Fréttir
Fjölmenni var viðstatt afhendingu viðurkenningarinnar og fyrirlestur Veðurstofunnar sem haldinn var í Eldfjallasetrinu.
Fjölmenni var viðstatt afhendingu viðurkenningarinnar og fyrirlestur Veðurstofunnar sem haldinn var í Eldfjallasetrinu.

Viðurkenning fyrir veðurathuganir í Stykkishólmi

Athuganir skráðar nánast óslitið í 173 ár

21.5.2019

Á föstudaginn var afhjúpaður viðurkenningskjöldur frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni fyrir meira en 100 ára samfelldar mælingar í Stykkishólmi. Skjöldurinn var settur upp í Norska húsinu sem hýsir muni í eigu Árna Thorlacius sem hóf reglulegar skráningar veðurathugana á Stykkishólmi í nóvember 1845. Veðurathuganarfólk Veðurstofunnar í Stykkishólmi hefur frá þeim degi skráð athuganir samviskusamlega í samfleytt 173 ár.

Þáttaskil í veðurathugunum hérlendis

Í tilefni viðurkenningarinnar hélt Veðurstofan erindi í Eldfjallasetrinu í Stykkishólmi í samstarfi við Norska húsið, en það hús lét Árni Thorlacius reisa fyrir fjölskyldu sína en Árni var kaupmaður, útgerðarmaður og bóndi í Hólminum.


Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna á Veðurstofu Íslands, sagði meðal annars frá hugmyndum Jónasar Hallgrímssonar um að Íslendingar tækju upp skráningu veðurfars.

Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna á Veðurstofu Íslands, sagði frá starfi Árna og sögu athugana í Stykkishólmi. „Upphaf veðurathugana Árna í Stykkishólmi marka þáttaskil í veðurathugunum hérlendis því þá hófust fyrstu reglulegu hitamælingarnar og hafa þær staðið nánast óslitið síðan, en það eru einungis 6 aðrar stöðvar í Evrópu sem geta státað sig af lengri samfelldri mælasögu en Stykkishólmur“, segir Kristín Björg.

Afrit af "Veðurbók nr. 1" sem Árni Thorlacius skráði samviskusamlega í er til sýnis í Norska húsinu.

Afrit af "Veðurbók nr. 1" sem Árni Thorlacius skráði samviskusamlega í er til sýnis í Norska húsinu.

Veðurathuganir í dag er annar heimur en fyrir 173 árum

Óðinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri Athugana- og tæknisviðs gaf einnig innsýn inn í þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á sviði athugana frá því að Árni Thorlacius hóf sýna skráningu fyrir hart nær tveimur öldum síðan.  „Auðvitað erum við að mæla sömu hluti og Árni forðum, en með nákvæmari hætti og mun tíðar. Krafan í dag er í raun sú að við viljum vita hvernig veðrið var fyrir 15 mínútum og hvernig það verður eftir 15 mínútur og til þess að geta fullnægt þeim kröfum þurfum við þétt mælanet og sækja gögn í rauntíma“. Óðinn segir að við athuganir á jörðu niðri bætast svo við upplýsingar úr veðursjám og að sjálfsögðu einnig frá gervitunglum.


(F.v.) Óðinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri Athugana- og tæknisviðs Veðurstofu Íslands, Hjördís Pálsdóttir, safnstjóri í Norska húsinu, Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólms, Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofu Íslands og Wioletta Maszota, veðurathuganamaður í Stykkishólmi.

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólms, sagði þessa viðurkenningu ekki síst vera þakklætisvottur til þeirra fjölmörgu einstaklinga í bæjarfélaginu fyrir þeirra óeigingjarna framlag til veðurathugana og þar með sögu bæjarins. „Þetta er tækifæri til að gera sögu veðurathugana enn hærra undir höfði en við nú þegar gerum hér í Norska húsinu“.

Viðurkenningarskjöldurinn hangir á vegg á skrifstofu Árna í Norska húsinu en safnið hýsir nokkra af munum hans sem tengjast skráningu veðurathugana.


Viðurkenningarskjöldurinn hangir á vegg á skrifstofu Árna í Norska húsinu en safnið hýsir nokkra af munum sem tengjast skráningu veðurathugana.

Í dag er það Wioletta Maszota sem sér um veðurathuganir í Stykkishólmi en hún er í hópi þeirra mikilvægu einstaklinga sem sinna reglulegum veðurathugunum á 3 klukkustunda fresti á veðurstöðvum víða um land allan sólarhringinn árið um kring.

Í dag er það Wioletta Maszota sem sér um veðurathuganir í Stykkishólmi en hún er í hópi þeirra mikilvægu einstaklinga sem sinna reglulegum veðurathugunum á 3 klukkustunda fresti á veðurstöðvum víða um land allan sólarhringinn árið um kring. (Ljósmynd: Sigurður Bogi Sævarsson.)

Upplýsingar um elstu veðurstöðvar heims má finna á vefsíðuAlþjóðaveðurfærðistofnunarinnar, WMOAðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica