Fréttir
Ísland 20. júní 2018
Gervihnattamynd tekin af Íslandi á hádegi 20. júní 2018.

Tíðarfar ársins 2018

Yfirlit

15.1.2019

Árið 2018 var úrkomusamt og nokkuð hlýtt. Úrkoma var yfir meðallagi á nær öllu landinu og úrkomudagar óvenju margir bæði sunnan- og norðanlands. Sumarmánuðirnir voru svalir á suðvestanverðu landinu á meðan hlýtt var norðaustanlands. Sólarlítið var á suðvesturhluta landins á árinu og hafa ekki mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík á einu ári síðan 1992. Júní og júlí voru óvenju þungbúnir suðvestanlands. Hlýtt var síðustu tvo mánuði ársins. Vindur var í meðallagi á árinu.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,8 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 4,5 stig, 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 4,6 stig sem er 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Hlýtt var á Austurlandi á árinu, á Egilsstöðum var ársmeðalhitinn 4,6 stig og 5. hlýjasta árið þar frá upphafi mælinga. Á Dalatanga var ársmeðalhitinn 5,2 stig og hefur árshitinn aðeins þrisvar sinnum verið hærri þar. Á landsvísu var hitinn 1,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en jafnt meðaltali síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik ársins 2018 á nokkrum stöðum

stöð hiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2008-2017
Reykjavík 5,1 0,8 30 148 -0,3
Hvanneyri 4,3 # 14 21 -0,3
Bláfeldur 4,8 # 14 til 15 21 -0,5
Stykkishólmur 4,5 1,0 24 173 -0,4
Bolungarvík 4,1 1,2 19 til 20 121 -0,1
Litla-Ávík 4,0 # 8 23 0,0
Blönduós 3,8 # 9 15 -0,1
Grímsey 4,1 1,8 5 145 0,2
Akureyri 4,6 1,3 14 138 0,2
Grímsstaðir 2,1 1,7 9 112 0,4
Miðfjarðarnes 4,0 # 4 19 0,6
Skjaldþingsstaðir 4,6 # 4 24 0,6
Egilsstaðir 4,6 1,7 5 64 0,6
Dalatangi 5,2 1,7 4 til 5 81 0,5
Teigarhorn 5,1 1,4 6 146 0,3
Höfn í Hornaf. 5,6 #

0,1
Fagurhólsmýri 5,7 1,1 14 til 15 106 0,1
Vatnsskarðshólar 5,9 0,9 13 40 0,0
Stórhöfði 5,4 0,6 38 til 39 142 -0,4
Árnes 4,4 0,8 28 139 -0,2
Hjarðarland 4,2 # 14 28 -0,2
Hveravellir 0,1 1,2 14 54 -0,2
Eyrarbakki 5,0 0,9 28 126 -0,2
Keflavíkurflugvöllur 4,9 0,5 29 til 31 66 -0,5

Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey 6,3 stig. Lægsti ársmeðalhitinn var á Brúarjökli -1,7 stig, og lægstur í byggð í Svartárkoti, 1,7 stig.

Árið var fremur hlýtt, þá sér í lagi á Austur- og Norðausturlandi á meðan svalara var sunnan- og vestanlands. Ársmeðalhitinn var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Þar sést vel hve skörp skil voru á milli landshluta þetta árið, vikin eru jákvæð norðaustanlands en neikkvæð sunnan- og vestanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,6 stig á Skjaldþingsstöðum. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Botnsheiði -0,6 stig. 


Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2018 miðað við síðustu tíu ár. 

Hæsti hiti ársins á landinu mældist 24,7 stig á Patreksfirði þann 29. júlí þegar snögg hitabylgja gekk yfir landið. Nokkuð óvenjulegt er að hámarkshiti ársins mælist á Vestfjörðum. Mesta frost ársins mældist -25,6 stig þann 21. janúar bæði í Svartárkoti og við Mývatn.

Hæsti hiti í Reykjavík mældist 23,5 stig þann 29.júlí en mest 20,5 stig á Akureyri þann 27.júlí. Lægsti hiti í Reykjavík mældist -9,0 stig þann 19.janúar, en á Akureyri mældist lægsti hitinn -13,6 stig þann 21.janúar. 



Í Reykjavík var hiti ofan meðallags í janúar til apríl. Hiti var undir meðallagi í Reykjavík í maí og júní, rétt yfir meðallagi í júlí og ágúst og svo aftur undir meðallagi í september og október. Nóvember og desember voru mjög hlýir í Reykjavík. Á Akureyri var hiti ofan meðallags í öllum mánuðum nema í ágúst. 

Úrkoma

Árið var úrkomusamt. Úrkoma var yfir meðaltali áranna 1971 til 2000 og meðaltali síðustu tíu ára á flestum stöðum landsins. Fjöldi úrkomudaga á árinu var óvenju mikill bæði í Reykjavík og á Akureyri.

stöð ársúr hlut f7100 % Hlutf 0817 % mest d. úrkd Úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 1054,9 128,3 120,5 47,7 261 183 38 302
Stykkishólmur 875,3 123,4 118,3 39,6 228 155 46 312
Hólar í Dýrafirði 1243,7 99,9 109,0 80,9 251 153

Litla-Ávík 897,3 # 100,6 35,9 264 166 64 229
Hraun á Skaga 454,5 88,3 89,4 18,3 205 110 53 237
Litla-Hlíð 409,6 107,6 106,6 16,8 213 93 77 245
Sauðanesviti 927,3 107,6 101,1 48,7 227 158 50 227
Akureyri 695,9 134,2 114,9 37,1 209 131 98 218
Mýri 581,8 133,0 111,6 23,2 185 122 104 195
Grímsstaðir 473,7 134,9 113,2 20,0 197 110 100 172
Dalatangi 1975,2 131,7 112,1 71,3 275 189 53 293
Höfn í Hornafirði 1874,7 139,7 121,7 56,4 281 191 # #
Vatnsskarðshólar 2016,4 123,9 116,5 57,1 266 210 18 293
Hjarðarland 1319,2 98,4 103,5 52,7 204 174 36 278
Írafoss 2191,0 120,8 113,1 84,2 193 182 32 260
Keflavíkurflugvöllur 1219,5 109,4 117,9 35,0 274 199 34 293

Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1971 til 2000 (samanburður næst við fleiri stöðvar þetta tímabil heldur en 1961 til 1990). (3) Hlutfall miðað við árin 2008 til 2017 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

Úrkoma í Reykjavík mældist 1054,9 mm, 28 prósent ofan meðallags áranna 1971 til 2000 en 20 prósent ofan meðallags síðustu tíu ára. Ársúrkoma hefur aðeins 7 sinnum mælst meiri frá upphafi samfelldra mælinga 1921, síðast 2007. Á Akureyri mældist úrkoman 695,9 mm, 34 prósent ofan meðallags 1971 til 2000 en 15 prósent ofan meðallags síðustu tíu ára. Úrkoman hefur aðeins tvisvar mælst meiri á Akureyri á einu ári, 2014 og 1989. Á Dalatanga mældist úrkoman 1975,2 mm, um 32 prósent umfram meðallag áranna 1971 til 2000. 


Úrkomuvik árið 2018 miðað við síðustu tíu ár (hlutfall miðað við árin 2008 til 2017). 




Árið var úrkomusamt bæði í Reykjavík og á Akureyri. Úrkoma í Reykjavík var langt umfram meðallag í Reykjavík í febrúar, maí og júní. Aldrei hefur rignt eins mikið í Reykjavík í maímánuði frá upphafi mælinga. Mars var óvenju þurr í Reykjavík. Á Akureyri var úrkoma yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í janúar og apríl. Úrkoman var langt umfram meðallag í maí , júlí og nóvember. 

Úrkomudagar í Reykjavík voru óvenjumargir, 261 og hafa aldrei verið fleiri. Næstflestir voru úrkomudagarnir árið 1953 og 1989, 255 talsins. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 183, 35 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og hafa aðeins tvisvar verið fleiri, 1953 og 1921. Úrkomudagar voru einnig óvenjumargir á Akureyri, 209, og hafa aðeins þrisvar verið fleiri á einu ári, flestir 224 árið 2014. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 131, 28 fleiri en í meðalári.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 134,7 mm á Neskaupsstað þann 1.desmber.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 47,7 mm, þann 18. nóvember, en helgina 16. til 18. nóvember féllu 83,2 mm á tveimur sólarhringum, sem er mesta úrkoma sem mælst hefur á tveimur sólarhringum í Reykjavík. Á Akureyri mældist sólarhrings úrkoman mest 37,1 mm þann 30.nóvember. Sú úrkoma féll sem snjór. 

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 38 sem er 26 færri en meðaltal áranna 1971 og 2000. Þónokkur snjór var í Reykjavík í janúar og febrúar en mars var alauður sem hefur ekki gerst síðan í mars 2005. Lítillega snjóaði í maí en haustið var svo með snjóléttasta móti og hafa alhvítir dagar einungis verið 4 frá því í maí.

Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 98, tíu færri en meðaltal áranna 1971 og 2000. Á Akureyri var töluverður snjór í janúar og febrúar og þar til um miðjan mars. Alhvítir dagar voru færri en að meðallagi á Akureyri síðari hluta árs en mikill snjór féll þó í lok nóvember og byrjun desember. Þann 30. nóvember mældist snjódýpt 75 cm sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur á Akureyri nóvembermánuði og þann 3. desember mældist snjódýpt 105 cm sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í desembermánuði. Mesta snjódýpt á árinu mældist 123 cm í Lerkihlíð þ. 9. mars. 



Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi í Reykjavík og á Akureyri. Fjöldi alhvítra daga var yfir meðaltali á Akureyri í janúar og febrúar. Í Reykavík voru alhvítu dagarnir yfir meðallagi í febrúar en vel undir því í mars, enda var mánuðurinn alauður. Snjólétt var bæði í Reykjavík og á Akureyri síðustu mánuði ársins en töluvert fannfergi var þó á Akureyri um mánaðarmótin nóvember til desember.

Sólskinsstundir

Sólarlítið var á suðvesturhluta landsins á árinu. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1161,3, 107 færri en í meðallári 1961 til 1990, en 246 stundum færri en að meðallagi síðustu tíu ár. Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir á einu ári síðan 1992. Júní og júlí voru sérlega þungbúnir á suðvesturhorninu og ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í júnímánuði síðan 1914. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1016,7 eða 28 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 40 færri en að meðallagi síðustu tíu ára.


Í Reykjavík var sérlega þungbúið í maí, júní og júlí og hafa sólskinsstundir ekki mælst eins fáar í Reykjavík í júnímánuði síðan 1914. Sólríkt var í mars, ágúst og september. Á Akureyri var sólríkt í mars, júní og spetember en sólarminna var í apríl, júlí, ágúst og október. 

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1003,0 hPa og er það 2,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. 

Hæsti þrýstingur ársins mældist 1046,0 hPa á Gjögurflugvelli þann 27. október en lægstur á Rauðanúpi þann 14. janúar 944,4 hPa.


Þrýstingur vék ekki svo mjög frá meðallagi í einstökum mánuðum ársins. Þrýstingur var undir meðallagi alla mánuði ársins nema í mars og í júní. Neikvæð mánaðarvik voru mest í janúar, febrúar og maí. 

Vindhraði og vindáttir

Vindhraði á landsvísu var í meðallagi á árinu. 



Vindhraði á landsvísu var vel yfir meðallagi í febrúar og maí. Mars og apríl voru hægviðrasamir. Í öðrum mánuðum var vindhraði nærri meðallagi. 



Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (1998 til 2017). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Sunnanáttir (appelsínugular súlur) voru óvenju tíðar í febrúar og maí auk þess að vera ríkjandi í júní, júlí og október. Norðlægar áttir voru tíðar í janúar, mars, ágúst, september og nóvember. Vestanáttir (bláar súlur) voru ríkjandi í maí til júlí og svo aftur í september til október, en austlægar áttir voru algengari í janúar, mars, apríl og svo aftur í lok árs. 

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Veður var umhleypingasamt en tíð var þó nokkuð hagstæð miðað við árstíma. Hiti var víðast hvar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en allsstaðar undir meðallagi síðustu tíu ára. Hálka þótti mikil og þrálát.

Febrúar

Febrúar var illviðra- og úrkomusamur. Vindhraði var vel yfir meðallagi og úrkoma mikil, einkum um landið sunnan- og vestanvert. Hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en aðeins undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Suðvesturlandi. Töluverðar truflanir voru á samgöngum.

Mars

Mars var mjög tvískiptur. Fyrri helmingur mánaðarins var fremur kaldur. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi, nánast úrkomulaust var um landið sunnan- og vestanvert og sérlega sólríkt. Á meðan var töluverður snjór um landið norðan og austanvert. Seinni hluti mánaðarins var hlýrri og suðlægari áttir algengari. Mánuðurinn var hægviðrasamur og lítið um illviðri.

Apríl

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í apríl. Hiti var vel ofan meðallags 1961 til 1990. Mánuðurinn var hægviðrasamur og lítið um hvassviðri. Austanáttir voru ríkjandi og fremur úrkomusamt austanlands.

Maí

Fremur svalt var í veðri maí um landið suðvestanvert á meðan hlýtt var á Norðaustur- og Austurlandi. Mjög hlýir dagar voru í lok mánaðar á Norðuausturlandi. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur, þá sérstaklega vestanlands. Ný mánaðarúrkomumet voru sett á nokkrum stöðvum í maí. Í Reykjavík mældist úrkoma alla daga mánaðarins og hefur ekki mælst eins mikil úrkoma þar frá upphafi mælinga.

Júní

Mánuðurinn var óvenju þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki mælst eins fáar í júnímánði síðan árið 1914. Úrkoma var mikil í þessum landshlutum og veður fremur svalt. Á austanverðu landinu var aftur á móti hlýtt og sólríkt. Hiti fór þar margoft yfir 20 stig. Sunnan- og suðvestanáttir voru ríkjandi.

Júlí

Mánuðurinn var hlýr og bjartur austanlands en fremur svalur og sérlega sólarlítill sunnan- og vestanlands. Úrkoma var yfir meðallagi um mest allt land og mánuðurinn var víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið. Snögg hitabylgja gekk yfir landið þ. 29. þegar hitinn fór allvíða yfir 20 stig.

Ágúst

Ágúst var fremur svalur mánuður. Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en nær allsstaðar undir meðallagi síðustu tíu ára, einna síst austanlands. Úrkoma var meiri en í meðallagi norðan- og austanlands en fremur sólríkt var á vesturhluta landsins.

September

September var fremur kaldur á landinu öllu. Hiti var vel undir meðallagi síðustu tíu ára en nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Norðanáttir voru tíðar um miðjan mánuðinn með bjartviðri suðvestanlands en úrkomu á Norðausturlandi.

Október

Október var fremur svalur, hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Tíð var þó nokkuð hagstæð. Úrkoma var víðast hvar yfir meðallagi.

Nóvember

Nóvember var hlýr og hiti var yfir meðaltali á landinu öllu. Austanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Mikil hlýindi voru á landinu helgina 16. til 18. nóvember með sunnanátt og óvenju mikilli úrkomu á sunnan- og vestanverðu landinu. Í Reykjavík mældist úrkoman 83,2 mm á tveimur sólarhringum og er það mesta úrkoma sem mælst hefur á tveimur sólarhringum í Reykjavík. Norðaustan hvassviðri gekk yfir landið í lok mánaðar með þó nokkru fannfergi norðanlands. Snjódýpt mældist 75 cm á Akureyri þ. 30. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í nóvembermánuði.

Desember

Óvenju hlýtt var í desember og var hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Töluvert fannfergi var þó á Norðurlandi í byrjun mánaðar og mældist snjódýpt á Akureyri 105 cm þ. 3. sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í desembermánuði. Austlægar áttir voru ríkjandi í desember.

Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2018 (textaskjal)











Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica