Fréttir
Á myndum úr vefmyndavél við Láguhvola sést að Múlakvísl hefur breytt um farveg og rennsli hefur aukist og fer vaxandi. Myndin vinstra megin er tekin 18. júlí og myndin hægra megin, í morgun, 24. júlí.
Á myndum úr vefmyndavél við Láguhvola sést að Múlakvísl hefur breytt um farveg og rennsli hefur aukist og fer vaxandi. Myndin vinstra megin er tekin 18. júlí og myndin hægra megin, í morgun, 24. júlí.

Rennsli í Múlakvísl aukist síðustu daga

Rafleiðni há miðað við árstíma en hlaup ekki hafið

17.7.2019

Samkvæmt vefmyndavélum við Múlakvísl þá hefur rennslið í ánni aukist síðustu daga. Eins  hefur áin breytt um farveg við Láguhvola og virðist vera meira vatn í ánni og fer vaxandi. Rafleiðni hækkaði rólega frá 17. júlí fram að 20. júlí, en hefur haldist stöðug síðan þá og jafnvel aðeins lækkað síðan í gær, 23. júlí. Rafleiðnin fór úr ~100 μS/cm upp 17. júlí í krinugum 170 μS/cm í dag, 24. júlí. Þetta er há rafleiðni, bæði miðað við árstíma og miðað við vatnsmagn í ánni.


Myndin sýnir þróun rafleiðni og vatnshæð við brú á þjóðvegi 1 frá 16. júlí 2019. Sjá má að rafleiðni hækkaði rólega 17.- 20.07 en hefur haldist stöðug síðan þá og jafnvel aðeins lækkað síðan í gær, 23. júlí.

GPS tæki var komið fyrir í einum af sigkötlunum í austanverðum Mýrdalsjökli. Vatn safnast saman undir sigkötlunum vegna jarðhita sem bræðir botn jökulsins. Þetta vatn getur brotið sér leið undan jöklinum og valdið hlaupi í ám. Vonast er til þess að GPS tækið gefi fyrstu vísbendingu um að jökulhlaup sé í vændum ef yfirborð sigketilsins byrjar að síga. Tækið streymir gögnum í rauntíma til Veðurstofunnar og er það vaktað allan sólarhringinn. Sig hefur mælst hægt og mælst um 2 metrar frá því að mælirinn var settur upp.

Starfsmenn Veðurstofunnar við uppsetningu á GPS tækjum á Mýrdalsjökli í byrjun júlí. Sambærileg vöktunaraðferð hefur reynst Veðurstofunni vel í aðdraganda Skaftárhlaupa. Tækið streymir gögnum í rauntíma til Veðurstofunnar og er það vaktað allan sólarhringinn. (Ljósmynd: Bergur Einarsson)

Starfsmenn Veðurstofunnar við uppsetningu á GPS tækjum á Mýrdalsjökli í byrjun júlí. Sambærileg vöktunaraðferð hefur reynst Veðurstofunni vel í aðdraganda Skaftárhlaupa.  (Ljósmynd: Bergur Einarsson)


Grafið sýnir hæðarbreytingu í katli 10 í Mýrdalsjökli frá 6. júlí 2019 þegar GPS tæki var sett upp.

Möguleg vá

Ef kemur til hlaups mun ríkja flóðaástand í nokkra daga við bakka Múlakvíslar þar sem vega- og brúarmannvirki geta verið í hættu. Almenningi stafar hætta af vatnsflaumi og mögulegum skemmdum á mannvirkjum. Gasið brennisteinsvetni (H2S) getur verið í það nógu miklu magni í andrúmsloftinu nærri ánni að það brenni slímhúð í augum og í öndunarvegi. 

Veðurstofan fylgist grannt með þróuninni og bendir ferðamönnum á heimasíðu Almannavarna varðandi öryggisráðstafanir og vefsíðu Vegagerðarinnar vegna lokana á vegum ef kemur til hlaups úr Múlakvísl.

Rétt er að benda á að hlaup úr jarðhitakötlum í Mýrdalsjökli geta runnið fram í Skálm að hluta.

Síðast hljóp úr kötlum Mýrdalsjökuls í júlí 2017

Algengast er að flóð í Múlakvísl stafi frá uppsöfnuðu bræðsluvatni sem hleypur fram undan jöklinum. Allmörg hverasvæði eru þekkt undir Mýrdalsjökli. Sírennsli er frá einhverjum þessara svæða og fer það eftir landslaginu á hverjum stað hvort bræðsluvatnið safnast fyrir eða ekki. Bræðsluvatn sem safnast yfir hverasvæðunum finnur að lokum leið undan jöklinum þegar þrýstingur þess verður meiri en ísþrýstingurinn og veldur flóðum í Múlakvísl. Misjafnt er hversu mikið vatn safnast fyrir í þessum lónum áður en hleypur úr þeim og einnig hversu hratt þau tæmast.  Dagana 29.-32. maí 2019 voru íssjármælingar gerðar  af starfsmönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans yfir kötlum Mýrdalsjökuls. Niðurstöður mælinganna voru að  nægt vatn hafi safnast í austustu jarðhitakatla í Mýrdalsjökli til að koma af stað hlaupi úr þeim.  Mestar líkur eru á að hlaupið verði af svipaðri stærðargráðu og hlaupið árið 2017 en hugsanlega gæti það orðið stærra.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica