Fréttir

Bráðnun jökla mun aukast í framtíðinni

Veðurstofan með málstofu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25

11.12.2019

Bráðnun jökla mun aukast í framtíðinni, hvort sem um ræðir hækkun meðalhita á jörðinni um 1,5 eða 2 gráður.  Bráðnunin mun hafa víðtæk áhrif á vatnsbúskap jarðar og sjávarstöðu. Þetta voru meginskilaboð málstofu sem Veðurstofan og Alþjóða veðurfræðistofnunin, WMO, stóðu fyrir í dag á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem nú stendur yfir í Madrid.

Tómas Jóhannesson, fagstjóri jöklarannsókna á Veðurstofunni, var einn þeirra sem hélt erindi á málstofunni sem bar yfirskriftina: „Jöklar: Lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum“. Í erindi Tómasar kom meðal annars fram að hlýnun á norðurskautssvæðinu hefur verið meira en tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni á síðustu tveimur áratugum. Hækkun á meðalhita jarðar um 1,5 til 2 gráður, þýðir hækkun upp á 3-4 gráður yfir flestum jöklum norðurskautssvæðisins. „Ef þær sviðsmyndir ganga eftir sem unnið er með varðandi hlýnun jarðar er líklegt að margir jöklar muni hverfa að fullu á næstu 200 árum“, segir Tómas.


Tómas sýndi meðal annars þær miklu breytingar sem hafa orðið á jöklum Íslands á síðustu áratugum með flugsýn af tungu Skálafellsjökuls 1989 og 2019. (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee).

Breytingarnar á freðhvolfi jarðar kalla viðbrögð

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, flutti einnig erindi um hlutverk GlobalCryosphere Watch , en Árni hefur leitt þann samstarfsvettvang innan WMO. Markmiðið með þeim vettvangi er meðal annars að auka alþjóðlega samvinnu á sviði mælinga og rannsókna á freðhvolfi jarðar: Hveljöklum, fjallajöklum, snjóþekju, hafís, sífrera og lagnaðarís á ám og vötnum. „Þær miklu breytingar sem eiga sér stað í freðhvolfi jarðar kalla á viðbrögð. Viðbrögð frá okkur vísindamönnum sem meðal annars þurfa að miða að því að skilja betur keðjuverkun þessara breytinga í freðhvolfinu á önnur kerfi jarðar, svo sem lífríkið og hringrás vatnsins. Svo kalla þessar breytingar ekki síður á viðbrögð samfélagsins sem miða að því að aðlagast þessum breytingum“, segir Árni. „Nú þegar hefur til að mynda Landsvirkjun breytt sínum áætlunum og stýringu á vatnsaflsvirkjunum vegna breytinga á afkomu jökla. Eins hafa nokkur ríki neyðst til að styrkja mannvirki til að standast ágang sjávar. Þörfin fyrir slíkar aðlögunaraðgerðir mun koma til með að aukast í framtíðinni“, segir Árni.

49199529852_40137d12fc_k

Árni flutti einnig erindi á málstofu á vegum WMO um hafið, sem og á málstofu um ferskvatnsinnrennsli til heimshafanna á vegum UNESCO-IHP, vatnafræðinefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hér er Árni (t.v.) við hlið Petteri Taalas, aðalritara WMO á málstofunni um hafið.

Vöktun er mikilvæg til að skilja betur afleiðingar hlýnunar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra tók einnig þátt í loftslagsráðstefnunni og sagði meðal annars frá því að stjórnvöld hafi stigið stórt skref í átt að aukinni þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga með því að veita aukið fé til vöktunar á jöklum á Íslandi sem og vöktun á súrnun sjávar. „Vöktun er afar mikilvægt tæki til að hjálpa okkur m.a. að skilja betur afleiðingar hamfarahlýnunar og er ekki síst þýðingarmikið fyrir vinnu þegar kemur að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Að sama skapi er sú þekking sem hér mun verða til veigamikið innlegg Íslands til loftslagsmála á alþjóðlegum vettvangi“, segir ráðherra.

Radherra-a-surnunsjavar-vidburdi-skorin

Guðmundir Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar hér ráðstefnugesti COP25 á málstofu um súrnun sjávar. Guðmundir sagði meðal annars frá því að amma hans hafi kennt honum nöfn fjögurra jökla sem sáust út um gluggann á æskuheimili hans. Nú eru jöklarnir einungis þrír.

Nánar um málstofu Veðurstofunnar og Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar um jökla og freðhvolfið á fréttasíðu WMO. Upptöku frá málstofunni má nálgast hér að neðan. Erindi Tómasar hefst á 21. mínútu og erindi Árna á 41. mínútu. Málstofan.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica