Fréttir

Veðurstofan tekur þrjú Græn skref - 27.12.2019

Veðurstofa Íslands hefur nú fengið viðurkenningu fyrir að stíga fyrstu þrjú Grænu skrefin, en Græn skref snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Aðgerðir Grænu skrefanna miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna sinna og draga úr rekstrarkostnaði.

Lesa meira

Bráðnun jökla mun aukast í framtíðinni - 11.12.2019

Bráðnun jökla mun aukast í framtíðinni, hvort sem um ræðir hækkun meðalhita á jörðinni um 1,5 eða 2 gráður.  Bráðnunin mun hafa víðtæk áhrif á vatnsbúskap jarðar og sjávarstöðu. Þetta voru meginskilaboð málstofu sem Veðurstofan og Alþjóða veðurfræðistofnunin, WMO, stóðu fyrir í dag á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem nú stendur yfir í Madrid.

Lesa meira

Tíðarfar í nóvember 2019 - 3.12.2019

Nóvember var óvenju hægviðrasamur og tíð hagstæð. Óvenju þurrt var um landið norðanvert og var mánuðurinn víða þurrasti nóvembermánuður um áratugaskeið. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en hlýrra vestantil á landinu.

Lesa meira

Alþjóðleg vinnustofa um jarðarlíkön á vegum Veðurstofunnar - 27.11.2019

Í dag lauk tveggja daga vinnustofu á vegum Veðurstofunnar sem bar yfirskriftina „Arctic Earth System Modelling – Responding to Grand Challenges in the Arctic“. Vinnustofuna sóttu rúmlega 50 vísindamenn frá 28 stofnunum í 9 löndum. Þarna voru saman komnir helstu sérfræðingar í líkangerð á Norðurslóðum innan vatna- og jöklafræða, haf- og hafísfræða, og veður- og loftslagsfræða. Vinnustofan er eitt af verkefnum á vegum Veðurstofunnar í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Lesa meira

Eldfjallavefsjá á íslensku opnuð í dag - 16.11.2019

Það er við hæfi að velja fæðingardag Jónasar til opna aðgang að íslenskri eldfjallavefsjá. Íslensk eldfjallavefsjá – www.islenskeldfjoll.is - er gagnvirk vefsíða og opinbert uppflettirit þar sem er að finna heildaryfirlit um virkar eldstöðvar á Íslandi, alls 32 talsins, öllum aðgengileg á ensku og nú á íslensku!  Eldfjallavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra með aðkomu fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga sem hafa lagt verkefninu lið.

Lesa meira
Hópur frá Veðurstofunni fór að skaflinum 21. september þegar þessi mynd var tekin og þá reyndist skaflinn ekki vera nema ~4 x 1 m klaka hella, 0.1 - 0.15 m á þykkt. Skaflinn var svo horfinn viku síðar

Fylgst hefur verið með skaflinum í Gunnlaugsskarði síðan á 19. öld - 13.11.2019

Fylgst hefur verið með skaflinum í Gunnlaugsskarði síðan á 19. öld og til eru skráðar samtíma athuganir frá því skaflinn tók upp á því að hverfa kringum 1930. Helstu niðurstöður eru þær að skaflinn hvarf líklega aldrei eftir 1850 þar til hann hvarf í fyrsta skipti svo vitað sé árið 1929. Á tímabilinu 1932 til 1947 hvarf skaflinn oftast og svo nokkrum sinnum til 1964. Frá 1965 til 1997 hvarf skaflinn aldrei en yfirleitt alltaf 1998  til 2012. Það virðist mjög greinilegt að á köldu tímabilunum lifir skaflinn og þá þeim hlýju hverfur hann.

Lesa meira

Jöklafræðingar hittast á Íslandi - 6.11.2019

Á dögunum héldu Veðurstofan, Jarðvísindastofnun Háskólans og Alþjóðlega Jöklarannsóknafélagið árvissa ráðstefnu jöklafræðinga og jarðvísindafólks á Norðurlöndunum í Reykholti. Framhaldsnemar og vísindamenn sýndu þarnýjustu niðurstöður rannsókna á jöklakortlagningu, hreyfingu jökla, jöklajarðfræði og náttúruvá sem tengist jöklabreytingum en einnig voru kynnt verkefni sem snúa að vísindamiðlun og hafa víðari skírskotun í samfélagslegu tilliti.

Lesa meira

Tíðarfar í október - 1.11.2019

Tíð í október var nokkuð sveiflukennd. Í mánuðinum voru allmargir hlýir dagar en einnig kaldir dagar á milli. Að tiltölu var hlýjast vestanlands en svalara og úrkomusamara norðan- og austanlands. Fyrsti snjór vetrarins féll á Norðurlandi.

Lesa meira

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á "vatnsturna jarðarinnar" - 31.10.2019

Í dag lýkur ráðstefnu á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO, í Genf – „High Mountain Summit“ – en hana sitja 150 fulltrúar víðsvegar að úr heiminum. Markmið ráðstefnunnar er að forgangsraða aðgerðum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og draga úr alvarlegum afleiðingum þeirra á háfjallasvæðum og á þau samfélög sem reiða sig á ferskvatn frá þessum svæðum. Þær aðgerðir fela meðal annars í sér áætlun um að auka rannsóknir og mælingar í tengslum við vatnsbúskap með það að markmiði að tryggja sjálfbæra vatnsnotkun og draga úr tjóni af völdum hamfaraflóða sem eru fylgifiskar loftslagsbreytinga.

Lesa meira

Alþjóðadagur Hamfaraminnkunnar haldinn í 30. sinn - 24.10.2019

Þann 13. október s.l. var Alþjóðadagur Hamfaraminnkunnar haldinn í 30. sinn. En árið 1989 tilnefndu Sameinuðu Þjóðirnar 13. október, Dag Hamfaraminnkunnar (International Day for Disaster Reduction). Markmiðið er að vekja athygli á aðgerðum, aðferðum og viðbúnaði til að draga úr áhrifum hamfara á jarðarbúa og hvað er hægt að gera til að auka seiglu samfélaga til að takast á við hamfarir.

Lesa meira

Fyrsta útgáfa viðbragðsáætlunar vegna lýðheilsuógna komin út - 22.10.2019

Lokið er gerð fyrstu útgáfu viðbragðsáætlunar vegna atvik er varða lýðheilsuógnir af völdum efnamengunar, sýkla og geislunar. Veðurstofa Íslands átti fulltrúa í ritstjórn um viðbragðsáætlun vegna CBRNE atvika, en þar undir falla m.a. atvik sem tengjast dreifingu mengunar og ösku frá eldgosum. Markmið áætlunarinnar er að auka almenna og sérhæfða þekkingu á atvikum af þessum toga og tryggja þannig hnökralaus viðbrögð í þeim tilgangi að lágmarka áhrif smits/mengunar/geislunar og annarra óvæntra atvika og vernda þannig lýðheilsu og umhverfi. Lesa meira
Erindi og málstofur varðandi jökla og ís voru því áberandi á Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) þetta árið þar sem fulltrúar Veðurstofunnar fluttu erindi, stýrðu málstofum og tóku þátt í pallborðs

Jöklar fengu mikla athygli á Arctic Circle - 15.10.2019

Breytingar á útbreiðslu jökla og íss eru ein sýnilegasta birtingarmynd hlýnandi loftslags í heiminum. Erindi og málstofur um jökla og ís voru því áberandi á Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) þetta árið þar sem fulltrúar Veðurstofunnar fluttu erindi, stýrðu málstofum og tóku þátt í pallborðsumræðum. Samhliða Arctic Circle stýrði Veðurstofan vinnufundi sérfræðinga um samstarfsverkefnið dArcticDEM sem íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja áherslu á meðan Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu 2019–2021.

Lesa meira

Tíðarfar í september 2019 - 2.10.2019

September var hlýr og úrkomusamur. Óvenju hlýtt var síðustu viku mánaðarins og veður með besta móti. Mánuðurinn var sérlega úrkomusamur um landið vestanvert. Miklar rigningar voru á Vesturlandi dagana 18. til 20. Vatnavextir í ám og skriðuföll ollu talsverðum skemmdum og trufluðu samgöngur á svæðinu.

Lesa meira
Múlakvísl við þjóðveginn í morgun

Lítið hlaup í gangi í Múlakvísl - 1.10.2019

Rafleiðni hefur hækkað jafnt og þétt síðustu tvo daga í Múlakvísl og er nú um 260 míkróS/cm. Mikið vatn er í ánni miðað við árstíma en þó minna en hámarks sumarrennsli. Hlaup af þessari stærðargráðu eru vel þekkt í Múlakvísl. Mikil gasmengun fylgir hinsvegar hlaupinu að þessu sinni. Veðurstofan er með gasmæli við Láguhvola sem erum um 2 km frá jökuljaðri Kötlujökuls. Þar mældist í nótt hæsta gildi brennisteinsvetnis (H2S) um 20 ppm, sem er yfir heilsuverndarmörkum. Því er varhugavert að staldra við nálægt ánni eða vera nálægt upptökum hennar við jökuljaðarinn.

Lesa meira
Frá undirrituninni í dag, f.v. Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.

Vöktun á jöklum og súrnun sjávar aukin - 25.9.2019

Í dag var tilkynnt um aukna vöktun Veðurstofu Íslands á jöklum á Íslandi undir heitinu „Hörfandi jöklar“. Alls verður 15 milljónum króna varið í vöktunina í ár og samtals 21 milljón króna frá og með næsta ári. Afkomureikningar fyrir jökla hér á landi verða einnig bættir sem mun t.d. gefa kost á birtingu daglegra upplýsinga um ákomu, leysingu og afkomu þeirra. Þá verður unnið gagnasafn um útbreiðslu íslenskra jökla og miðlun upplýsinga og myndræn framsetning bætt.

Lesa meira

Allar ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga - 24.9.2019

Hlýnun á norðurskautssvæðinu hefur verið meira en tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni á síðustu tveimur áratugum. Þessa mögnun hlýnunar má að hluta rekja til samdráttar hafíss og snjóþekju á sama tíma. Á komandi árum og áratugum munu jöklar enn hörfa víðast hvar og snjóhula að vetri endast skemur. Matvæla­öryggi og skilyrði til búsetu á norðurskautssvæðinu munu breytast. Breytinga er að vænta á náttúru­vá, m.a. á flóðum í ám, snjóflóðum, skriðuföllum og vandamálum vegna óstöðugra jarðlaga, sem gera má ráð fyrir að hafi áhrif á innviði, ferðamennsku og aðstæður til útivistar.Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu IPCC, milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, sem kom út í dag. 

Lesa meira
Á Akureyri var meðalhitinn 9,3 stig, -0,7 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990

Tíðarfar í ágúst 2019 - 3.9.2019

Ágúst var fremur kaldur um land allt, sérstaklega um landið norðan- og norðaustanvert. Á landsvísu hefur ágústmánuður ekki verið eins kaldur síðan árið 1993. Þurrt og bjart var um landið sunnan- og vestanvert en blautara norðaustanlands. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi.

Lesa meira
Kynningin var haldin í tengslum við breytingar á aðalskipulagi sem stendur til að vinna á næstu árum.

Aðgerðir til varnar stórum skriðum nauðsynlegar á Seyðisfirði - 30.8.2019

Sérfræðingar Veðurstofunnar tóku þátt í íbúafundi á Seyðisfirði í gær til að kynna nýtt ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjarðarbæ. Tilefni endurskoðunar fyrra mats frá 2002 er að nýjar jarðfræðirannsóknir sýna að stórar, forsögulegar skriður hafa fallið yfir svæðið þar sem suðurhluti Seyðisfjarðarbæjar stendur nú. Nýja matið kallar meðal annars á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina í suðurbænum.

Lesa meira

Líkanreikningar notaðir til að herma flóðbylgjur af völdum berghlaupa - 23.8.2019

Náttúrufræðingurinn birtir í nýútkomnu tölublaði sínu grein um berghlaupið sem varð í Öskju í júlí 2014, eitt stærsta berghlaup sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma. Líkanreikningar voru notaðir til þess að herma flóðbylgjuna af völdum berghlaupsins og er það í fyrsta skipti sem slíkir reikningar eru notaðir hér á landi. Sambærilega reikninga er unnt að nota til þess að meta hættu af völdum skriðufalla út í stöðuvötn og jökullón annars staðar á landinu og meta hættu af þeirra völdum.

Lesa meira
Breidd skriðunnar er um 100 metrar og hljóp hún um 50 metra frá rótum fjallsins út í sjó.  Ljósmynd: Björn Ingi Jónsson

Þriðja skriðan á 10 árum sem fellur í Reynisfjöru - 21.8.2019

Í gærmorgun féll skriða í Reynisfjöru en daginn áður hafði lögreglan á Suðurlandi lokað fyrir umferð um austurhluta fjörunnar, undir Reynisfjalli eftir að þrír einstaklingar slösuðust í grjóthruni. Grjóthrunið reyndist síðan vera fyrirboði um stærri skriðu. Mikil mildi var að enginn var á staðnum þegar skriðan féll. Ekki er vitað hvað kom skriðunni af stað. Í sunnan- og austanverðu Reynisfjalli má víða sjá ummerki um skriðuurðir, staksteina og skriðusár í fjallinu og algengt að skriður falli úr móbergshlíðum líkt og í Reynisfjalli. Almannavarnir hafa lokað hluta Reynisfjöru vegna skriðuhættu.

Lesa meira
Oddur Sigurðsson leifum Okjökuls að tala við Gísla Einarsson hjá Landanum 4. sept. 2014.

Minningarstund um Okjökul - 15.8.2019

Sunnudaginn 18. ágúst verður reistur skjöldur þar sem áður var sæti Okjökuls, en hópur vísindamanna og kvikmyndagerðarmanna stendur að viðburðinum til að benda á áhrif loftslagsbreytinga. Ok var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var jökullinn var hættur að skríða undan eigin þunga Í tilefni viðburðarins á sunnudaginn, sem kallaður er „Minningarstund um Ok“,, hefur Oddur Sigurðsson jarðfræðingur skrifað grein um Ok, en jökullinn var einn af þeim rúmlega 300 jöklum landsins sem skráðir voru um aldamótin síðustu. Þegar jöklarnir voru kortlagðir að nýju árið 2017 töldust 56 þeirra ekki lengur til jökla.

Lesa meira
Bylgjuvíxlmælingar sýna að fjallshlíðin á Osmundsnesi við Hyefjörð í Sogn- og Firðafylki í Vestur-Noregi er að hreyfast á um 1 km löngum kafla skammt undir fjallsbrúninni þar sem hlíðin er sprungin af

Fjarkönnun getur bætt vöktun óstöðugra hlíða - 13.8.2019

Hópur sérfræðinga frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands heimsótti Noreg í sumar til þess að kynna sér kortlagningu og vöktun á óstöðugum hlíðum þar í landi. Norðmenn hafa mikla reynslu í vöktun óstöðugra hlíða og við Íslendingar getum lært margt af þeim á þessu sviði. Eitt af því sem hægt er að nota til þess að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar eru bylgjuvíxlmælingar (InSAR-mælingar) með gervitunglum. Með slíkum mælingum er hægt að sjá aflögun lands með millimetra nákvæmni.

Lesa meira
Landeyðing á Melrakkasléttu

Loftslagsbreytingar hafa aukið landeyðingu - 7.8.2019

Loftslagsbreytingar auka landeyðingu með meiri ákafa í úrkomu og flóðum, tíðari og umfangsmeiri þurrkum, meira álagi vegna hita, vinds og ölduróts auk hærri sjávarstöðu. Samhliða áhrifum loftslagsbreytinga eykst landnotkun hratt og hafa loftslagsbreytingar nú þegar áhrif á fæðuöryggi. Hlýnun á heimskautasvæðum mun hraða bráðnun sífrera og raska enn frekar norðlægum skógum, bæði vegna meiri þurrka og skógarelda auk skordýraplága og gróðursjúkdóma. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu á vegum IPCC, Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem kom út í dag.

Lesa meira
Ljósmynd, bátar og þoka.

Tíðarfar í júlí 2019 - 1.8.2019

Tíð var sérlega hlý um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá upphafi mælinga, og á fáeinum stöðvum öðrum meðal þeirra þriggja til fjögurra hlýjustu. Svalara var og tíð mun daufari um landið norðan- og austanvert en þó var hiti ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum.

Lesa meira
Á myndum úr vefmyndavél við Láguhvola sést að Múlakvísl hefur breytt um farveg og rennsli hefur aukist og fer vaxandi. Myndin vinstra megin er tekin 18. júlí og myndin hægra megin, í morgun, 24. júlí.

Rennsli í Múlakvísl aukist síðustu daga - 17.7.2019

Samkvæmt vefmyndavélum við Múlakvísl þá hefur rennslið í ánni aukist síðustu daga. Eins  hefur áin breytt um farveg við Láguhvola og virðist vera meira vatn í ánni og fer vaxandi. Rafleiðinin hefur farið hækkandi síðan 17. júlí úr ~100 μS/cm upp í 180 μS/cm í dag. Þetta er há rafleiðni, bæði miðað við árstíma og miðað við vatnsmagn í ánni. Ekki er þó talið að hlaup sé hafið í Múlakvísl.

Lesa meira
Wioletta Maszota, veðurathuganamaður, við úrkomumælinn í Stykkishólmi en þar var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga og er það lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mæli

Tíðarfar í júní 2019 - 1.7.2019

Mánuðurinn var óvenju þurr. Langur þurrkakafli var á Suður- og Vesturlandi fram eftir mánuðinum. Mjög sólríkt var í þeim landshlutum og fremur hlýtt á meðan svalara var norðan- og austanlands. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi.

Lesa meira
Snæfellsjökull blasir við frá Úlfarsfelli á einum af sólardögum á höfuðborgarsvæðinu í maí.

Tíðarfar í maí 2019 - 3.6.2019

Maí var nokkuð hlýr og sólríkur um vestanvert landið á meðan svalara var norðan- og austanlands. Þurrt var um allt land. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum. 

Lesa meira
NASA/Goddard Space Flight Center Scientific Visualization Studio; Blue Marble Next Generation data courtesy Reto Stockli (NASA/GSFC)

Líklegt er að lofthiti á Norðurheimskautssvæðinu verði yfir meðallagi í sumar - 24.5.2019

Nýlega lauk 3. samráðsfundi samstarfsnets veðurstofa á Norðurheimskautssvæðinu.  Þetta samstarf, sem efnt er til á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunar (WMO), gefur m.a. út yfirlit um horfur  um vetrar- og sumarveðurlag á norðurheimskautssvæðinu. Meðal þess sem kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins er að líklegt sé að hitafar á Norðurheimskautssvæðinu verði yfir meðallagi í sumar og því má gera ráð fyrir að enn verði hafísmagn í minna lagi.

Lesa meira
Fjöldi vísindamenn frá mörgum löndum koma og kynna niðurstöður rannsókna sinna frá Norðurlandi.

Northquake ráðstefnan haldin í þriðja sinn á Húsavík - 24.5.2019

Hópur alþjóðlegra vísindamanna situr nú Northquake 2019 ráðstefnuna sem haldin er á Húsavík. Markmið ráðstefnunnar er að fá yfirlit yfir nýjustu rannsóknir á jarðskjálftum á Norðurlandi, orsökum þeirra, eðli, áhrifum og ennfremur kynna hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna. Ráðstefnunni lýkur í dag með opnum fundi fyrir íbúa frá kl 12-13.

Lesa meira
Alþjóðlegur hópur vísindamanna situr CARRA vinnustofuna á Veðurstofunni sem lauk í dag.

Endurgreina veðurathuganir á norðurslóðum 20 ár aftur í tímann - 23.5.2019

Vinnustofa CARRA verkefnisins lauk á Veðurstofunni í dag. Markmiðið með CARRA (Copernicus Arctic Regional Reanalysis) er að endurgreina veðurathuganir og veðurfarsmælingar allt að 20 ár aftur í tímann fyrir stóran hluta norðurskautssvæðisins. Með endurgreiningunni fæst dýpri skilningur á þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað á norðurhveli jarðar, en þar hefur hækkun meðalhita verið tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni.

Lesa meira
Fjölmenni var viðstatt afhendingu viðurkenningarinnar og fyrirlestur Veðurstofunnar sem haldinn var í Eldfjallasetrinu.

Viðurkenning fyrir veðurathuganir í Stykkishólmi - 21.5.2019

Á föstudaginn var afhjúpaður viðurkenningskjöldur frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni fyrir meira en 100 ára samfelldar mælingar í Stykkishólmi. Skjöldurinn var settur upp í Norska húsinu sem hýsir muni í eigu Árna Thorlacius sem hóf reglulegar skráningar veðurathugana á Stykkishólmi í nóvember 1845. Veðurathuganarfólk Veðurstofunnar í Stykkishólmi hefur frá þeim degi skráð athuganir samviskusamlega í samfleytt 173 ár.

Lesa meira
Krókusar nýttur sér góða tíð aprílmánaðar og voru nokkuð snemma á ferðinni víða um land.

Tíðarfar í apríl 2019 - 3.5.2019

Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl. Þetta var hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum. Suðaustlægar áttir voru ríkjandi. Þurrt og bjart var norðanlands en blautara syðra. Gróður tók vel við sér. 

Lesa meira
Leiðangursmenn á Snæfellsjökli við snjóbílinn. (Ljósmynd: Sigrún Tómasdóttir)

Vetrarafkoma á Snæfellsjökli mæld í fyrsta sinn - 24.4.2019

Vetrarafkoma á Snæfellsjökli var mæld í fyrsta sinn á annan páskadag, 22. apríl. 7 manns fóru á jökulinn á vegum Veðurstofu Íslands, Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og ferðaþjónustunnar Summit Guides. Snæfellsjökull hefur rýrnað mjög í hlýnandi loftslagi síðustu áratuga og er flatarmál hans nú minna en 10 km2, en var um 22 km2 árið 1910.

Lesa meira
Dregið hefur úr virkni hrinunnar við Kópasker síðasta sólarhringinn

Jarðskjálftahrinan við Kópasker ein sú öflugasta í 28 ár - 5.4.2019

Jarðskjálftahrinan sem nú er í gangi um 6 km suðvestur af Kópaskeri, er sú öflugasta á þessari sprungu séu skoðuð gögn aftur til 1991. Frá því að hrinan hófst þann 23. mars hefur sjálfvirka mælakerfi Veðurstofunnar mælt tæplega 3000 skjálfta. Stærsti skjálfti hrinunar mældist í 27. mars, af stærð 4,2 kl. 20:29, en í allri hrinunni hafa mælst 8 skjálftar af stærð 3 og yfir.

Lesa meira
Frá Svartárkoti í Bárðardal í lok janúar 2009. Myndin er tekin í bæjardyrunum yfir ísi lagt Svartárvatn. Fjöllin á myndinni eru (frá vinstri) Eggert, Kollóttadyngja og yfir hana (hægra megin) sést í t

Tíðarfar í mars 2019 - 2.4.2019

Marsmánuður var nokkuð hagstæður. Hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en undir meðallagi síðustu tíu ára. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fyrri helming mánaðarins á meðan seinni hlutinn einkenndist af suðvestlægum áttum. Vindhraði var nærri meðallagi.

Lesa meira
Umfangsmikil snjóflóðavarnarvirki hafa verið reist á Siglufirði á síðustu rúmum tveimur áratugum.  Leiðigarðarnir Stóri- og Litli-Boli verja suðurhluta bæjarins fyrir snjóflóðum úr Jörundarskrál og St

Snow 2019 - 29.3.2019

Verkfræðingafélag Íslands stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um snjóflóðavarnir dagana 3.–5. apríl 2019 á Sigló hóteli á Siglufirði. Tilgangur ráðstefnunnar er að miðla upplýsingum um uppbyggingu ofanflóðavarna á Íslandi síðastliðin 20 ár og kynnast því nýjasta sem er að gerast á sviði ofanflóðavarna annars staðar í heiminum. Ráðstefnan er ætluð fólki frá sveitarstjórnum, stjórnsýslu, rekstraraðilum skíðasvæða, vegagerð, mannvirkjahönnuðum, eftirlitsaðilum og fræðimönnum. Þá mun töluverður fjöldi erlends fagfólks sækja ráðstefnuna.

Lesa meira
Laugardaginn 23. mars hófst öflug skjálftahrina í Öxarfirði um 6 km suðvestur af Kópaskeri.

Öflug jarðskjálftahrina í Öxarfirði - UPPFÆRT 1.4. - 28.3.2019

Í dag (1. apríl) hafa mælst um rúmlega 40 skjálftar frá miðnætti. Allir undir 2 að stærð. Áætlaður fjöldi skjálfta í hrinunni frá sjálfvirkum mælingum er um 2600 skjálftar frá því hún hófst. 27. - 29. mars mældust yfir 500 skjálftar á dag, þar af var mest virkni 28. mars, um 780 skjálftar.

Áfram er fylgst náið með þróun virkninar.

Lesa meira
Ársfundur Veðurstofunnar var vel sóttur

Veðurstofan tekur nýtt skref í þróun veðurþjónustu - 26.3.2019

Ársfundur Veðurstofunnar var haldinn í dag. Fjöldi samstarfsaðila og starfsmanna hlýddu á áhugaverð erindi undir yfirskriftinni „"Vöktun og rannsóknir á náttúruöflum landsins. Nýjar áskoranir – nýjar leiðir". Á fundinum var einnig kynnt alþjóðlegt samstarf um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna sem Veðurstofan er hluti af. Samstarfinu verður komið á í tveimur skrefum. Frá og með 2023 munu Veðurstofa Íslands, danska, írska og hollensku veðurstofurnar sameinast um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna. Sameiginleg ofurtölva vegna vesturhlutans verður staðsett á Veðurstofunni og kemur í stað ofurtölvu dönsku veðurstofunnar sem er þar nú. Samstarfið tekur svo á sig endanlega mynd árið 2027, þegar allar 10 veðurstofurnar sameinast um reksturinn undir heitinu „United Weather Centres“ - UWC

Lesa meira
Ársfundur Veðurstofu Íslands verður haldinn 26. mars

Ársfundur Veðurstofunnar 2019 - 25.3.2019

Ársfundur Veðurstofu Íslands verður haldinn á Veðurstofunni að Bústaðavegi 7, þriðjudaginn 26. mars 2019, kl. 9.00–11.00.

Yfirskrift fundarins er "Vöktun og rannsóknir á náttúruöflum landsins. Nýjar áskoranir – nýjar leiðir"

Boðið er upp á morgunverð frá kl. 8.00.

Lesa meira
Alþjóðlegur dagur vatnsins

Alþjóðlegur dagur vatnsins - 22.3.2019

Í dag, þann 22. mars, er dagur vatnsins. Dagurinn hefur verið tileinkaður málefninu síðan 1992, þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lagði til við aðildarríkin að dagurinn yrði notaður til að skipuleggja atburði, uppákomur eða umfjöllun sem væru til þess fallin að styrkja vitund almennings um nauðsyn þess að standa vörð um vatn og um rétt mannkyns á hreinu vatni. Þema dagsins í ár er „Enginn útundan“ (e. Leaving no one behind) og hefur það beina tengingu inn í sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna, að tryggja að allir hafi aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, og er miðað að því að markmiðinu hafi verið náð fyrir árið 2030. 

Lesa meira
Í svæðisbundinni snjóflóðaspá er snjóflóðahætta skilgreind í fimm stigum eftir alþjóðlegri skilgreiningu fyrir slíkar spár. Spáin er gerða fyrir stórt svæði og tekur bæði til snjóflóða af náttúrulegum

Veðurstofan birtir nú snjóflóðaspá fyrir SV-hornið - 4.3.2019

Frá og með deginum í dag birtir Veðurstofan svæðisbundna snjóflóðaspá fyrir SV-hornið. Um er að ræða tilraunaverkefni fram á vor. Spáin verður sambærileg þeirri sem nú þegar er gerð fyrir norðanverða Vestfirði, utanverðan Tröllaskaga og Austfirði. Um er að ræða fjalllendið austur af höfuðborgarsvæðinu frá Bláfjöllum í suðri að Hvalfirði í norðri.

Lesa meira
Veðurstöðin í Surtsey

Tíðarfar í febrúar 2019 - 1.3.2019

Mánuðurinn var mjög tvískiptur. Fyrri hluti mánaðarins var kaldur og þónokkur snjór var á landinu. Þurrt og bjart var suðvestanlands en úrkomusamara norðanlands. Mikil hlýindi einkenndu síðari hluta mánaðarins og snjóa leysti víðast hvar á láglendi. 

Lesa meira
Mynd

100 eldingar mældar í miklu þrumuveðri - 22.2.2019

Þrumuveður gekk yfir SV-land síðdegis fimmtudaginn 21. febrúar 2019 og mældust í því um 100 eldingar.  Veðrið kom úr suðri og sáust eldingar fyrst í því um 1000 km sunnan við Ísland um kl. 03 um morguninn, svo komu eldingarnar nær landinu eftir því sem leið á daginn.  Frá kl. 17:30 til kl. 20:00 mældust 84 eldingar norðan við 63°N. Veðrið gekk yfir Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Snæfellsnes.

Lesa meira
Veðurstöðin Víðidalur, í bakgrunni er Fella- og Hólahverfi, 15. janúar 2019

Áhugaverðar mælingar frá nýrri veðurstöð - 11.2.2019

Í froststillum í lok janúar og byrjun febrúar mældist mikið frost á veðurstöðinni Víðidal. Frost mældist yfir 20 stig aðfararnótt 31. janúar sem og að morgni 2. febrúar, en þá mældist rétt fyrir hádegisbil -21.3°C.  Við Arnarnesveg var mesta frost -14.9°C sama morgun og í veðurreit Veðurstofunnar -12.1°C. Mikill munur varþví  á lágmarkshitanum í mesta frostinu og þá var mun kaldara í Víðidal en á hinum tveimur stöðvunum. Í vægara frosti var aftur á móti lítill sem enginn munur á milli stöðvanna.

Lesa meira
Þróun hnattræns meðalhita

Árið 2018 eitt fjögurra hlýjustu ára frá upphafi samfelldra mælinga - 7.2.2019

Í gær voru birtar niðurstöður frá fimm stofnunum sem meta þróun hnattræns meðalhita. Niðurstöðum ber saman um að árin 2015, 2016, 2017 og 2018 hafi verið fjögur hlýjustu árin síðan samfelldar mælingar hófust. Árið 2018 var um 1°C hlýrra en meðalhiti jarðar fyrir iðnbyltingu (með óvissu um ±0.13°C) og er fjórða hlýjasta árið.

Lesa meira
Hitavik í janúar 2019

Tíðarfar í janúar 2019 - 1.2.2019

Janúar var sérlega tvískiptur. Óvenju mikil hlýindi einkenndu fyrri hluta mánaðarins, hiti var langt yfir meðallagi um land allt og snjólétt víðast hvar. Seinni hluti mánaðarins var mun kaldari og þá sérstaklega síðustu dagarnir. Töluverður snjór var víða um land, vindur hægur og nokkuð bjart í veðri. 

Lesa meira
Ísland 20. júní 2018

Tíðarfar ársins 2018 - 15.1.2019

Árið 2018 var úrkomusamt og nokkuð hlýtt. Úrkoma var yfir meðallagi á nær öllu landinu og úrkomudagar óvenju margir bæði sunnan- og norðanlands. Sumarmánuðirnir voru svalir á suðvestanverðu landinu á meðan hlýtt var norðaustanlands. Sólarlítið var suðvesturhluta landins á árinu og hafa ekki mælst eins fáár sólskinsstundir í Reykjavík á einu ári síðan 1992. Júní og júlí voru óvenju þungbúnir  suðvestanlands. Hlýtt var síðustu tvo mánuði ársins. Vindur var í meðallagi á árinu. 

Lesa meira
„Útvarp Reykjavík, klukkan er gengin þrjár mínútur í sex. Nú verður útvarpað veðurfregnum frá Veðurstofu Íslands“. „Góðan dag. Veðurfregnir les Elísabet Pálmadóttir“

Breyttur tími á lestri sjóveðurfrétta - 9.1.2019

Sjóveðurfréttir eru nú lesnar klukkan 5:03 að loknum fimm fréttum alla daga á Rás 1 hjá RÚV. Áður voru þær lesnar klukkan 4:30. Með breytingunum verða allir veðurfréttatímar í kjölfar útvarpsfrétta á RÚV, en það fyrirkomulag er talið henta notendum betur.

Lesa meira
Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands undirrita samninginn.

Tryggingastofnun samnýtir tölvusal með Veðurstofu Íslands - 3.1.2019

Tryggingastofnun hefur samið við Veðurstofu Íslands um aðstöðu fyrir miðlægan tölvubúnað í tölvusal Veðurstofunnar. Samningurinn styður við áherslur hjá hinu opinbera um aukinn samrekstur í upplýsingatæknirekstri stofnana. Tölvusalur Veðurstofunnar er með vottun samkvæmt  ISO27001 upplýsingaöryggisstaðlinum sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru um upplýsingaöryggi í rekstri á miðlægum tölvubúnaði Tryggingastofnunar sem vinnur með viðkvæm persónugreinanleg gögn og rekur umfangsmikil upplýsingakerfi.

Lesa meira
Sól tekin að hækka á lofti. Esjan séð frá Seltjarnarnesi 22. desember. Yfirborðshrím hefur myndast á steinum í fjörunni.

Tíðarfar í desember 2018 - 2.1.2019

Óvenju hlýtt var í desember og var hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Töluvert fannfergi var þó á Norðurlandi í byrjun mánaðar og mældist snjódýpt á Akureyri 105 cm þ. 3. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í desembermánuði. Austlægar áttir voru ríkjandi í desember. 

Lesa meira


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica