næstu viku - 14.4.2023

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023 og af því tilefni stendur Veðurstofa Íslands, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, fyrir norrænni ráðstefnu um loftslagsbreytingar og aðlögun, NOCCA23. Ráðstefnan fer fram dagana 17. og 18. apríl á Grand hótel. Rafrænni skráningu er lokið en mögulegt er að skrá sig á ráðstefnuna við innganginn. Þeir sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með fyrri ráðstefnudeginum í beinu streymi. Ekki verður streymt frá vinnustofunum sem fram fara á seinni deginum en hægt verður að skrá sig sérstaklega á þær við innganginn.


Fyrri dagur ráðstefnunnar samanstendur af fjölbreyttum fyrirlestrum en á seinni deginum gefst fundargestum tækifæri á að taka í áhugaverðum og skemmtilegum vinnustofum þar sem meðal annars verður notast við íslensk tilfelli til þess leita að úrlausnum áskorana. Dagskrá ráðstefnunnar er að finna á

www.nocca.is

Lesa meira
Icpp

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er ekki töpuð, en bregðast þarf fljótt við - 13.4.2023

Á fréttamannafundi Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental panel on Climate Change, IPCC) þann 20. mars var kynnt samantektarskýrsla um stöðu og horfur loftslagsmála á heimsvísu. Þar með var bundinn endahnútur á margra ára vinnu hundruða sérfræðinga við mat á viðfangsefninu.  

Lesa meira

Ráðherra setur af stað stefnumörkun um náttúruvá - 13.4.2023

Framkvæma þarf hættumat vegna allrar náttúruvár og tryggja að mælar og upplýsingainnviðir standist tæknikröfur. Þá er æskilegt að yfirfara núverandi fjármögnunarleiðir fyrir hættu- og áhættumat með það að markmiði að stuðla að því að það nái yfir alla náttúruvá. Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag.

Lesa meira

Aðstæður sem sköpuðust í aðdraganda snjóflóðanna í Neskaupstað voru óvenjulegar - 11.4.2023

Á samráðsfundi snjóflóðasérfræðinga Veðurstofunnar sunnudaginn 26. mars, daginn áður en fyrstu flóðin féllu í Neskaupstað, var lagt mat á aðstæður á Austurlandi vegna snjókomuspár. Staðan var metin þannig að ekki væri ástæða til að vara við snjóflóðahættu í byggð á Austfjörðum þá um kvöldið, heldur þyrfti að meta aðstæður aftur um morguninn. Þær aðstæður sem sköpuðust í aðdraganda fyrstu snjóflóðanna í Neskaupstað í þessari hrinu voru afar óvenjulegar og líklega hafa sérstakar aðstæður með frosti og lausamjöll orðið til þess að fyrstu flóðin sem fóru af stað fóru jafn langt og voru jafn kraftmikil og raun bar vitni á mánudag.

Lesa meira

Fimm sveitarfélögum boðin þátttaka í verkefni innan aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga - 11.4.2023

Fimm sveitarfélögum hefur verið boðin þátttaka í tilraunaverkefni sem miðar að því að aðstoða íslensk sveitarfélög í þeirri vinnu sem fram undan er við að greina áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga og móta aðgerðir til aðlögunar. Þannig verði sveitarfélögum færðir skýrari ferlar og aðferðir sem gera þeim kleift að búa sig undir möguleg áhrif loftslagsbreytinga á innviði, atvinnugreinar, efnahag og samfélög. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Akureyrarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Fjallabyggð, Reykhólahreppur og Reykjanesbær.

Lesa meira

Varnarvirki í Neskaupstað sönnuðu gildi sitt - 5.4.2023

Undanfarna daga hefur verið unnið að mælingum á snjóflóðunum sem féllu í Neskaupstað í síðustu viku (27.-31. mars) og hafist handa við að vinna úr gögnum. Snjóathugunarmenn og fleiri sérfræðingar Veðurstofunnar og verkfræðistofa hafa farið um snjóflóðatungurnar og kannað umfang þeirra og kortlagt ummerki á gróðri og mannvirkjum. Upptök og úthlaupssvæði flóðanna hafa verið ljósmynduð af jörðu og úr lofti og fjallshlíðin kortlögð með flygildum. Mikilvæg aðstoð hefur fengist frá heimamönnum og hefur flygildi Björgunarsveitarinnar Gerpis nýst vel. Áfram verður unnið að mælingum og úrvinnslu gagna næstu daga og vikur.

Lesa meira

Tíðarfar í mars 2023 - 5.4.2023

Mars var mjög kaldur um land allt, kaldasti marsmánuður á landinu síðan 1979. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi nánast allan mánuðinn og að tiltölu var kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Óvenju þurrt og sólríkt var á suðvestanverðu landinu. Í Reykjavík var mánuðurinn bæði næstþurrasti og næstsólríkasti marsmánaður frá upphafi mælinga, en heildarúrkoma mánaðarins þar mældist aðeins 5,0 mm. Það var mjög úrkomusamt á Austfjörðum í lok mánaðar og töluverð snjóþyngsli. Fjöldi snjó- og krapaflóða féllu þar í lok mánaðar, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu tjóni.

Lesa meira

Misjöfn staða þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunar vegna þeirra - 5.4.2023

Þann 16. mars síðastliðinn stóð stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga fyrir málþinginu „Aðlögun að loftslagsbreytingum: Hvað vitum við og hvað þurfum við að gera?" Á málþinginu kom fram að staða þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunar að þeim er misjöfn á milli viðfangsefna, greina og sviða. Það sem meðal annars hefur staðið í vegi fyrir þekkingarsköpun er sú staðreynd að viðfangsefnið er tiltölulega nýtt í umræðunni og  fjármagn til rannsókna er oft af skornum skammti.

Lesa meira
Kort

Samantekt um ofanflóð á Austurlandi síðustu viku - 1.4.2023

Sunnudaginn 26. mars var bjart og fallegt veður á Austfjörðum. Talsverður snjór hafði safnast í byggð sumstaðar á fjörðunum vikuna á undan, en snjódýpt til fjalla var ekki óvenju mikil. Lítið snjóflóð féll af mannavöldum í Oddsskarði og annað lítið lausasnjóflóð var skráð í Seyðisfirði. Sunnudagskvöldið kom lægðarbóla að Austfjörðum með mikilli snjókomu aðfaranótt mánudags. Strax snemma að morgni mánudagsins 27. mars féll snjóflóð út í sjó innan við byggðina í Neskaupstað. Stuttu seinna féll snjóflóð úr Nesgili, sem er utarlega í byggðinni, og lenti það á fjölbýlishúsi við Víðimýri og fór að fleiri húsum.

Lesa meira

Aflétting hættustigs á Austfjörðum - 27.3.2023

Öllum rýmingum í Neskaupstað var aflétt klukkan 16 í dag. Rýmingum vegna snjóflóða- og krapaflóðahættu í Seyðisfirði og rýmingum vegna krapaflóðahættu á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði var einnig aflétt í kjölfarið. Hættustigi á þessum stöðum er þá aflýst en óvissustig vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum er áfram í gildi.

Lesa meira
Virk-vidurkenning-

Veðurstofa Íslands tilnefnt VIRKt fyrirtæki 2023 - 23.3.2023

Atvinnutenging VIRK hefur tilnefnt Veðurstofu Íslands sem VIRKt fyrirtæki 2023. Alls voru 16 fyrirtæki og starfsstöðvar á landinu öllu sem hlutu tilnefningu. Veðurstofan hefur átt í samstarfi við VIRK í nokkur ár með góðum árangri.  

Í tilkynningunni frá VIRK segir að framlag fyrirtækja og stofnanna eins og Veðurstofu Íslans skipti sköpum og að þau sýni samfélagslega ábyrgð í verki með því að bjóða einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði. Rannsóknir hafa sýnt að það að vera með vinnu er mikilvægt fyrir bæði heilsu og velferð einstaklingsins og því er mikilvægt að auka þátttöku þessa hóps á vinnumarkaði.  

Lesa meira

Alþjóðlegi veðurfræðidagurinn er í dag - 23.3.2023

Í dag er alþjóðlegi veðurfræðidagurinn sem haldinn er 23. mars ár hvert á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Þema dagsins í ár er „Framtíð veðurs, vatns og loftslags fyrir komandi kynslóðir“. „Við erum öll nátengd og deilum einni jörð með einum lofthjúpi og einu hafi“ segir í tilkynningu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni í tilefni dagsins. Þar er lögð áhersla á að veðrið, loftslag og hringrás vatnsins þekkir engin landamæri og hagar sér ekki eftir pólitískum vindum.

Lesa meira
Alþjóðlegur dagur vatnsins

Alþjóðlegur dagur vatnsins - 22.3.2023

Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur dagur vatnins, en Sameinuðu þjóðirnar halda upp á dag vatnsins árlega. Þema dagsins í ár er „Accelerate change“ sem má þýða „Stuðlum að straumhvörfum“ í ljósi þess að alþjóðasamfélagið á enn langt í land með að ná heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 6 sem er að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fyrir alla jarðarbúa fyrir árið 2030. Því markmiði verður ekki náð á núverandi hraða breytinga.

Eitt af verkefnum Veðurstofu Íslands er að fjalla um verndun og rannsóknir á vatnsauðlindinni, eðli hennar og skilyrðum til nýtingar. Þetta er gert með samstarfsverkefnum á sviði vatnafræða á innlendum og erlendum vettvangi. Hér á landi telja margir að nóg sé til af hreinu vatni á Íslandi og að hvorki þurfi að fara sparlega né varlega með vatn. Hins vegar eykst álag á vatn hér á landi ár frá ári.

Lesa meira

Enn tækifæri til þess að bregðast við hlýnun jarðar og skapa byggilega framtíð fyrir alla - 20.3.2023

Í dag gaf Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) út samantektarskýrslu um loftslagsbreytingar, Climate Change 2023: Synthesis Report (SYR). Skýrslan markar endalok sjötta matshrings (AR6) nefndarinnar og byggir á ályktunum allra vinnuhópa sem að honum hafa komið. Í skýrslunni eru niðurstöður fyrri skýrsla matshringsins samþættar og ljósi varpað á stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og afleiðingum.   

Lesa meira

Jarðskjáltavirkni í Öskju nokkuð jöfn frá áramótum - 17.3.2023

Mánaðarlegur langtímaeftirlitsfundur vegna jarðvár var haldinn í vikunni. Fundinn sitja jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands og rýna gögn síðasta mánaðar til að meta þróun í virkni eldstöðva, ásamt því að yfirfara vöktunarstig stofnunarinnar fyrir eldfjöll. Á fundinum var athyglinni sérstaklega beint að Öskju og Kötlu.

Lesa meira

Málstofa um Að­lögun að lofts­lags­breytingum: Hvað getum við gert og þurfum að gera? - 16.3.2023

Stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga býður til samtals fimmtudaginn 16. mars á milli klukkan 9-12.


Um er að ræða þverfaglega málstofu sem hefur það að markmiði að öðlast yfirsýn yfir stöðu þekkingar á sviði loftslagsbreytinga og aðlögunar en ekki síður að styrkja tengslanet á milli aðila sem starfa á þessu sviði. Á þessum fyrsta viðburði verður samráðsvettvangurinn kynntur og viðfangsefnið kynnt frá ýmsum sjónarhornum, enda áskorunin af því tagi að samráð og samvinna við rannsóknir og miðlun skiptir höfuðmáli.

Lesa meira

Tíðarfar í febrúar 2023 - 3.3.2023

Febrúar var hlýr um allt land. Mánuðurinn var umhleypingasamur, sérstaklega fyrri hluti mánaðar. Hann var einnig úrkomusamur á vestanverðu landinu en þurrari á Norðaustur- og Austurlandi. Það endurspeglast í sólskinsstundafjölda, en febrúar var t.a.m. sólríkur á Akureyri en fremur sólarsnauður í Reykjavík. Töluverðir vatnavextir voru í ám í kjölfar leysinga um miðjan mánuðinn. Ástandið var verst á vestanverðu landinu. Þar flæddu ár víða yfir bakka sína og skildu sums staðar eftir sig stærðar klaka eftir að hafa rutt sig. Víða urðu talsverðar skemmdir á túnum og vegum.

Lesa meira

Engin skýr merki um aukna virkni í Öskju - 17.2.2023

Jarðskjálftavirkni í Öskju hefur frá áramótum verið mjög keimlík þeirri virkni sem mældist árið 2022. Jarðskjálftavirkni jókst í ágúst 2021 samhliða landrisi sem líklega má rekja til kvikusöfnunar undir Öskju. Landris hefur haldist stöðugt síðan þá, en það dróg úr jarðskjálftavirkni á svæðinu í nóvember og desember sama ár og hefur hún haldist stöðug frá upphafi árs 2022.

Lesa meira
Askja_samanburdur_20230213

Engar mælingar sem útskýra bráðnun íss á Öskjuvatni - 15.2.2023

Á nýlegum gervitunglamyndum sést að ísinn á Öskjuvatni hefur hörfað að miklu leyti. Það er óvenjulegt að slíkt gerist svo snemma árs, en venjulega hefur það gerst í júní eða júlí. Síðast gerðist það árið 2012 að ísinn hörfaði svo snemma árs en þá gerðist það í mars. Orsök þess að Öskjuvatn er nú íslaust að stórum hluta er ekki þekkt og engar mælingar sem útskýra bráðnunina. Ýmsar mögulegar orsakir hafa verið viðraðar.

Lesa meira
20230210_Copernicus_januar_2023

Janúar sá þriðji heitasti frá upphafi mælinga í Evrópu - 10.2.2023

Þrátt fyrir að Íslendingar hafi upplifað einstaka kuldatíð í janúar gildir slíkt hið sama ekki fyrir flesta aðra Evrópubúa. Meðalhiti í Evrópu í janúar mældist sá þriðji hæsti frá upphafi skráninga. Meðalhiti var sérstaklega hár í austur Evrópu og á Balkanskaganum á meðan Spánverjar upplifðu örlítið kaldari janúar en þeir eiga að venjast.

Lesa meira

Verkefni um áhrif hopandi jökla á jarðskjálfta- og eldvirkni hlýtur styrk - 9.2.2023

Það er þekkt að hopandi jöklar hafa mikil áhrif á jarðskorpuna og valda landrisi, samfara því að breyta kröftum og spennu í jarðlögum. Óvissa ríkir þó um hvort, hvernig og hvenær þessi nýja bergkvika berst til yfirborðs, hvort stöðugleiki kvikuhólfa breytist, hvort jöklarýrnun hafi nú þegar valdið samsöfnun aukinnar kviku í jarðskorpunni, og hvernig breytingar á spennusviði hafa áhrif á bæði eldvirkni og jarðskjálfta. Dr. Michelle Maree Parks, sérfræðingur í jarðskorpurannsóknum á Veðurstofu Íslands ásamt Freysteini Sigmundssyni, jarðeðlisfræðingi á Norræna eldfjallasetrinu við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, leiða verkefni sem hlaut öndvegisstyrk úr Rannsóknarsjóði til að svara þessum spurningum.

Lesa meira

Tíðarfar í janúar 2023 - 3.2.2023

Janúar var kaldur um allt land, kaldasti janúarmánuður aldarinnar hingað til á landsvísu. Fyrri hluti mánaðarins mjög kaldur, sérstaklega á vestari helmingi landsins þar sem var bjart, þurrt og hægviðrasamt. Þ. 20. janúar lauk svo óvenjulega langri og samfelldri kuldatíð sem hófst í byrjun desember. Umhleypingasamt var það sem eftir var mánaðar.


Lesa meira

Tíðarfar ársins 2022 - 1.2.2023

Veðurfar ársins 2022 var mjög breytilegt, en ársmeðaltöl hita, vinds og loftþrýstings enduðu mikið til í meðallagi. Ársmeðalhiti í byggðum landsins var jafn meðalhita áranna 1991 til 2020 en 0,3 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýjast við suðurströndina. Ársúrkoma var víðast hvar rétt undir eða yfir meðallagi. Þó var úrkomusamt á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á Norðausturlandi. Loftþrýstingur og vindhraði voru í meðallagi þegar litið er á árið í heild. Lesa meira

Alls voru 456 viðvaranir gefnar út árið 2022 - 31.1.2023

Alls voru 456 viðvaranir gefnar út frá Veðurstofu Íslands á árinu 2022. Gular viðvaranir voru 372 talsins, appelsínugular 74 og rauðar viðvaranir voru 10. Frá því að nýtt viðvörunarkerfi var tekið í notkun á Veðurstofu Íslands í nóvember 2017 hafa aldrei verið gefnar út jafn margar appelsínugular og rauðar viðvaranir á einu ári. Viðvaranirnar dreifðust misjafnlega á milli spásvæða. Flestar viðvaranir voru gefnar út á Suðurlandi og Suðausturlandi, en fæstar á Austurlandi að Glettingi.

Lesa meira

Óvenjuleg kuldatíð - 20.1.2023

Viðvarandi kuldatíð á landinu síðustu 6 vikur, frá 7. desember 2022 til 19. janúar 2023 er óvenjuleg. Tímabilið er kaldasta 6 vikna tímabil í Reykjavík frá 1918. Miklar breytingar urðu á veðrinu nú í nótt þegar lægð með hlýju lofti kom úr suðri yfir landið og hrakti þar með heimskautaloftið sem hefur verið ríkjandi yfir landinu undanfarið langt til norðurs.

Lesa meira
Esjan-17-januar

Óvenjuleg snjóalög í Esjunni - 17.1.2023

Þessa dagana má sjá óvenjulega sjón frá Reykjavík og hefur Veðurstofunni borist nokkrar fyrirspurnir og myndir af fyrirbrigðinu.  Hlíðar borgarfjallsin Esjunnar, hafa verið snævi þaktar og alhvítar upp í um 300 m hæð en fyrir ofan er mun minni snjór, sums staðar enginn, og fjallið grátt, eins og sjá má á mynd 1 sem var tekin 11 janúar 2023. Lesa meira
Tidarfar-frost

Tíðarfar í desember 2022 - 3.1.2023

Desember var óvenjulega kaldur. Þetta var kaldasti desembermánuður á landinu síðan 1973. Í Reykjavík hefur desembermánuður ekki verið eins kaldur í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Það var þurrt um mest allt land, og víða mældist desemberúrkoman sú minnsta sem mælst hefur í áratugi. Snjór og hvassviðri ollu talsverðum samgöngutruflunum seinni hluta mánaðarins. Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum.


Lesa meira


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica