Fréttir
Hitavik í janúar 2019
Óvenju hlýtt var á landinu fram til þess 12. Þá tók við svalt veður, sérstaklega síðustu 6 daga mánaðarins.

Tíðarfar í janúar 2019

Stutt yfirlit

1.2.2019


Janúar var sérlega tvískiptur. Óvenju mikil hlýindi einkenndu fyrri hluta mánaðarins, hiti var langt yfir meðallagi um land allt og snjólétt víðast hvar. Seinni hluti mánaðarins var mun kaldari og þá sérstaklega síðustu dagarnir. Töluverður snjór var víða um land, vindur hægur og nokkuð bjart í veðri.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í janúar var 0,5 stig og er það 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,9 stig, 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,5 stig og 0,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2009-2018 °C
Reykjavík 0,5 1,0 50 149 -0,8
Stykkishólmur 0,5 1,8 37 til 39 174 -0,3
Bolungarvík -0,2 1,0 48 122 -0,8
Grímsey 0,5 1,7 37 146 -0,8
Akureyri -0,9 1,3 49 139 -0,8
Egilsstaðir -0,9 1,5 24 65 -0,7
Dalatangi 1,5 1,2 33 81 -0,7
Teigarhorn 0,6 0,9 57 147 -1,0
Höfn í Hornaf. 0,8


-0,8
Stórhöfði 2,3 1,0 42 143 -0,4
Hveravellir -5,2 1,4 22 55 -0,9
Árnes -1,3 0,8 57 140 -1,1

Meðalhiti og vik (°C) í janúar 2019

Óvenju hlýtt var á landinu fram til þess 12. Þá tók við svalt veður, sérstaklega síðustu 6 daga mánaðarins. Meðalhiti mánaðarins var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 á landinu öllu en undir meðallagi síðustu tíu ára. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á suðvestanverðu landinu. Neikvætt vik miðað við síðustu tíu ár var mest -1,9 stig á Þingvöllum en minnst á Keflavíkurflugvelli þar sem meðalhitinn var jafn meðalhita síðustu tíu ára.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í janúar miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 3,5 stig í Surtsey en lægstur -6,5 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur -4,4 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,9 stig á Dalatanga þ. 9 og er það nýtt dægurhámarkmet. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í janúar eru 19,6 stig sem mældust á Dalatanga þann 15. árið 2000. Mesta frost í mánuðinum mældist -27,5 stig í Möðrudal þ. 27.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 102,9 mm sem er 35% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 67,9 mm sem er 23% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 90,0 mm

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 18, fimm fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 10 daga mánaðarins, einum færri en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 13, einum færri en að meðaltali 1971 til 2000. Alhvítt var 22 daga á Akureyri sem er jafnt meðaltalinu 1971 til 2000.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 37,4 sem er 10,5 stundum fleiri en í meðallagi í janúar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 7,5 sem er 1 stund fleiri en í meðalári.

Vindur

Meðalvindhraði á landsvísu var um 0,6 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Sunnanáttir voru tíðar fyrri hluta mánaðar en norðanáttir þann seinni. Hvassast var á landinu þ. 9 (suðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1007,1 hPa sem er 6,8 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1039,7 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 1. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 969,2 hPa á Eyrarbakka þ. 21.

Skjöl fyrir janúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar 2019 (textaskjal).
Daglegtyfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica