Fréttir
Frá undirrituninni í dag, f.v. Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.
Frá undirrituninni í dag, f.v. Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.

Vöktun á jöklum og súrnun sjávar aukin

Forstjóri Veðurstofunnar undirritaði samkomulag við umhverfisráðherra í dag

25.9.2019

Í dag var tilkynnt um aukna vöktun Veðurstofu Íslands á jöklum á Íslandi undir heitinu „Hörfandi jöklar“. Alls verður 15 milljónum króna varið í vöktunina í ár og samtals 21 milljón króna frá og með næsta ári. Á árabilinu 2019-2023 er því um tæpar 100 milljónir að ræða. Framlögin verða m.a. nýtt til þátttöku í alþjóðlegum vöktunarverkefnum og til að setja upp sérstaka jöklavefsjá sem birtir uppfærðar upplýsingar um jökla og jöklabreytingar. Afkomureikningar fyrir jökla hér á landi verða einnig bættir sem mun t.d. gefa kost á birtingu daglegra upplýsinga um ákomu, leysingu og afkomu þeirra. Þá verður unnið gagnasafn um útbreiðslu íslenskra jökla og miðlun upplýsinga og myndræn framsetning bætt.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra segir að nú hafi íslensk stjórnvöld stigið stórt skref í átt að aukinni þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á nokkra lykilþætti eins og súrnun hafsins, jökla, skriðuhættu og sjávarstöðubreytingar. „Vöktun er afar mikilvægt tæki til að hjálpa okkur m.a. að skilja betur afleiðingar hamfarahlýnunar og er ekki síst þýðingarmikið fyrir vinnu þegar kemur að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Að sama skapi er sú þekking sem hér mun verða til veigamikið innlegg Íslands til loftslagsmála á alþjóðlegum vettvangi“, segir ráðherra.

Í dag undirrituðu einnig ráðherra og forstjóri Hafrannsóknastofnunar samning sem felur í sér að efla vöktun á súrnun hafsins og áhrifum hennar á lífríki og vistkerfi í hafinu umhverfis Íslands. Hafrannsóknastofnun fær 35 milljónir króna á árinu 2019 og 30 milljónir króna árlega á árunum 2020-2023, eða samtals 155 milljónir króna, til þessa viðfangsefnis.

Framlögum ársins í ár verður varið til kaupa á tækjabúnaði til þess að efla vöktun sem þegar á sér stað um sýrustig í hafi, en einnig til að hefja vöktun á botndýrum m.t.t. súrnunar sjávar. Niðurstöðunum verður m.a. skilað til alþjóðlegra stofnana og samvinnuverkefna sem Ísland tekur þátt í, auk þess sem þær verða nýttar í reglulegar vísindaskýrslur um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi.

Jöklar á Íslandi hopa hratt

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung. Flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um rúmlega 750 km2 síðan árið 2000 og u.þ.b. 2100 km2 frá lokum 19. aldar þegar jöklarnir náðu mestu útbreiðslu síðan land byggðist. Síðustu árin hefur heildarflatarmál jökla minnkað um u.þ.b. 40 km2 árlega að meðaltali. Að umfangi má líkja því við að þrjár eyjur á stærð við Heimaey hafi gufað upp árlega.

Fjallað er um efnið í árlegu fréttabréfi verkefnisins „ Hörfandi jöklar: Lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum“. Fréttabréfið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Jöklarannsóknafélags Íslands, Náttúrustofu Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarðs og er einn þáttur sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Verkefnið "Hörfandi jöklar" hófst 2016 og er þetta annað fréttabréfið sem kemur út á vegum verkefnsins.

Á síðasta ári hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálfboðaliðum Jöklarannsóknafélags Íslands hopuðu Kaldalónsjökull í Drangajökli, Sólheimajökull í Mýrdalsjökli og Skeiðarárjökull mest, eða 100–300 m. Hraðast hörfar Breiðamerkurjökull þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón, milli 200 og 300 m árlega. Hagafellsjökll eystri í Langjökli styttist um 700 m þegar dauðísbreiða slitnaði frá sporðinum.

Breiðamerkurjökull 1989-2019

Breiðamerkurjökull og Jökulsárlón. Myndin er tvískipt. Efri myndin sýnir jökulinn árið 1989 og neðri myndin lónið sem þar var komið 2019. (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee)

útlínur Breiðamerkurjökuls

Línurnar á kortinu sýna breytingar á jaðri Breiðamerkurjökuls frá 1890. (Myndvinnsla: Snævarr Guðmundsson, Náttúrustofu Suðausturlands)

Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi má sjá hversu mikil áhrif kelfing í sjó fram og í jökullón hefur á afkomu jökla. Jökulsárlón byrjaði að myndast um 1935. Það er nú ásamt Breiðárlóni og nokkrum öðrum minni lónum við jaðar Breiðamerkurjökuls yfir 30 km2 að flatarmáli. Síðustu árin hafa lónin samtals stækkað um 0,5–1 km2 árlega að meðaltali. Breiðamerkurjökull hörfar og þynnist bæði vegna yfirborðsleysingar í hlýnandi loftslagi og kelfingar (ís brotnar af sporðinum út í vatn eða sjó) í Jökulsárlón. Um þriðjungur massataps Breiðamerkurjökuls síðustu ár er vegna kelfingar. Hinar stóru ísbreiður Suðurskautslandsins og Grænlands tapa miklum ís við kelfingu og hefur hraði kelfingarinnar þar aukist að miklum mun á síðustu árum.

Hoffellsjökull

Hoffellsjökull í Hornafirði. Myndin sýnir breytingar 1982-2017. (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee)

útlínur Hoffellsjökuls

Línurnar á kortinu sýna breytingar á jaðri Hoffellsjökuls frá lokum 19. aldar. (Myndvinnsla: Snævarr Guðmundsson, Náttúrustofu Suðausturlands)

Hoffellsjökull í Hornafirði hefur rýrnað mikið síðan hann náði hámarksútbreiðslu undir lok 19. aldar og býður umhverfi jökulsins upp á einstætt tækifæri til þess að skoða ummerki jökulhörfunar frá hámarki litlu ísaldar. Hörfun jökulsins hefur leitt til myndunar lóns við sporðinn sem hefur stækkað hratt síðan um aldamótin 2000. Flatarmál Hoffellsjökuls hefur minnkað um tæplega 40 km2 síðan um aldamótin 1900 og um rúmlega 0,5 km2 á ári að meðaltali síðustu árin.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica