Fréttir
Ársfundur Veðurstofunnar var vel sóttur
Frá ársfundi Veðurstofunnar 2019. Fundurinn hefur að öllu jöfnu verið haldinn í mars og hann hafa sótt fjöldi samstarfsaðila og starfsmanna.

Veðurstofan tekur nýtt skref í þróun veðurþjónustu

Alþjóðlegt samstarf um úrvinnslu veðurgagna og rekstur ofurtölvu kynnt á ársfundi sem haldinn var í dag

26.3.2019

Ársfundur Veðurstofunnar var haldinn í dag. Fjöldi samstarfsaðila og starfsmanna hlýddu á áhugaverð erindi undir yfirskriftinni „"Vöktun og rannsóknir á náttúruöflum landsins. Nýjar áskoranir – nýjar leiðir". Á fundinum var einnig kynnt alþjóðlegt samstarf um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna sem Veðurstofan er hluti af. Tíu ríki – Ísland, Danmörk, Finnland, Svíþjóð, Noregur, Eistland, Lettland, Litháen, Holland og Írland – hafa ákveðið að keyra saman veðurlíkön og tilheyrandi ofurtölvur frá árinu 2027. Fyrsta skrefið eru aðskildar keyrslur fyrir annarsvegar austurhluta svæðisins, hins vegar keyrslur fyrir vesturhluta þess og eru þar saman Danmörk, Holland, Írland og Ísland.


Megintilgangur United Weather Centres (UWC) er að ná fram rekstrarhagræðingu hjá samstarfsaðilum með sameiginlegum rekstri líkana fyrir háupplausna skammtíma veðurspár og bæta þjónustu við borgarana. Myndin sýnir dæmi um þau spásvæði sem notast hefur verið við á síðustu árum meðal samstarfsríkjanna.

Sameiginleg ofurtölva samstarfsins verður staðsett á Veðurstofunni

Samstarfinu verður komið á í tveimur skrefum. Frá og með 2023 munu Veðurstofa Íslands, danska, írska og hollensku veðurstofurnar sameinast um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna. Sameiginleg ofurtölva vegna vesturhlutans verður staðsett á Veðurstofunni og kemur í stað ofurtölvu dönsku veðurstofunnar sem er þar nú. Samstarfið tekur svo á sig endanlega mynd árið 2027, þegar allar 10 veðurstofurnar sameinast um reksturinn undir heitinu „United Weather Centres“ – UWC

Auknar kröfur um úrvinnslu gagna og nákvæmari spár

Vegna loftslagsbreytinga eykst mikilvægi áreiðanlegra gagna hvað varðar veður, vatn og haf til að skilja og meta áhrif þeirra á innviði samfélagsins og daglegt líf fólks. Til að bæta öryggi almennings eykst þörfin að sama skapi fyrir öflugri reiknilíkön og nákvæmari spár sem oft spanna stór landssvæði. Nákvæmari veðurspár hafa kallað á margfalda reiknigetu sem einungis ofurtölvur ráða við. Til að mæta þessum kröfum sem kalla á kostnaðarsamar fjárfestingar og samvinnu ólíkra fræðasvið á ólíkum svæðum heimsins, er mikilvægt að sameina krafta þeirra stofnana á alþjóðagrundvelli sem reka reiknilíkön og sinna spáþjónustu.


Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigríður Víðis Jónsdóttir, aðstoðarkona ráðherra og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar. Guðmundur Ingi hrósaði starfsfólki Veðurstofnunnar fyrir þeirra framlag til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands.

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, telur þetta samkomulag mjög mikilvægt varðandi frekari þróun í gerð veðurlíkana fyrir Ísland og athafnasvæði landsins í Norður-Atlantshafi og víðfemt þjónustusvæði Veðurstofunnar fyrir alþjóðaflugið. “Veðurstofan leitar stöðugt leiða til að bæta þjónustu sína við íbúa og atvinnuvegi landsins. Við viljum vera í stakk búin til að svara auknum kröfum um nákvæmari og ítarlegri veðurspár, bæði til að auka öryggi landsmanna og þeirra ferðamanna sem landið sækja. Loftslagsbreytingar kalla einnig á öflugri reiknigetu og meiri samvinnu við gerð loftlagssviðsmynda til þess að sem best mynd fáist á þær breytingar á veðráttu og veðurfari sem samfélagið stendur frammi fyrir og þarf að aðlaga sig að.”


Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri Veðurstofu Íslands.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica