Fréttir

Tíðarfar í september 2019

Stutt yfirlit

2.10.2019


September var hlýr og úrkomusamur. Óvenju hlýtt var síðustu viku mánaðarins og veður með besta móti. Mánuðurinn var sérlega úrkomusamur um landið vestanvert. Miklar rigningar voru á Vesturlandi dagana 18. til 20. Vatnavextir í ám og skriðuföll ollu talsverðum skemmdum og trufluðu samgöngur á svæðinu.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 9,6 stig og er það 2,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 1,0 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,5 stig, 2,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,7 stig og 9,2 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2009-2018 °C
Reykjavík 9,6 2,3 13 149 1,0
Stykkishólmur 8,7 2,0 25 174 0,4
Bolungarvík 7,4 1,3 44 122 -0,3
Grímsey 7,2 1,9 31 146 -0,1
Akureyri 8,5 2,2 27 139 0,3
Egilsstaðir 8,1 1,9 16 65 -0,1
Dalatangi 8,1 1,5 24 82 -0,2
Teigarhorn 8,6 1,7 23 147 0,1
Höfn í Hornaf. 9,2


0,4
Stórhöfði 9,0 1,7 22 142 0,4
Hveravellir 5,1 2,7 8 55 1,1
Árnes 8,8 1,9 20 140 0,8

Meðalhiti og vik (°C) í september 2019.

September var hlýr. Óvenjuleg hlýindi einkenndu síðustu viku mánaðarins. Að tiltölu var hlýjast suðvestanlands og inná hálendi en kaldast á Ströndum og á útnesjum norðan- og austanlands (sjá mynd). Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,3 stig við Hágöngur en neikvætt hitavik var mest á Miðfjarðarnesi, -0,7 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í september miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Blikdalsá á Kjalarnesi 10,3 stig en lægstur 2,8 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur 6,0 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,3 stig á Seyðisfirði þ. 7. Óvenju hlýtt var á landinu síðari hluta mánaðarins. Eitt landsdægurhitamet var slegið þegar hitinn mældist 20,0 stig á Bláfeldi í Staðarsveit þ. 26. Septemberhitametið var þó langt frá því að vera í hættu í þessum hlýindakafla enda eru langflest hitamet septembermánaðar sett fyrir miðjan mánðuðinn.

Mesta frost í mánuðinum mældist -7,8 stig í Möðrudal þ. 30.

Úrkoma

September var sérlega úrkomusamur um landið vestanvert. Á allmörgum stöðvum mældist úrkoman sú mesta sem vitað er um í september t.d. á Bláfeldi (475,5 mm), Hjarðarfelli (472,7 mm) og í Hítardal (305,5 mm).

Miklar rigningar voru á Vesturlandi dagana 18. til 20. Vatnavextir í ám og skriðuföll ollu talsverðum skemmdum og trufluðu samgöngur á svæðinu.

Úrkoma í Reykjavík mældist 138,4 mm sem er rúmlega tvöfalt meira en meðalúrkoma áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 46,4 mm sem er 18 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 166,5 mm sem er nærri þrefalt meira en að meðallagi og er úrkoman sú næstmesta sem mælst hefur þar í september. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 185,6 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 20, átta fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 8 daga sem eru jafn margir og í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 135,9 sem er 11,1 stund yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 80,2 og er það 5,2 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,6 m/s undir meðallagi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1005,1 hPa og er það 0,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1028,7 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 18. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 975,8 hPa á Teigarhorni þ. 14.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var óvenju hlýtt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu. Þurrt var í þeim landshlutum fram eftir sumri en september var óvenju blautur. Á Norður og Austurlandi var svalara og úrkomusamara.

Meðalhitinn í Reykjavík var 11,0 stig sem er 1,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti sumarsins er í 5.sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 9,9 stig, 0,9 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 36.sæti á lista 139 ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 262,7 mm sem er 14% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 191,0 mm sem er 42% umfram meðallag áranna 1961 til 1991. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 42 í Reykjavík, 3 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 39 daga í sumar, 10 fleiri en í meðalári.

Í Reykjavík mældust 855 sólskinsstundir í sumar, 243 stundum fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og 188 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Sumarið 2019 er það þriðja sólríkasta frá upphafi mælinga, sólskinsstundirnar voru fleiri en nú sumrin 1928 og 1929.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu níu mánuði ársins í Reykjavík var 6,8 stig sem er 1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 5. til 6. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna níu 5,6 stig. Það er 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 15.sæti á lista 139 ára. Úrkoma í Reykjavík hefur verið 15 % umfram meðallag og 23 % umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2019 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.



















Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica