Skipurit Veðurstofu Íslands
Skipurit Veðurstofu Íslands
Tók gildi 1. janúar 2023
(Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)
Forstjóri
Forstjóri Veðurstofu Íslands: Hildigunnur H. H. Thorsteinsson
Skrifstofa forstjóra fer með stjórnsýsluhlutverk Veðurstofu Íslands og hefur umsjón með opinberum fjármunum. Skrifstofan annast sameiginleg málefni sviða svo sem stefnumörkun stofnunarinnar, mannauðsmál, lögfræði, innri og ytri samskipti og hefur umsjón með alþjóðasamstarfi. Skrifstofan hefur umsjón með helstu stjórnsýsluerindum sem snýr að samskiptum við ráðuneyti, Alþingi og aðra opinbera aðila og einnig að gæða- og upplýsingaöryggismálum, lögum, reglugerðum, stjórnunarstöðlum og öðrum kröfum sé fylgt í starfsemi stofnunarinnar. Á skrifstofu forstjóra starfar rannsóknarstjóri sem mótar og ber ábyrgð á rannsóknar- og þróunarstefnu Veðurstofunnar og fylgir eftir markmiðum stofnunarinnar hvað þá þætti varðar.
Á Veðurstofu Íslands eru tvö kjarnasvið, annarsvegar athugana- og upplýsingatæknisvið og hins vegar þjónustu- og rannsóknasvið.
Þjónustu- og rannsóknasvið
Framkvæmdastjóri: Matthew James Roberts
Á þjónustu- og rannsóknasviði fer fram þekkingaröflun, rannsóknir, veðurþjónusta, náttúruvárvöktun og miðlun upplýsinga. Tilgangur sviðsins er að mæta þjónustuþörf samfélagsins í samræmi við hlutverk Veðurstofunnar og vinna fjórar deildir að verkefnum sviðsins með eftirfarandi faglegar áherslur:
- Veðurspár og náttúruvárvöktun. Deildarstjóri: Helga Ívarsdóttir
- Loftslag, veður, vatn, jöklar og haf. Deildarstjóri: Tinna Þórarinsdóttir
- Eldvirkni, jarðskjálftar og jarðhnik. Deildarstjóri: Kristín Jónsdóttir
- Snjóflóð og skriðuföll. Deildarstjóri: Harpa Grímsdóttir
Sviðið ber ábyrgð á að móta og fylgja eftir
þjónustustefnu Veðurstofunnar sem stuðlar að upplýstri og vandaðri
ákvarðanatöku á sviði náttúruvár, náttúruverndar og nýtingar auðlinda. Hlutverk
þjónustu- og rannsóknasviðs er að skilgreina, móta, leiða og taka þátt í rannsóknar-
og þróunarverkefnum er varðar alla helstu eðlisþætti jarðar. Verkefni sviðsins
snúa einnig að almennum grunnrannsóknum og vísindalegri úrvinnslu gagna,
líkanagerð, ásamt þróun afurða og aðferðafræði til að bæta þjónustu
stofnunarinnar.
Stakar ljósmyndir af deildarstjórum á þjónustu- og rannsóknarsviði á Veðurstofu Íslands:
Helga Ívarsdóttir, Harpa Grímsdóttir , Kristín Jónsdóttir, Tinna Þórarinsdóttir
Matthew James Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu og rannsóknarsviðs á Veðurstofu Íslands
Athugana- og upplýsingatæknisvið
Framkvæmdastjóri: Ingvar Kristinsson
Tilgangur athugana- og upplýsingatæknisviðs er að reka og þróa innviði og afla gagna sem tengjast vöktun og rannsóknum á náttúrufari Íslands. Á sviðinu fer fram gagnasöfnun, rekstur á mælitækjum, rekstur og viðhald upplýsingatækniinnviða og rekstur og þróun á upplýsingatækni sem svarar þörfum þeirrar þjónustu sem Veðurstofan veitir. Hlutverk sviðsins er að tryggja örugga söfnun, meðhöndlun, miðlun og varðveislu gagna sem stofnuninni ber að afla skv. lögum eða samningum þar um.
Starfssvið sviðsins nær frá mælum og endar í gagnaþjónustu. Þjónustu- og rannsóknasvið byggir þjónustu sína á gagnaþjónustum sem athugana- og upplýsingatæknisvið veitir. Enn fremur þjóna gagnaþjónustur hagaðilum og öðrum skuldbindingum um gögn til erlendra stofnanna s.s. Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO og samstarfshópa s.s. innan EPOS og Copernicus.
Fjármála- og rekstrarsvið
Framkvæmdastjóri: Kristín Björg Árnadóttir
Fjármála- og rekstrarsvið er stoðsvið Veðurstofunnar og hefur umsjón með stjórnun fjármála í samræmi við fjárlög og fjárheimildir stofnunarinnar. Sviðið sinnir stuðningi og upplýsingagjöf við stjórnendur og annast formlega skýrslugerð, reikningsskil, öflun og varðveislu fjármála- og rekstrarupplýsinga, greiningu þeirra og miðlun til stjórnvalda, samstarfsaðila, stjórnenda og almennra starfsmanna stofnunarinnar með áherslu á aukið gagnsæi og bætta upplýsingagjöf er varðar fjármál.
Sviðið ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar s.s. notendaþjónustu, móttöku, mötuneyti, rekstri fasteigna, aðbúnaði og aðstöðu starfsmanna, innkaupastjórnun, aðgangs- og öryggismálum, skjalastjórnun, safnamálum og annarri innri stoðþjónustu. Sviðið ber enn fremur ábyrgð á innkaupastefnu og skjalastefnu Veðurstofunnar.
Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar
Skrifstofustjóri: Anna
Hulda Ólafsdóttir
Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar er vettvangur sem þjónustar brýn verkefni á sviði aðlögunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga og er vettvangur fyrir vísindasamfélagið, fagstofnanir og hagaðila á því sviði. Skrifstofan veitir loftslagsþjónustu fyrir samfélagið sem styður við áætlanir stjórnvalda og atvinnulifs hvað varðar aðlögun sinnir samstarfi á þessu sviði við alþjóðastofnanir og með miðlun upplýsinga og sviðsmynda um áhrif loftslagsbreytinga til hagsmunaaðila og almennings. Skrifstofan sinnir einnig alþjóðasamstarfi á sviði loftslagsþjónustu. Undir það falla samskipti við milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna á sviði loftslagsmála (IPCC), en Veðurstofa Íslands er tengiliður Íslands (National Focal Point) við nefndina.
Skrifstofa náttúruvárþjónustu
Skrifstofustjóri:
Sigrún Karlsdóttir
Skrifstofa náttúruvárþjónustu heldur utan um samninga og verkefni fyrir Ofanflóðasjóð. Skrifstofan vinnur í nánu samstarfi við ráðuneyti, sveitarfélög og almannavarnayfirvöld og hefur umsjón með beiðnum um formlegt hættumat á náttúruvá og verksamninga vegna þeirra. Auk þess fylgist skrifstofan með virkni hættumats, viðvarana og viðbragðskerfa. Skrifstofan er í innlendu og erlendu samstarfi sem miðar að því að efla samvinnu, þekkingu og miðlun upplýsinga um náttúruvá og hættumat. Undir það falla samskipti við skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar og Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO).