Fréttir
Eldgos við Litla-Hrút 10. júlí 2023. Ljósmynd: Elísabet Pálmadóttir/Veðurstofa Íslands. The volcanic eruption taken 10 July 2023. Photo: IMO/Elísabet Pálmadóttir

Merki um landris á Reykjanesskaga

Viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu

12.9.2023

Merki um landris er farið að sjást á Reykjanesskaga eftir að eldgosinu við Litla Hrút lauk í byrjun águst.  Sérfræðingar á Veðurstofunni segja að þeim sýnist á GPS-mælum að landrisið sé á svipuðum slóðum og fyrir síðasta gos í sumar. Þó er aflögun ennþá of litil til að hún sjáist á gervitunglamyndum. Líklegast erum við að horfa á þessa langtímaviðvörun sem við höfum áður haft. Land hefur tekið að rísa um leið og fyrri tveimur gosum lauk en eitthvað hægara en vísbendingar benda til nú. Síðasta gos hófst við Litla-Hrút 10. júlí síðastliðinn og síðast sást virkni  í gígnum 5. ágúst og var goslokum lýst yfir 10 dögum síðar. Nú bendir til að um leið og gosinu lauk voru komin merki um áframhaldandi þenslu. 

Viðvarandi skjálftavirkni hefur verið á vestanverðum Reykjanesskaganum og afmarkast virknin helst við vestasta hluta Reykjaness, Svartsengi, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. Stærsti jarðskjálfti frá goslokum var M3,8 þann 9. sept 2,5 km vestan við Kleifarvatn.

Í siðustu viku fóru sérfræðingar frá Veðurstofunni að mæla gas og hitastig í jarðhitasvæði í Trölladyngju (austan við Keili) en engin merki um óvenjulega virkni hefur mælst þar.

Talið er að eldgosin á Reykjanesskaga séu upphaf elda og hafa vísindamenn líkt þeim við Kröfluelda 1975-84 en þá rann hraun ofanjarðar níu sinnum á tímabilinu með tilheyrandi landrisi, -sigi og jarðskjálftum.  

Festarfjall

Tímaröð fyrir GPS stöðina við Festarfjall sem staðsett er við Suðurstrandarveg sunnan við Fagradalsfjall. Myndin sýnir færslur í norður, austur, upp. bláu línurnar sýna upphaf innskota sem orðið hafa við Fagradalsfjall og rauðu línurnar upphaf eldgosanna. Norður þáttur tímaraðarinnar sýnir einna best þenslu undir Fagradalsfjalli. færsla í norður sýnir sigmerki en suður færsla sýnir ris eða þennslumerki

KRIV-plate-year

Tímaröð fyrir GPS stöðina í Krísuvík sem er nokkuð  austan við Fagradalsfjall. Myndin sýnir færslur í norður, austur, upp. bláu línurnar sýna upphaf innskota sem orðið hafa við Fagradalsfjall og rauðu línurnar upphaf eldgosanna. Austur þáttur tímaraðarinnar sýnir einna best þenslu undir Fagradalsfjalli. færsla til austurs sýnir  færslu  í átt frá Fagradalsfjall sem er ris eða þennslumerki

Útskýring á gröfunum:

  • Á lárétta ásnum er tími og lóðrétta ásnum er færsla í millimetrum fyrir norður, austur og upp á sitt hvoru grafinu. Rauðu punktarnir sýna stöðu GPS stöðvarinnar á hverjum degi miðað við einhvern upphafspunkt sem er í byrjun grafsins. Sú staðsetning skiptir ekki máli heldur hvernig stöðin er að færast í tíma, þess vegna er stöðin sett á 0 punkt í upphafi. Ef ekkert væri að gerast myndu rauðu punktarnir allir liggja eftir 0 punktinum. þ.e. það sem er merkt 0 á y-ásnum og ekki vera að færast upp eða niður grafinu. Ef rauðu punktarnir eru að fara neðar  og neðar á grafið þ.e. verða meira neikvæðari er stöðin að færast til suðurs. Eins ef  grafið merkt austur sýnir að punktarnir færast upp á grafinu er stöðin að færast til austurs. Eins ef þátturinn sem merktur er upp er að færast ofar á grafið er stöðin að lyftast. Heildar færsla stöðvarinnnar  eru svo samsetning af öllum þessum þrem gröfum.


Nánari upplýsingar um eldstöðvar á Reykjanesskaga má finna í Íslensku Eldfjallavefsjánni. 

Hér er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um virkni á Reykjanesskaga

Á heimasíðu Veðurstofunnar er spurt og svarað um virkni á Reykjanesskaga.  



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica