Fréttir

Fyrsta útgáfa viðbragðsáætlunar vegna lýðheilsuógna komin út

Þar undir falla atvik sem tengjast dreifingu mengunar og ösku frá eldgosum

22.10.2019

Lokið er gerð fyrstu útgáfu viðbragðsáætlunar vegna CBRNE atvika en undir þessa skilgreiningu flokkast atvik er varða lýðheilsuógnir af völdum efnamengunar, sýkla og geislunar. Veðurstofa Íslands átti fulltrúa í ritstjórn um viðbragðsáætlun vegna CBRNE atvika, en þar undir falla m.a. atvik sem tengjast dreifingu mengunar og ösku frá eldgosum. Innleiðingarferli áætlunar hefst núna í október og því verki mun ljúka í janúar 2020. Kynningar verða haldnar í öllum lögregluumdæmum á næstu vikum í samráði við lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra, umdæmis- og svæðislækna sóttvarna og aðra hlutaðeigandi viðbragðsaðila. Í ritstjórn viðbragðsáætlunar vegna CBRNE atvika eiga sæti fulltrúar þeirra stofnana er helst sinna verkefnum og samhæfingu þegar svona atvik verða, en það eru: Sóttvarnalæknir, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Mannvirkjastofnun, Eitrunarmiðstöð Landspítala, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Geislavarnir ríkisins og Veðurstofa Íslands. Fjölmargir aðrir komu að gerð áætlunarinnar, skráðu gátlista fyrir sínar einingar og sinntu yfirlestri.

Markmið áætlunarinnar er að auka almenna og sérhæfða þekkingu á atvikum af þessum toga og tryggja þannig hnökralaus viðbrögð í þeim tilgangi að lágmarka áhrif smits/mengunar/geislunar og annarra óvæntra atvika og vernda þannig lýðheilsu og umhverfi.

Áætlunin var unnin samkvæmt 12 kafla sniðmáti almannavarnadeilar ríkislögreglustjóra er varðar útlit og uppsetningu viðbragðsáætlana. Viðbragðsaðilar geta unnið samkvæmt eigin gátlistum í 8. kafla viðbragðsáætlunar án þess að til virkjunar komi. Þá gerir áætlunin ráð fyrir að virkja megi aðrar áætlanir samhliða þessari áætlun, sem dæmi má nefna viðbragðsáætlanir heilbrigðisstofnana, viðbragðsáætlanir sóttvarna á landamærum, hópslysaáætlanir almannavarna og viðbragðsáætlanir sveitarfélaga vegna mikilvægra innviða.

Samhliða gerð áætlunarinnar var unnið að gerð Handbókar CBRNE fyrir viðbragðsaðila á vettvangi en það eru slökkvilið, heilbrigðisstarfsmenn, lögregla og björgunarsveitir. Bókin verður gefin út á prenti í lok þessa árs og á nýju ári í Appi fyrir snjallsíma og fartölvur.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica