Fréttir
Stýrinefnd Arctic-HYCOS fundaði á Veðurstofunni samhliða vinnustofunni.

Alþjóðleg vinnustofa um jarðarlíkön á vegum Veðurstofunnar

Haldin í samvinnu við Alþjóðaveðurfræðistofnunina

27.11.2019

Í dag lauk tveggja daga vinnustofu á vegum Veðurstofunnar sem bar yfirskriftina „Arctic Earth System Modelling – Responding to Grand Challenges in the Arctic“. Vinnustofuna sóttu rúmlega 50 vísindamenn frá 28 stofnunum í 9 löndum. Þarna voru saman komnir helstu sérfræðingar í líkangerð á Norðurslóðum innan vatna- og jöklafræða, haf- og hafísfræða, og veður- og loftslagsfræða. Vinnustofan er eitt af verkefnum á vegum Veðurstofunnar í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Markmið verkefnisins er m.a. viðhald vatnamælingakerfa sem vakta innrennsli til Íshafsins, samræming á aðferðum við mælingar, miðlun upplýsinga um rennsli og loftslagsþætti ásamt þróun vatnafræðilegra líkana og spáa fyrir Norðurskautssvæðið.

„Þetta er nýr samstarfsvettvangur sem við erum að þróa til að mæta aukinni þörf til að vakta og rannsaka þær breytingar sem nú eiga sér stað á Norðurslóðum og rekja má til loftslagsbreytinga“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Þarna er saman kominn hópur vísindamanna þvert á fræðasvið. Það er greinilegt á gestum vinnustofunnar að það er mikið gagn í að auka samvinnu milli þessara fræðasviða svo vísindasamfélagið geti betur mætt þörfum samfélaga á Norðurslóðum til að bæta getu þeirra til að mæta þeim breytingum sem munu eiga sér stað í náttúrunni“, segir Árni.


Kerfi jarðar, hvernig þau spila saman og hafa áhrif hvort á annað. Vinnustofan var því mikilvægur samstarfsvettvangur stofnanna. "Viðbrögð frá okkur vísindamönnum sem meðal annars þurfa að miða að því að skilja betur keðjuverkun þessara breytinga í freðhvolfinu á önnur kerfi jarðar, svo sem lífríkið og hringrás vatnsins. Svo kalla þessar breytingar ekki síður á viðbrögð samfélagsins sem miða að því að aðlagast þessum breytingum“, segir Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar.

Í tengslum við vinnustofuna var haldinn stýrinefndarfundur í samstarfshópnum „Arctic-HYCOS“ sem er eitt af svokölluðum HYCOS verkefnum Alþjóðaveðurfræðistofunarinnar (WMO). Eitt helsta markmið Arctic-HYCOS er í takti við markmið vinnustofunnar um jarðarlíkönin, en það er að meta ferskvatnsinnrennsli í Norður-Íshafið með því að halda úti yfirgripsmiklu kerfi vatnshæðarmæla í aðildarlöndunum, samræma mæliaðferðir, efla opið aðgengi að kerfisbundnum mælingum á vatn og þróa vatnafræðileg líkön og spákerfi fyrir Norðurslóðir. Á fundinum var farið yfir stöðu þessara verkefna og rætt um áherslur í næsta fasa netverksins.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica