Fréttir

Eldfjallavefsjá á íslensku opnuð í dag

Þýðingarverkefnið hlaut styrk úr sjóði Áslaugar Hafliðadóttur

16.11.2019

Jarðvísindamenn á Íslandi eiga Jónasi Hallgrímssyni margt að þakka. Hann er af mörgum talinn einn brautryðjenda íslenskra náttúruvísinda, en Jónas lauk lokaprófi í náttúruvísindum árið 1838 með jarðfræði og steinafræði sem sérgrein. Samhliða rannsóknum og skrásetningu á náttúru Íslands, smíðaði Jónas mörg orð sem lifa góðu lífi í ræðu og riti nútímavísinda svo sem jarðfræði, jarðfræðingur, rannsóknarefni, veðurfræði, vísindastarf, staðvindur og eldsumbrot svo nokkur séu nefnd.

Veturinn 1839 vann Jónas að drögum að íslenskri eldfjallasögu sem hann endurbætti síðar og þýddi á dönsku. Hvorugt ritið var gefið út; íslenska handritið lenti í skjalasafni Bókmenntafélagsins en hið danska í gögnum Japetusar Steenstrup.

Það er því við hæfi að velja fæðingardag Jónasar til opna aðgang að íslenskri eldfjallavefsjá. Íslensk eldfjallavefsjá – www.islenskeldfjoll.is - er gagnvirk vefsíða og opinbert uppflettirit þar sem er að finna heildaryfirlit um virkar eldstöðvar á Íslandi, alls 32 talsins, öllum aðgengileg á ensku og nú á íslensku!  Eldfjallavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra með aðkomu fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga sem hafa lagt verkefninu lið.

IMG_1692

Ríkey Júlíusdóttir sýnir gesti eldfjallavefsjána á dagskrá sem haldin var í Gamla bíói á Degi íslenskrar tungu. (Ljósmynd: Veðurstofan)

Mikilvægt að styrkja íslensku í jarðfræðum

Þær Bergrún Óladóttir, Ríkey Júlíusdóttir og Gunnlaugur Bjarnason hafa unnið að þýðingu á efni vefsíðunnar frá því snemma árs 2018, en vinna við ensku útgáfu síðunnar hófst fljótlega eftir Eyjafjallajökulsgosið 2010. „Þá reyndist vera þörf erlendis á upplýsingum um íslensk eldfjöll. Ensk útgáfa af vefnum fór í loftið 2016 og fyrir nokkrum misserum fengum við svo styrk til að koma efninu yfir á íslensku. Þetta hefur verið mjög áhugavert verkefni og gaman að kynnast þeim mikla fjölda orða á íslensku sem Jónas Hallgrímsson smíðaði”, segir Bergrún.

Verkið hlaut styrk úr sjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Með þýðingu efnis vefsjárinnar verður íslenskumælandi almenningi auðveldað aðgengi að þessum mikilvægu upplýsingum og grunn- og framhaldsskólum veitt öflugt kennslutól um eldvirkni landsins. Ísland er lítið málsamfélag og mikilvægt er að viðhalda og styrkja notkun íslensku í jarðfræðum með íslenskun viðurkennds fræðiefnis og útgáfu þess á aðgengilegu formi.

Skjaskot_Vefsidan

Í gegnum eldfjallavefsjánna geta viðbragðs- og hagsmunaaðilar einnig nálgast miklar og mikilvægar upplýsingar um virkni íslenskra eldstöðva, fjöldann allan af kortum og fylgst með virkni kerfanna í rauntíma.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica