Fréttir

Misjöfn staða þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunar vegna þeirra

Stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga stóð fyrir málþingi

5.4.2023

Þann 16. mars síðastliðinn stóð stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga fyrir málþinginu „Aðlögun að loftslagsbreytingum: Hvað vitumvið og hvað þurfum við að gera?“. Málþingið var skipulagt með það fyrir sjónum að fá yfirsýn yfir stöðu þekkingar á sviði loftslagsbreytinga, áhrifa þeirra og aðlögunar. Um leið var ætlunin að kynna vettvanginn fyrir hugsanlegum meðlimum og hefja samtalið þeirra á milli. Þingið samanstóð af örerindum sérfræðinga fjölbreyttra sviða stofnana, fyrirtækja og háskóla og var dagskráin þétt. Málþingið fór fram á Hótel Natura í Reykjavík og mættu um það bil 100 gestir á staðinn. Hægt var að fylgjast með viðburðinum í beinu streymi og nú hefur upptaka verið gerð aðgengileg.

Upptaka frá málþinginu

Búið er að kaflaskipta myndbandinu eftir einstaka erindum, hægt er að nálgast hvert erindi með því að smella á valmyndina (þrír punktar og þrjár línur í valstikunni að neðan).

Misjöfn staða þekkingar

Á málþinginu kom fram að staða þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunar að þeim er misjöfn á milli viðfangsefna, greina og sviða. Það sem meðal annars hefur staðið í vegi fyrir þekkingarsköpun er sú staðreynd að viðfangsefnið er tiltölulega nýtt í umræðunni og  fjármagn til rannsókna er oft af skornum skammti. Á sviði náttúruvísinda hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar innan ákveðinna fræðagreina. Þær virðast þó oft tengjast tilteknu áhugasviði tiltekinna sérfræðinga sem drifið hafa rannsóknir sökum einskærs áhuga. Þessi þekking er dýrmætt innlegg þegar leggja á mat á hvort og hvaða breytingar hafa átt sér stað og munu eiga sér stað. 

Adalheidur

Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sjálfbærnistjóri Landsbankans og varaformaður Festu, tók fram að bankar, ásamt fjármálakerfinu í heild sinni, spila lykilhlutverk í að fjármagna aðlögunaraðgerðir svo að þær verði að veruleika. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Þekking á loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og hvernig á að bregðast við þeim virðist nokkuð ítarleg á sviði innviða, svo sem orku- og veitumála. Mögulega mætti rekja það til þeirrar miklu fjárhagslegu hagsmuna sem í húfi eru sem og langrar hefðar fyrirtækja á þessu sviði við áhættumat í tengslum við fjárfestingar til lengi tíma. Fjármálafyrirtæki, sem einnig eru háð áhættumati til framtíðar, eru í sífellt auknum mæli farin að kalla eftir upplýsingum um loftslagsbreytingar og taka tillit til þeirra við sviðsmyndagreiningar. Fjárfestingar á sviði loftslagsmála og aðlögunar verða æ algengari enda eru þær í samræmi við greiningar Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC).

Viðfangsefnið hefur á síðastliðnum misserum einnig skipað sífellt stærri sess á sviði hugvísinda, lista og lýðheilsuvísinda. Á málþinginu var sérstaklega falast eftir svari við þeirri spurningu hvort samráðsvettvangurinn væri ætlaður aðilum á þeim sviðum og vill stjórn vettvangsins árétta að svo er að sjálfsögðu.  

Heildræn sýn og stefna

Loftslagsbreytingar fela í sér tækifæri fyrir jákvæðar, samfélagslegar umbætur ef við höldum vel á spöðunum“, sagði Gígja Gunnarsdóttir hjá Embætti Landlæknis. Á málþinginu kom fram að ef allir taka höndum saman og byggja á vísindalegum grunni eru enn tækifæri til þess að skapa loftslagsþolið heilsuvænlegt samfélag. Til þess þurfi þó faglegt samtal, fjármagn og heildstæða stefnumótun.

Framsögumönnum varð tíðrætt um mikilvægi skipulagsmála og stefnumótunar og hversu stórt hlutverk sveitarfélög gegna í að búa samfélög og náttúru undir áhrif loftslagsbreytinga. Í lögum um almannavarnir kemur fram að sveitarfélögum ber, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, að kanna áfallaþol í sínu umdæmi. „Mikilvægt er að loftslagsþol sé hluti af þeirri starfsemi“, sagði Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar og fræðslu hjá Almannavörnum.

Fram kom að sveitarfélögin væru enn sem komið er ekki nægilega vel í stakk búin til þess að takast á við áskoranir sem felast í loftslagsbreytingum og þau þyrftu að fá tól og gögn til þess að sinna sínum skyldum. Nauðsynlegt sé tryggja samvinnu á milli sveitarfélaga og að unnið sé þvert á stjórnsýslustig svo að vel megi vera.  

Hronn
Hrönn Hrafnsdóttir frá Reykjavíkurborg fór yfir hvenær og hvernig mótvægisaðgerðir og aðlögun að loftslagsbreytingum fara saman og hvernig þær geta haft jákvæð áhrif á framtíðina, heilsu og loftslag. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Kallað eftir upplýsingum

Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að gera upplýsingar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra aðgengilegar svo unnt sé að undirbúa samfélagið undir afleiðingarnar. Eins og staðan er í dag skortir opinberar sviðsmyndir sem byggja vísindalegum grunni og að þær verði tengdar inn í lög og reglugerðir svo tillit sé tekið til þeirra. Í því samhengi má vitna í erindi Halldórs Þorgeirssonar, formanns Loftslagsráðs: „Til þess að takast á við óvissuna er nauðsynlegt að hafa skilning á því í hverju hún felst og hvernig er hægt að bregðast við henni“.

Veganesti til áframhaldandi vinnu

Þar sem ekki gafst eins rúmur tími til samtals og stjórnin samráðsvettvangsins hefði kosið var fundarmönnum boðið að svara könnun á samskiptaforritinu Slido. Með henni var reynt að kortleggja frekar stöðu þekkingar og hvað fundarmenn teldu vanta upp á í framtíðinni.  Upplýsingarnar þaðan, sem og það sem fram kom á málþinginu, er mikilvægt veganesti fyrir stjórn vettvangsins til áframhaldandi mótun starfsins. Samráðsvettvangur um þekkingarsköpun er tiltölulega nýr af nálinni en fyrsta stjórn hans var skipuðþann 22. september 2022 af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Fulltrúar stjórnar eru skipaðir til eins árs af umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna aðila:

• Veðurstofu Íslands
• Samstarfsnefndar háskólastigsins
• Stofnunar Sæmundar fróða
• Hafrannsóknastofnunar
• Náttúrufræðistofnunar Íslands
• Umhverfisstofnunar
• Embættis landlæknis

Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, er formaður stjórnar en skrifstofan sér um að starfrækja vettvanginn.

Frá því að stjórn vettvangsins tók til starfa hefur hún fundað reglulega með það fyrir sjónum að móta fyrirkomulag vettvangsins til framtíðar. Stjórnarmenn voru einhuga um að til þess að þekkingarsköpun á sviði loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra yrði markviss og samráðsvettvangur virkur yrði fyrst að kortleggja stöðu þekkingar eins og hún er í dag og hefja um leið samtal innan og á milli geira.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica