Fréttir
Á Akureyri var meðalhitinn 9,3 stig, -0,7 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990
Á Akureyri var meðalhitinn í ágúst 9,3 stig, -0,7 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990

Tíðarfar í ágúst 2019

Stutt yfirlit

3.9.2019


Ágúst var fremur kaldur um land allt, sérstaklega um landið norðan- og norðaustanvert. Á landsvísu hefur ágústmánuður ekki verið eins kaldur síðan árið 1993. Þurrt og bjart var um landið sunnan- og vestanvert en blautara norðaustanlands. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 10,8 stig og er það 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,3 stig, -0,7 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,5 stig og 10,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2009-2018 °C
Reykjavík 10,8 0,5 55 til 56 149 -0,5
Stykkishólmur 9,5 -0,1 103 til 104 174 -1,1
Bolungarvík 8,0 -0,7 104 122 -1,6
Grímsey 7,4 -0,4 95 146 -1,5
Akureyri 9,3 -0,7 100 139 -1,3
Egilsstaðir 9,0 -0,6 51 65 -1,0
Dalatangi 8,9 0,5 37 til 38 82 -0,3
Teigarhorn 9,6 0,9 31 147 0,0
Höfn í Hornaf. 10,3


-0,3
Stórhöfði 10,1 0,5 57 142 -0,5
Hveravellir 6,4 0,2 35 55 -0,8
Árnes 10,5 0,4 63 140 -0,5

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2019

Fremur svalt var á landinu í ágúst. Hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár voru að mestu neikvæð (sjá mynd). Að tiltölu var kaldast um landið norðan- og norðaustanvert en hlýjast á Suðausturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,1 stig á Kambanesi en neikvætt hitavik var mest á Gjögurflugvelli, -2,2 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum 11,2 stig en lægstur 3,1 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur 6,5 stig á Gjögurflugvelli.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 23,4 stig á Torfum í Eyjafirði þ. 1. Mesta frost í mánuðinum mældist -3,6 stig á Brúsastöðum þ. 19.

Úrkoma

Þurrt var á sunnan- og vestanverðu landinu, þá sérstaklega fyrstu þrjár vikur mánaðarins.

Úrkoma í Reykjavík mældist 38,4 mm sem er 62% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 67,9 mm sem er um helmingi meira en að meðallagi í ágúst. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 42,7 mm og 64,0 mm í Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 8, fjórum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 12 daga sem er fimm fleiri en í meðalári. Í Stykkishólmi voru úrkomudagarnir 5 og á Höfn í Hornafirði voru þeir 9.

Sólskinsstundafjöldi

Ágúst var sólríkur suðvestanlands. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 220,6 sem er 65,8 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 118,0 sem er 17,7 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,7 m/s yfir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1007,6 hPa og er það 1,0 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1025,0 hPa á Raufarhöfn þ. 1. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 975,7 hPa í Grindavík þ. 26.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarið hefur verið þurrt og mjög sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu. Sumarið er það þriðja sólríkasta í Reykjavík frá upphafi mælinga. Á Norður- og Austurlandi var aftur aftur á móti svalari og úrkomusamari tíð.

Meðalhiti í Reykjavík var 11,5 stig sem er 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja í Reykjavík er í 9. til 10. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,3 stig, 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,3 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 53. sæti á lista 139 ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 124,3 mm sem er 76% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 144,6 mm sem er 52% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 10 færri en í meðalári í Reykjavík en 10 fleiri en í meðalári á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 719,1 í Reykjavík, 232 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og 172 stundum fleiri en síðustu tíu ár. Sumarið 2019 er það þriðja sólríkasta frá upphafi mælinga, sólskinsstundirnar voru lítillega fleiri en nú sumrin 1928 og 1929. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 437,2 sem er 33 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 34 stundum færra en að jafnaði í sömu mánuðum síðustu tíu ára.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu átta mánuði ársins í Reykjavík var 6,4 stig sem er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 8. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna átta 5,2 stig. Það er 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 20.sæti á lista 139 ára. Úrkoman hefur verið í meðallagi í Reykjavík, en um 25% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2019 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica