Fréttir
Askja eins og hún kom vísindamönnum fyrir sjónir í eftirlitsflugi með TF-SIF í gær. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt G. Ófeigsson)

Engin skýr merki um aukna virkni í Öskju

Ekkert kom vísindamönnum á óvart í eftirlitsflug í gær

17.2.2023

Jarðskjálftavirkni í Öskju hefur frá áramótum verið mjög keimlík þeirri virkni sem mældist árið 2022. Jarðskjálftavirkni jókst í ágúst 2021 samhliða landrisi sem líklega má rekja til kvikusöfnunar undir Öskju. Landris hefur haldist stöðugt síðan þá, en það dróg úr jarðskjálftavirkni á svæðinu í nóvember og desember sama ár og hefur hún haldist stöðug frá upphafi árs 2022. Tíðni skjálfta í Öskju er svipuð því sem kallað er bakgrunnsvirkni í eldstöðinni, en Askja er með virkari eldfjöllum með tilliti til jarðskjálftavirkni. Stærsti hluti jarðskjálfta hefur mælts við austurbrún Öskjuvatns undir virkum jarðhitasvæðum, en einnig hafa jarðskjálftahrinur átt sér stað utan öskjunnar líkt og í nóvember 2019 þegar öflug jarðskjálftahrina mældist tæpa 6 km austan við öskjubarminn. Landrisið, sem hófst í ágúst 2021, getur einnig mögulega komið af stað skjálftum eins og þeim sem mælst hafa við Herðubreið, þar sem landrisið veldur spennu í jarðskorpunni á svæðinu. Engu að síður eru skjálftar við Herðubreið einnig vel þekktir.

Skjalftavirkni_askja_fyrirogeftiragust21b

Grafið sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta sem mælst hafa M1,0 eða stærri frá ársbyrjun 2020 við Öskju. Svona gröf gefa oft góða mynd af þróun jarðskjálftavirkni og hvernig hún er samanborin við venjulega bakgrunnsvirkni svæðis. Hér má sjá að virknin jókst talsvert í ágúst 2021 en jafnaðist út og varð stöðug um áramótin 2021-2022. (Mynd úr jarðskjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)

Skjalftavirkni_askja_2023

Kort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta frá áramótum 2023. Stærsti hluti jarðskjálfta hefur mælts við austurbrún Öskjuvatns og eru undir þekktum virkum jarðhitasvæðum í Öskju. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri. (Mynd úr jarðskjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)

Vel fylgst með Öskju

„Askja er ein af þeim virku eldstöðum sem við höfum góðar gætur á allan sólarhringinn“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. „Þau mælitæki sem við höfum yfir að ráða eiga að gefa nokkuð skýr merki um hvort eldgos sé yfirvofandi og sagan segir okkur að sá aðdragandi mælist í dögum eða jafnvel vikum. Það sem er mikilvægt að horfa til þegar kemur að aukinni virkni eldstöðva er að oftast er um samspil nokkurra þátta að ræða s.s. eins og að saman fari aukin skjálftavirkni og breytingar á landrisi sem sæist á mælum sem komið hefur verið fyrir á svæðinu. Eins og staðan er í dag eru engin skýr merki um að virknin í Öskju sé að aukast og ekki ástæða til að grípa til einhverra ráðstafana umfram núverandi vöktun“, segir Sara.

Í janúar fór hópur sérfræðinga á vegum Veðurstofunnar í eftirlitsferð til að sinna þeim mælum sem notaðir eru til að vakta Öskju. Rekstur og viðhald á tækjum í Öskju er gríðarlega krefjandi, enda er Askja nánast á miðju hálendi Íslands og ekkert GSM samband inni í öskjunni. Í gær flaug svo hópur vísindamanna frá Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands með flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF yfir Öskju til að  kortleggja betur aðstæður á svæðinu og leita mögulegra skýringa á því hvers vegna vatnið er að verða íslaust. Búnaður vélarinnar var nýttur til að skanna Öskjuvatn og umhverfi þess. „Að undanskildu ísleysinu kom ekkert óvenjulegt í ljós við þessar athuganir“ segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum á Veðurstofu Íslands, sem var um borð í TF-SIF. „Engin merki um aukin jarðhita er að sjá í kringum vatnið, né voru sjáanlegar aðrar breytingar sem útskýra að ísinn er að hörfa“, segir Benedikt.

SIF_Askja1

Ragnar Heiðar Þrastarson og Guðrún Nína Petersen sérfræðingar á Veðurstofu Íslands fylgjast með hitamyndavél um borð í TF-SIF í gær ásamt starfsmanni Landhelgisgæslunnar. Hitamyndir sýndu að merki um jarðhita var einungis að finna á þekktum jarðhitasvæðum umhverfis öskjuna. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Esther Hlíðar Jensen)

Engar mælingar sem útskýra bráðnun íssins á Öskjuvatni

Hitamælum á vegum Háskólans var varpað í vatnið í eftirlitsfluginu í gær, en mælarnir verða sóttir seinna til að lesa af þeim. Ólíkt öðrum stöðuvötnum er að jafnaði vök á Öskjuvatni. Það þýðir að hvass vindur getur náð að grípa í vatnið og koma af stað lóðréttri blöndun í vatninu. Gerist það þá getur varminn í vatninu sjálfu nægt til að bræða ís. Síðastliðinn mánuð hefur verið nokkuð um sunnan hvassviðri, sem m.a. sjást á mælum í Upptyppingum. Þessum hvassviðrum hefur ekki endilega fylgt þýða í Öskju, en vindurinn kann að hafa komið vatninu í  yfirborði  Öskjuvatns á hreyfingu og þannig mögulega komið bráðnun af stað. Ekkert er þó hægt að útiloka um tengsl bráðnunarinnar og þeirra virkni sem nú mælist í eldstöðinni.

SIF_Askja2

Benedikt G. Ófeigsson og Ragnar Heiðar Þrastarsson að störfum um borði í TF-SIF í gær. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Esther Hlíðar Jensen)




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica