Fréttir
Gosið við Litla-Hrút í lok dags í gær, 10. júlí. Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Elísabet Pálmadóttir

Kaflaskil í eldvirkninni á Reykjanesskaga

Enn er eldgosavá á svæðinu við Litla-Hrút

10.8.2023

Uppfært 10. ágúst 2023
Veðurstofan hefur uppfært hættumatskortið fyrir gosstöðvarnar við Litla-Hrút. Það skal tekið skýrt fram að enn er hætta nærri gossvæðinu. Mikill hiti leynist í nýja hrauninu. Sums staðar er aðeins þunn skel yfir annars funheitu og óstorknuðu hrauni. Jaðrar nýja hraunsins eru óstöðugir og úr þeim geta fallið stóri hraunmolar. Gas sem sleppur úr hrauninu getur safnast í dældir. Í kjölfar umbrotanna leynast líka sprungur á svæðinu sem skapa hættu.
20230810_Haettukort-Litli-Hrutur-40x30-cm

Uppfært 8. ágúst 2023

Kaflaskil hafa orðið í eldvirkninni á Reykjanesskaga. Í lok síðustu viku mátti sjá að gígopið við Litla-Hrút minnkaði jafnt og þétt. Þetta gerðist samhliða minnkandi gosóróa sem mældist á nálægum jarðskjálftamælum en óróinn fór að dragast saman upp úr miðnætti aðfaranótt 4. ágúst.  Um miðjan dag, laugardaginn 5. ágúst, var órói á jarðskjálftastöðinni við Hraunsel-Vatnsfell “hrv” rétt við gosstöðvarnar kominn aftur í svipaða bakgrunnsvirkni og fyrir gos(sjá mynd hér að neðan).  Engin virkni hefur verið í gígnum síðan þá. Jarðskjálftavirknin á svæðinu heldur áfram en þó með mun minni ákafa líkt og var fyrir gos. Síðustu hitamerki sáust frá gervitunglamyndum um kvöldið 6. ágúst.

LH_Oroi_06082023

Enn eldgosavá á svæðinu við Litla-Hrút

Hafa ber í huga að of snemmt er að segja að gosinu sé lokið, en af þessu má ráða að nýr kafli sé að hefjast í eldgosavirkninni á Reykjanesskaga. Hvort að jarðskjálftavirknin taki sig upp aftur og það gjósi á ný á næstunni eða ekki verður tíminn að leiða í ljós.

Það skal tekið skýrt fram að enn er hætta nærri gossvæðinu. Afmörkun hættusvæðisins sem Veðurstofan gefur út verður enn í gildi og breytinga á því ekki að vænta fyrr en hættumat verður endurskoðað í lok vikunnar.

Í ljósi stöðunnar á eldgosinu við Litla-Hrút mun Veðurstofan hætta að gefa út spá um gasdreifingu en minnir á að enn getur verið gasmengun við gosstöðvarnar, þar sem gas frá nýju hrauni safnast fyrir í lægðum.




Uppfært 2. ágúst 2023

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birti á vefsíðu sinni í gær mældist meðalhraunrennsli milli 23.-31. júlí  um 5,0 m3/s. Talsvert hefur dregið úr hraunrennslinu frá því í fyrri mælingum milli 17.-18. júlí, þegar rennslið var tæplega 9 m3/s. Í ljósi þess að meðalrennslið á við um átta daga tímabil, má reikna með að það sé í dag aðeins um 3-4 m3/s, samkvæmt upplýsingum frá Jarðvísindastofnun. Hraunbreiðan úr gosinu við Litla-Hrút náði yfir um 1,5km2 lands 31. júlí og var rúmmál þess 15,9 milljón rúmmetrar.

2023_08_02_hraun31juli_dem_1_20000

Kort sem sýnir útbreiðslu hraunsins við Litla-Hrút eins og hún var mæld 31. júlí.

Frá 26. júlí til 2. ágúst hafa um 150 skjálftar mælst á gosumbrotasvæðinu og nágrenni þess. Þéttasta virknin er í og við Keili eða á norðurenda kvikugangsins. Stærsti skjálfti tímabilsins var í vesturhlíð Keilis sem var 2.1 af stærð. Fáir skjálftar mælast við gossvæðið en nokkuð er um skjálfta norðaustan við umbrotasvæðið, það eru svokallaðir gikkskjálftar sem verða vegna aflögunar af völdum kvikugangsins. GPS mælingar sýna fyrstu merki um hjöðnun frá upptakasvæði kviku á miklu dýpi. Nýjar InSAR myndir koma í næstu viku og þær munu gefa skýrari mynd af þróun aflögunar á svæðinu öllu og við virka gossvæðið.

Sérfræðingar Veðurstofunnar eru við gasmælingar í dag til að leggja mat á losun SO2 gass frá gosinu.

Mælingar gefa sterkar vísbendingar um að gosinu munu ljúka á næstunni, en hvort um sé að ræða daga frekar en vikur er erfitt að segja til um á þessu stigi.

KRIV-plate-90d_02082023_2

Gögn frá GPS mæli við Krísuvík sem sýna þróun aflögunar. Rauða línan táknar upphaf goss.


Uppfært 25. júlí 2023


Hér fyrir neðan er kort sem sýnir útbreiðslu hraunsins samkvæmt mælingum og úrvinnslu á vegum Jarðfræðistofnunar Háskólans, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands. Mælingarnar sýna að meðalhraunrennsli frá 18.-23. júlí var um 8,0 m3/s. Þegar gosið hefur í um tvær vikur er flatarmál nýja hraunsins orðið um 1,2km2 og rúmmál þess um 12,4 milljón rúmmetra. Nánar má lesa um mælingarnar á vef Jarðvísindastofnunar.

2023_07_25_hraun23juli_dem_1_20000_2

Veðurstofan hefur sett upp nýja vefmyndavél í samvinnu við Almannavarnir til að vakta mögulegt yfirflæði hrauns út úr Merardölum og áfram í suðurátt. Tvisvar hefur hraunið breytt um farveg frá gosopinu við Litla-Hrút sem hefur hægt á framgangi hraunsins til suðurs. Á þessu stigi er erfitt að meta hvort og þá hvenær hrauntungan nær út úr skarðinu í Meradölum.

Vefmyndavel_Merardalir

Sérfræðingar Veðurstofunnar settu upp vefmyndavélina í vesturhlíð Sandfells með útsýni í átt að Meradölum. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands. Hákon Halldórsson)



Uppfært 20. júlí 2023

Veðurstofan hefur uppfært hættumatskortið fyrir gosstöðvarnar við Litla-Hrút. Skjálftagögn hafa verið yfirfarin og ný líkön keyrð til að áætla enn betur legu kvikugangsins sem myndaðist í aðdraganda gossins. Í því ljósi hefur hættusvæðið þar sem ný gosop geta myndast verið stækkað í suðvestur. Kvikugangurinn nær nú frá Keili í norðri undir Merardalahnjúka í suðri.

20230720_Haettukort-Litli-Hrutur-40x30-cm

Smelltu á kortið til að sjá það stærra

Veðurstofan fundar á hverjum morgni með viðbragðsaðilum til að fara yfir virkni gossins. Á þeim fundum er einnig farið yfir hvaða hættur eru til staðar hverju sinni og  hvað getur haft áhrif á aðstæður við gossstöðvarnar. Það er áfram mjög mikilvægt að hafa í huga að næsta nágrenni gosstöðvanna er hættulegt svæði og geta aðstæður breyst hratt.

Helstu hættur í næsta nágrenni þeirra eru:

  • Viðvarandi gasmengun og hættan eykst þegar vind lægir. Hættulegar gastegundir geta safnast í dældum og jafnvel verið banvænar
  • Glóandi kvikan getur valdið gróðureldum á svæðinu sem draga verulega úr loftgæðum nálægt gosstöðvunum
  • Nýjar gossprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með litlum fyrirvara
  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum.

Allir sem heimsækja gosstöðvarnar þurfa að vera mjög vakandi fyrir þessum hættum, virða tilmæli viðbragðsaðila og halda sig utan skilgreinds hættusvæðis. Við mælum með að fólk skoði spár um gasmengun og hver loftgæðin eru hverju sinni áður en haldið er að gosstöðvunum.

Hraunrennsli svipar til gosanna 2021 og 2022

Hraunrennsli hefur einskorðast við eitt gosop síðustu daga. Hraun rennur áfram í suður, en úr vestari hluta gosopsins eftir að hluti af gígbarminum brast aðfaranótt 19. Júlí. Á myndskeiðum úr vefmyndavélum sást vel hvernig hraun ruddist skyndilega úr gígnum á miklum hraða þegar barmurinn brast. Þarna var gott dæmi um hættu sem getur skapast við gosstöðvarnar. Áður sást aukning í óróa á mælum Veðurstofunnar á um 5 klst tímabili sem féll svo skyndilega þegar barmurinn brast.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birti á vefsíðu sinni í gær mældist meðalhraunrennsli sólarhringinn milli 17.-18. júlí  upp á 8,7 m3/s en óvissa í þeirri tölu er mikil um 5 m3/s. Ástæðan fyrir hárri óvissu er að tímabilið er tiltölulega stutt þannig að rúmmálsbreytingin er ekki mjög stór miðað við óvissu í rúmmáli fyrir og eftir. Hraunrennslið svipar mjög til gosanna 2021 og 2022. Hraunbreiðan úr gosinu við Litla-Hrút náði yfir um 0,92km2 lands 18. júlí.

2023_07_20_hraun18juli_dem_1_20000

Smelltu á myndina til að sjá hana stærri

Með aðstoð vefmyndavéla er hægt að áætla að hæð gosmakkarins sé á bilinu 1 – 2 km. Gasstreymi (SO2) mælist svipað og í eldgosunum 2021 og 2022, eða um 30-130kg/s samkvæmt gasmælitækjum (DOAS mælingar). Tekist hefur að draga verulega úr mengun vegna gróðurelda með slökkvistarfi.

 


Uppfært 14. júlí 2023 kl: 14:50

Nýtt gasmælitæki var sett upp við gosstöðvarnar í gærkvöldi, 13. júlí. Benedikt Gunnar Ófeigsson og Bergur H. Bergsson sérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands settu upp í gærkvöldi og nótt DOAS gasmæli sem mælir magn brennisteinsdíóxíðs (SO2) sem kemur upp úr gosinu við Litla Hrút. Mælingarnar gefa upplýsingar sem notaðar eru til að meta magn brennisteinsdíóxíðs sem losnar út í andrúmsloftið. Þessar upplýsingar eru svo nýttar í gasdreifingarspár. Magn brennisteinsdíóxíðs sem kemur úr gosinun skapast einnig með kvikuflæði og getur hjálpað til við að meta stærð goss á hverjum tíma.

Benni-Ofeigs-gasmaeli-stod-nr-2

DOAS gasmælir. Ljósmynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson/Veðurstofa Íslands.

Á vef Veðurstofunnar eru ítarlegar upplýsingar um gaslosun sem er einn helsti drifkraftur kviku í eldgosum.
Melissa-maela-14-juli
Hér sést gasmælir við Litla Hrút sem mælir gasmengun við yfirborð og er nýtt meðal annars til að stýra umfærð um svæðið og gefa út viðvaranir um gasmengun nærri gosstöðvunum. Ljósmynd: Hákon Halldórsson/Veðurstofa Íslands.

Uppfært 13. júlí 2023 kl. 14:30

Bylgjuvíxlmynd (COSMO-SkyMed gervihnötturinn) sem nær yfir tímabilið frá 27. júni til 12. júlí sýnir aflögun sem átti sér stað í aðdraganda gossins og fyrstu tvo dagana eftir að eldgos hófst.

Myndin sýnir mjög greinilega færslu þvert út frá kvikuganginum sem liggur frá Fagradalsfjalli og að Keili. Hver litaður jaðarhringur  gefur til kynna yfirborðsbreytingar upp á 1.55 sm í sjónlínu gervihnattarins.  Færslurnar nema alls um 50 sm bæði í norðvestur og suðaustur (samanlagt 1 metri) sem stafa af flæði inn í kvikuganginn. Samanburður á GPS mælingum í aðdraganda gossins til dagsins í dag benda til þess að dregið hafi verulega úr aflögun og að komið sé jafnvægi milli flæðis kviku inn í ganginn og upp á yfirborð. Samtímis hefur verulega dregið úr jarðskjálftavirkni sem styður þessa túlkun.

Csk_desc_12jul_icelandic

Bylgjuvíxlmynd (COSMO-SkyMed gervihnötturinn) sem nær yfir tímabilið frá 27. júni til 12. júlí og sýnir aflögun sem átti sér stað í aðdraganda gossins og fyrstu tvo dagana eftir að kvika kom upp á yfirborðið. Hver litaður jaðarhringur  gefur til kynna yfirborðsbreytingar upp á 1.55 sm í sjónlínu gervihnattarins. Fjarlægðarbreytingin tengist bæði landrisi og láréttum færslum jarðskorpunnar. Örvar á myndinni sýna flugstefnu og sjónarhorn gervitungslins. (Gögn frá ASI COSMO-SkyMed).



Uppfært 12. júlí 2023 kl 18:00

Eftir að gos hófst hefur aflögun sem mældist samfara kvikuinnskotinu minnkað verulega. Þetta má lesa úr GPS gögnum sem benda til þess að komið sé jafnvægi á þrýsting í kvikuganginum undir gossprungunni. Það þýðir að jafnvægi sé smám saman að komast á milli magns kviku sem streymir af dýpi inn í kvikuganginn og magns kviku sem flæðir frá eldgosinu upp á yfirborðið. Þetta jafnvægi í kvikuflæði þýðir minni skjálftavirkni þar sem þrýstingur innskotsins á jarðskorpuna hefur minnkað.

Frá því á miðnætti hafa um 260 skjálftar mælst á Reykjanesskaga. Allir skjálftar nema þrír hafa verið undir 2.0 að stærð, stærsti skjálftinn var 2.9 að stærð vestur af Bláa Lóninu.

Út frá mælingum á gasi úr gosmekkinum má sjá að gildin eru mjög svipuð og þau voru í eldgosinu í ágúst 2022. Þetta gefur til kynna að framleiðni kviku í eldgosinu er mjög svipuð og hún var í fyrra. Mælingar á gosóróa hafa lítið breyst frá því í gær og virðist sem gosið sé í jafnvægi. Gosið hefur einangrað sig á afmarkað svæði á gossprungunni þar sem virðast vera 6 virk gosop. Hraunið rennur í suðurátt og safnast fyrir í lægð undir Kistufelli.

Útlit fyrir að gasmengun berist til suðurs

Veðurstofan fylgist grannt með þróun gasmengunar frá eldgosinu í Geldingadal. Norðlægar áttir eru ríkjandi næstu daga og útlit fyrir að gasmengun berist til suðurs. Á vef Veðurstofunnar er að finna kort sem sýna þau svæði sem geta orðið útsett fyrir gasmengun


Fylgst er með gasmælum allan sólahringinn og almannavarnir látin vita ef gildi fara upp fyrir hættumörk. Á þeim stöðum þar sem ekki eru gasmælar, er fólk hvatt til að fylgja leiðbeiningum Umhverfisstofnunar varðandi viðbrögð við gasmengun ef hennar verður vart.

Það er mikilvægt fyrir spálíkön um gasdreifingu að hafa sem nákvæmastar upplýsingar um magn brennisteinsdíoxíðs (SO2) við upptök eldgoss. Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands fór að upptökum gossins í gær, þriðjudag og mældi magn brennisteinsdíoxíðs með fjarkönnunarbúnaði svokölluðum DOAS (Differential Optical Absorption Spectroscopy).

Melissa-12-july-ad-maelingar

Hér sést Melissa Anne Pfeffer mæla efnasamsetningu gasmökksins.

Magn brennisteinsdíoxíðs reyndist vera í samræmi við núverandi gildi sem eru notuð við líkanareikning, um 66 - 80 kg/s. Til þess að reikna spálíkön fyrir gasdreifingu þarf einnig að vita hæð gosmakkarins, staðsetningu gossprungunnar og veðurskilyrði á svæðinu. Hæð gosmakkarins er mæld með kvarðaðri vefmyndavél og mældist 1.7km á hæð fyrr í dag. Þetta er aðferð sem er þróuð af Talfan Barnie á Veðurstofunni og má sjá dæmi hér að neðan.

Natturuvarvakt-skjaskot-12-juli
Líkanreikningar eru keyrðir tvisvar á sólarhing þegar nýjasta veðurspá er aðgengileg og niðurstöðurnar birtar á vef Veðurstofunnar

Uppfært 11. júlí 2023 kl. 17:15
Alls hafa um 300 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá því gosið við Litla-Hrút hófst í gær. Lang flestir skjálftanna hafa verið undir 2,0 að stærð en tveir hafa mælst stærri, þeir voru 2,0 og 2,1 að stærð. Á þessari mynd hér að neðan sést þróun gosóróans síðustu þrjá daga. Áður en gosið hófst eru skjálftar mest áberandi á grafinu. Óróinn sést svo rísa hratt upp úr kl. 15 í gær, 10. júlí, og náði hámarki um 21. Óróagrafið sýnir óróa á þremur mismunandi tíðnum og sést greinilega að gosóróinn er mestur á hæstu tíðninni, 2-4 Hz. Nú þegar eldgos er hafið má reikna með að áfram dragi úr skjálftavirkninni á svæðinu.
Oroi-11072023

Uppfært 11. júlí 2023 kl 16:15

Hættumatskort hefur verið uppfært fyrir gossvæðið sem skilgreinir hættusvæði eins og það lítur út í dag. Appelísnuguli liturinn sýnir skilgreint hættusvæði. Í kringum eldgos og gosstöðvarnar geta leynst ýmsar hættur. Gróðureldar geta kviknað sem draga verulega úr loftgæðum og nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara. Einnig getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum og nýjar hrauntungur geta skyndlega brotist fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða. Gasmengun er viðvarandi og hættan eykst þegar vind lægir. Gas getur safnast í dældir og verið banvænt. Varað er við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar.

Haettumatskort-11-juli-

Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

Uppfært 11. júlí 2023 kl: 13:00
  • Hraun flæðir úr nokkrum gosopum á gossprungu sem opnaðist í gær við Litla-Hrút á Reykjanesskaga

  • Gosið er staðsett í fjalllendi fjarri byggð og innviðum og byggðarlögum stafar engin hætta að svo stöddu

  • Talsvert hefur dregið úr virkni eldgossins á fyrsta sólarhringnum frá upphafi þess

  • Gosið myndar ekki ösku en við gosstöðvarnar rennur hraun og gas streymir úr gígum og hrauni

  • Dregið hefur úr gasmengun á svæðinu en mikilvægt er að fólk dvelji ekki við gosstöðvarnar en fari eftir tilmælum almannavarna og viðbragðsaðila. Spá um áhrifasvæði gasmengunar er hér neðst í fréttinni. Textaspá birtist fá finna hér.

  • Glóandi kvikan getur valdið gróðureldum á svæðinu sem draga verulega úr loftgæðum nálægt gosstöðvunum.

  • Bylgjuvíxlmynd (ICEYE) sem spannar frá 9. til 10. júlí sýna að kvikugangurinn hefur lengst um 1km í norðaustur frá því sunnudaginn 8. júlí og nær undir Keili.

  • Aflögun mælist yfir kvikuganginum og því ekki hægt að útiloka að ný gosop myndist þar með litlum fyrirvara. Mestar líkur eru þó á nýjum gosopum, ef þau opnast, á svæðinu við Litla-Hrút.

Samkvæmt nýjustu mælingum sem teknar hafa verið saman fyrir hádegi í dag hefur talsvert dregið úr virkni eldgossins við Litla-Hrút frá því við upphaf goss í gær. Samkvæmt mælingum náði gosórói hámarki um kl. 21 í gærkvöld, rúmum fjórum klukkustundum eftir að kvika kom upp á yfirborðið og hefur dregið úr krafti gossins og hraunflæði síðan þá. Nú flæðir hraun úr nokkrum gosopum á upphaflegu sprungunni sem opnaðist norðaustur af Litla-Hrút. Um er því að ræða sprungugos sem hagar sér ekki ósvipað fyrri gosum á sömu slóðum.

Þrátt fyrir að um tiltölulega lítið gos sé að ræða sýna jarðskjálftamælar næst gosstöðvunum en talsverða virkni. Nýjustu gögn staðfesta að fyrri upplýsingar um legu kvikugangsins sem liggur frá Fagradaslfjalli austur við hlíðar Litla-Hrúts og áfram í norðaustur í átt að Keili. Bylgjuvíxlmynd (ICEYE) sem spannar frá 9. til 10. júlí sýna að kvikugangurinn hefur lengst um 1km í norðaustur frá því sunnudaginn 8. júlí og nær undir Keili.  Aflögun mælist yfir kvikuganginum og því ekki hægt að útiloka að ný gosop myndist þar með litlum fyrirvara.

Hraunflæði hefur frá upphafi verið til suðurs meðfram Litla-Hrút og rennur hraunið í litla lægð sunnan hans. Mun hún fyllast brátt haldi hraunflæði áfram og halda til suðurs. Hraun getur einnig runnið til suðausturs frá gígum og austan hryggjar við lægðina. Haldi hraunflæði áfram mun suðlægt rennsli vera líklegast, og á endanum ná hrauninu við Merardali sem rann 2022.

Það er mikilvægt að hafa í huga að næsta nágrenni gosstöðvanna er hættulegt svæði og geta aðstæður breyst hratt. Fólk er varað við að dvelja nálægt gosstöðvunum. Helstu hættur í næsta nágrenni þeirra eru:

  • Viðvarandi gasmengun og hættan eykst þegar vind lægir. Hættulegar gastegundir geta safnast í dældum og jafnvel verið banvænar

  • Glóandi kvikan getur valdið gróðureldum á svæðinu sem draga verulega úr loftgæðum nálægt gosstöðvunum

  • Nýjar gossprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með litlum fyrirvara

  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu: Gasdreifing-Spa-11072023_1300
Smellið á myndina til að sjá hana stærri.


Uppfært 10. júlí 2023 kl: 17:00

Um kl. 16:40 hófst eldgos við Litla Hrút. Talið er að sprungan sé um 200 metra löng og má sjá kvikustróka stíga þar upp úr og hraun flæða úr þremur stuttum sprungum við austur- og norðausturhlíðar Litla Hrúts sem stefna í norðaustur. Eldgosið kemur upp í lítilli dæld við fellið og flæðir hraun í dældina og rýkur úr því til norðvesturs. Starfsfólk Veðurstofunnar eru á svæðinu við mælingar. Gasmengun fer líklega yfir Reykjanesbæ, Voga, Vatnsleysu og höfuðborgarsvæðið en það er suðlæg átt, 3-8 m/s yfir gossvæðinu í kvöld og nótt. 

Gosið er staðsett fjarri byggð og byggðarlögum og innviðum stafar engin hætta í augnablikinu. Þróun eldgossins er óljós sem og hraunflæðis og gasútstreymis af völdum þess. Almenningi er ráðlagt að fara ekki á gosstöðvarnar af þeim sökum, sér í lagi þar sem hættulegar gastegundir í umtalsverðum styrk munu safnast fyrir nær yfirborði við gosstöðbvarnar, sér í lagi í rólegu vindafari.

Aðdragandi gossins er sá að Veðurstofa Íslands varð vör við óróa á skjálftastöð við Fagradalsfjall á laugardagsmorgun, og aftur á sunnudagskvöld rétt fyrir 5,2 gikkskjálftann við Driffell kl. 22:23. Aftur varð vart við óróa kl. 14 í dag 10. júlí 2023 og sá var borinn saman við óróa á sömu stöð í upphafi eldgosannna árið 2021 og 2022. Gosóróinn jókst síðan skyndilega kl. 16:30 og gosið hófst nokkrum mínútum seinna.

Eldgos-benni-10.-juli-nytt


Uppfært 9. júlí 2023 kl: 18:30

Í dag eru fimm dagar frá upphafi skjálftahrinunnar á Reykjanesi vegna kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis, rétt norðan við staðsetningu kvikuinnskotsins sem varð í júlí-ágúst 2022 þegar gaus fimm dögum eftir upphaf þeirrar hrinu.

Skjálftavirkni er tiltölulega lítil miðað við upphaf hrinunnar þar sem gangurinn liggur. Í gærkvöld 8. júlí urðu gikkskjálftar í Kleifarvatni og var stærsti skjálftinn 4,6 að stærð. Nokkuð var um grjóthrun í grennd við Kleifarvatn og Trölladyngju í kjölfar hans. Grjót féll meðal annars á Krísuvíkurveg og Djúpavatnsleið.

Enn hægist á aflögun á svæðinu skv. GPS mælingum. Nýjustu gögn byggð á gervihnattamyndum frá ICEYE SAR dagana 7-8. júlí sýna enn betur aflögun á svæðinu ofan kvikuinnskotsins. Sér í lagi sýna þær umtalsverða og nýja aflögun á yfirborði sem liggur í norðaustur-suðvestur stefnu rétt suðvestan Keilis. Það gæti verið vísbending um hreyfingu á siggengjum vegna gliðnunar sem kvikuinnskotið veldur.

Líkanreikningar sem byggðir eru á þessum gögnum sýna að kvikan liggur enn grynnra en áður, u.þ.b. hálfan kílómetra undir yfirborði. Útreikningarnir sýna að þann 8. júlí var gangurinn ekki að brjóta sér leið til norðaustur eða suðvesturs heldur er, eins og áður var búið að sjást, u.þ.b. 3 km langur og liggur á svæðinu á milli Litla Hrúts og Litla Keilis. Útreikningarnir gefa til kynna að enn streymi kvika í ganginn að neðan.

Þessar mælingar og niðurstöður benda til þess að gangurinn færist nær yfirborði og líklegasta sviðsmyndin sé eldgos á næstu tímum eða dögum.

9-juli-

Hér á myndinni sést staðsetning og umfang aflögunar á yfirborði (blá lína) út frá ICEYE bylgjuvíxlmyndum teknum 7.-8. júlí og staðsetning og umfang tölvulíkans af kvikuinnskotinu (rauð lína) sem veldur aflöguninni. Gosopin 2021 og 2022 eru sýnd sem rauðar stjörnur. Hæðarlíkan IslandsDEM og vegir frá Landmælingum Íslands (staðsetning yfirborðssprungu og innskotslíkans ákvörðuð af Michelle M. Parks og Vincent Droin, Veðurstofu Íslands. Mynd: Ásta Rut Hjartardóttir, Háskóla Íslands).


Uppfært 7. júlí 2023 kl 16:15
Rétt fyrir miðnætti 6. júlí hófst jarðskjálftahrina við Eldey á Reykjanesskaga. Um kl 15 þann 7. júlí hafa yfir 480 skjálftar mælst í hrinunni. Þar af hafa 38 verið yfirfarnir. Um 10 skjálftar yfir M3 og sex yfir M4 hafa mælst þar, sá stærsti 4,5 að stærð, í dag kl. 05:06. Skjálftahrinur á þessu svæði verða reglulega en virknin núna er óvenju mikil. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að færa fluglitakóða fyrir Eldey á gulan.

Fluglitakodi-betri-gaedi

Uppfært 7. júlí 2023 kl 13:30

Frá því að hrinan hófst, 4. júlí, hafa um 7000 jarðskjálftar mælst á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Rúmlega 300 skjálftar hafa verið yfirfarnir. Hrinan er vegna nýs kvikuinnskots á svæðinu, nánar tiltekið á milli Fagradalsfjalls og Keilis og er miðja gangsins talin vera á milli Litla Hrúts og Litla Keilis. Alls hafa 17 skjálftar yfir 4 að stærð mælst og yfir 50 yfir 3 að stærð. Stærsti skjálftinn varð að morgni 5 júlí kl. 8:21 og mældist 4,8 að stærð. Stærstu skjálftarnir finnast víða á SV-landi, austur að Hellu og norður á Snæfellsnes. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni en dregið hefur lítillega úr henni við innskotið eftir því sem liðið hefur á hrinuna. Þó hefur skjálftavirkni á svæðinu á milli Keilis og Kleifarvatns haldið áfram og er þar um gikkskjálfta að ræða.

Þrátt fyrir minnkandi skjálftavirkni bendir aflögun sem mæld er með GPS og InSAR eindregið til þess að kvika sé að færast nær yfirborði. Bylgjuvíxlmynd (InSAR) sem byggir á radar gervitunglagögnum sem sýnir aflögun á milli 28. júní og 6. júlí staðfesta niðurstöður úr GPS- og skjálftamælakerfi Veðurstofunnar varðandi kvikuinnskotið. Líkanreikningar sem byggja á bylgjuvíxlmyndinni og GPS gögnum benda til að efra borð kvikuinnskotsins hafi náð upp á 1 km dýpi fyrri hluta gærdagsins (6. júlí). Gliðnun er eftir um 2.8 km línu á milli Fagradalsfjalls og Keilis með miðju rétt norðan við litla Hrút sem er í mjög góðu samræmi við það sem skjálftavirkni hefur sýnt. Þeir sýna einnig að innflæði kviku er næstum tvöfalt hraðar en í aðdraganda gossins í ágúst 2022, en heildarrúmmál kviku sem komið hefur upp í efri hluta skorpunnar er svipað eða um 12 milljón rúmmetrar. GPS mælingar síðan þá benda til að kvika sé enn að færast nær yfirborði.

Á sama tíma hafa yfir 400 skjálftar mælst á Reykjaneshrygg, nær Eldey. Þar af hafa 35 verið yfirfarnir. Um 10 skjálftar yfir M3 og sex yfir M4 hafa mælst þar, sá stærsti 4,5 að stærð, í dag kl. 05:06. Skjálftahrinur á þessu svæði verða reglulega en virknin núna er óvenju mikil. Mikil virkni núna úti fyrir Reykjanestá er gæti verið triggeruð af innskotavirkni við Fagradalsfjall en ekki er útilokað að það eigi sér aðrar orsakir. Aflögunargögn benda þó ekki til að virknin þar sé vegna kvikuhreyfinga en það er þó ekki útilokað.

7-juli-betri-gaedi

Jarðskjálftavirkni (stærri en 2) á Reykjanesi frá hádegi 6. júlí til hádegis 7. júlí 2023. Táknin sýna staðsetningar GPS og skjálftastöðva Veðurstofunnar og útlínur hraunsins í Merardölum 2021 og 2022 er einnig sýnt til viðmiðunar.

Uppfært 6. júlí 2023 kl 18:00

Bylgjuvíxlmynd (COSMO-SkyMed) sem spannar 28. júní til 6. júlí 2023 sýnir vel aflögun vegna kvikuinnskotsins við Fagradalsfjall. Endurtekið litamynstrið gefur til kynna hversu mikil færsla mælist í stefnu að gervitunglinu (Line of sight). Tvö hringlaga merki frá norðvestri til suðausturs sýna vel aflögun vegna kvikuinskotsins sem hófst 4. júlí og er um miðja vegu mill Fagradalsfjalls og Keilis. Mesta aflögun sem mælist vegna innskotsins eru allt að 18 cm norðvestan við innskotið.

Þó aflögunarmerkið sjáist víða um vestanvert Reykjanesið er kvikuinnskotið afmarkað við lítið svæði milli Fagradalsfjalls og Keilis. Myndin sýnir engin merki um kvikuhreyfingar annars staðar.

Á nokkrum stöðum er eins og línur skeri í gegn um bylgjuvíxlmyndina. þessar línu eru færslur vegna stærri sjálfta sem sem hafa "triggerast" vegna spennubreytinga sem innskotið veldur.


Uppfært 6. júlí 2023 kl: 12:30

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga heldur áfram, en yfir 1300 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í dag, 6. júlí. Frá upphafi hrinunnar þann 4. júlí hefur heildarfjöldi skjálfta mælst yfir 4700. Frá miðnætti í dag hafa rúmlega sex skjálftar mælst yfir 3,5 að stærð, en stærstu skjálftarnir finnast vel á suðvesturhorninu. Á heildina litið hefur ákefð hrinunnar minnkað lítillega, bæði hvað fjölda skjálfta og stærð.

Staðsetning jarðskjálftanna dreifist á norðaustur-suðvesturlínu milli Fagradalsfjalls og Keilis, að mestu leyti rétt norðan við fjallið Litla Hrút. Nýjustu jarðskorpumælingar (GPS) sýna verulegar hreyfingar sem benda til kvikuhreyfinga á svæðinu þar sem jarðskjálftarnir mælast. Líkleg skýring er kvikuinnskot í norðaustur-suðvesturátt á 2 til 4 km dýpi. Innskotið er nógu nálægt yfirborði til að eldgos geti orðið án frekari stigmögnunar í skjálftavirkni eða aflögunarmælingum.

Miðað við núverandi mat eru tvær sviðsmyndir líklegastar. Jarðskjálftahrinan gæti minnkað jafnt og þétt án þess að kvika berist upp á yfirborðið. Að öðrum kosti gæti kvikan haldið áfram í átt að yfirborðinu, sem myndi leiða til eldgoss á þeim stað sem skjálftahrinan er nú. Ekki er hægt að útiloka að kvika berist upp á yfirborðið hvar sem er á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Af þessu tvennu virðist líklegra að eldgos verði innan daga eða vikna.

Á meðan á jarðskjálftahrinunni stendur er mesta hættan vegna jarðskjálftavirkni og þeim yfirborðshreyfingum sem stærri skjálftar í hrinunni valda fjarri meginvirkninni, ásamt gikkskjálftum á öðrum sprungum á Reykjanesskaga. Stærstu skjálftarnir geta valdið staðbundnu grjóthruni og því er fólki ráðlagt að ganga ekki nálægt klettabjörgum eða bröttum hlíðum á svæðinu í kringum Keili, Fagradalsfjall og Kleifarvatn.


Mynd-6-july

Seinni-myndin

Myndirnar sýna færslur á GPS stöðvunum FAFC (Fagradalsfjall) og KRIV (Krísuvík). FAFC er staðsett rétt sunnan við virkina og KRIV sem er um 8 km suð-austan við megin virknina. Bláu línurnar sýna upphaf á innskotarhirnanna en rauðar línur sýna upphaf goss. Síðan sýðasti punktur sýnir > 30 mm færslu til suðaustur sem endurspeglar kviku að toðast inn í efri hluta jarðskorpunnar. FAFC sem er rétt sunnan við virkina sýnir blöndu af sigmerki og þennslu. Færslunum svipar til aðdragand gossins í ágúst 2022, nema norðurþátturinn á FAFC fer til norðus en ekki suðurs eins og síðast, sem endurspeglar að kvikan er norðan við stöðina, en var sunnan við hana 2022.


Uppfært 5. júlí 2023 kl: 14:50

Jarðskjálftahrinan sem hófst í gær (4. júlí 2023) liggur á milli Fagradalsfjalls og Keilis í norðaustur-suðvestur stefnu. Hún hófst á þekktu uppstreymissvæði kviku undir Fagradalsfjalli (nálægt þar sem innskot hófst í júlí 2022) með upptök á um 8 km dýpi sem grynntust upp í um 4 km á um fimm stundum eftir upphaf hrinunnar. Í morgun hafa skjálftar mælst á um 2-3 km dýpi. Skjálftastærð hefur vaxið eftir því sem liðið hefur á hrinuna og hafa sjö skjálftar stærri en 4 orðið í morgun.

Virknin er áþekk fyrri skjálftahrinum sem urðu á svæðinu í febrúar-mars og desember 2021 og í júlí-ágúst 2022. Þær hrinur urðu vegna kvikuinnskots á sömu línu. Tvær hrinanna enduðu með eldgosi (í mars 2021 og ágúst 2022).

Hrinan nú er talin vera vegna nýs kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Nánar tiltekið svipar yfirstandandandi hrinu til þeirrar sem hófst 30. júlí 2022 þegar innskot varð á sama svæði og endaði með eldgosi fjórum dögum síðar, þann 3. ágúst 2022.

Talið er líklegt að þessi aukna virkni geti verið undanfari eldgoss á næstu stundum eða dögum. Þó getur virknin hætt án þess að til eldgoss komi, en m.t.t. líkinda yfirstandandi hrinu og hrinunni í júlí og ágúst 2022 eru taldar vera auknar líkur á eldgosi.

Aflögun tengd innskotinu og jarðskjálftavirkninni er talin geta komið af stað gikkskjálftum á öðrum sprungum á Reykjanesskaga

Fagradalsfjall-20juli2002-2023

Hér á myndinni sjást upptök jarðskjálfta (hringir) við Fagradalsfjall frá 30. júlí 2022 til 5. júlí 2023. Rauðir hringir tilheyra yfirstandandi jarðskjálftahrinu og bláir hringir hrinunni sem átti sér stað í júlí-ágúst 2022. Appelsínugula strikið sýnir lóðrétt ofanvarp gangainnskotsins sem varð 2022. Kortið sýnir yfirfarna jarðskjálfta og stærðir fyrir skjálfta stærri en 1 og eru stærðir hringanna í hlutfalli við stærð skjálftanna.


Uppfært 5. júlí 2023 kl: 13:50

Í gær, 4. júlí hófst jarðskjálftahrina í Fagradalsfjalli, alls hafa um 2200 skjálftar mælst og finnast stærstu skjálftarnir á Suðvesturhornið. Um 130 jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni í dag. Sjö skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst, sá stærsti 4,8 að stærð kl. 08:21. Skjálftarnir raðast milli Fagradalsfjall og Keilis.

Aðgát skal höfð við brattar hlíðar þar sem grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta. Íbúar í grennd við svæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum. 

Yfirfarnir--002-

Hér má sjá yfirfarna skjálfta en hægt er að skoða skjálftana hér.

Uppfært 5. júlí 2023 kl: 11:50

Vegna jarðskjálftahrinu sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga er aukin hætta á grjóthruni. Nú þegar hafa sjö skjálftar mælst yfir 4 stigum og 1800 skjálftar frá því í gær. Í jarðskjálftum sem þessum getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður fallið. Enn hafa ekki borist tilkynningar um nýlegt grjóthrun á svæðinu en fólk er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.

Uppfært 5. júlí 2023 kl: 09:00

Jarðskjálftavirkni hélt áfram í nótt. Yfir 1700 skjálftar hafa mælst síðan í gær, flestir eftir miðnætti. Fjórir skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst, sá stærsti 4,6 að stærð kl. 08:21 í morgun.

Reykjanesskagi

Sett inn 4. júlí 2023. 

Í byrjun apríl fór að mælast landris við Fagradalsfjall og hefur rishraðinn verið u.þ.b. 1 cm/mán þar sem það er mest. Landrisið sést víða á vestanverðum Reykjanesskaganum og gæti bent til innflæðis kviku undir fjallinu. Líkanreikningar benda til þess að mögulegt innflæði sé á um 15 km dýpi. Til viðbótar við þensluna við Fagradalsfjall sést afmarkaðra merki um sig við Reykjanestá. Þar hefur verið viðvarandi sig vegna jarðhitavinnslu en undanfarið hefur hert á því. Ekki er ljóst hvað veldur siginu en ekki er útilokað að það tengist annarri virkni á Reykjanesskaga. Einnig er viðvarandi sig við Svartsengi svipað og mældist árin 2020 og 2022.  Jafnframt mælist afmarkað sig við Fagradalsfjall sem er mjög sambærilegt og mældist í tengslum við innskotið 2021. 

FAFC_detrend

Mynd sýnir GPS tímaröð frá stöðinni FAFC sem staðsett er nálægt miðju riskúrfunnar. Á lóðrétta þættinum sést vel að landris hefst í byrjun apríl og hefur risið um 3 cm. Rauðu línurnar sýn upphaf eldgoss og bláu sýna innskot.

Viðvarandi skjálftavirkni hefur verið á vestanverðum Reykjanesskaganum. Í júní mældust þar yfir 1000 jarðskjálftar. Virknin afmarkast helst við vestasta hluta Reykjaness, Svartsengi, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. Flestir skjálftarnir eru staðsettir við Reykjanestá, norðaustan við Fagradalsfjall eða suðvestan Kleifarvatns. Frá áramótum hefur djúp skjálftavirkni (> 8 km) við Fagradalsfjall aukist samanborið við síðari hluta 2022.

Nýlegar gas- og hitamælingar sýna að hraunbreiðan sem rann í Merardölum í ágúst 2022 er enn að afgasast og hitastig mælist yfir 219 °C á sumum stöðum í hrauninu.



Nánari upplýsingar um eldstöðvar á Reykjanesskaga má finna í Íslensku Eldfjallavefsjánni.

Hér er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um virkni á Reykjanesskaga.

Á heimasíðu Veðurstofunnar er spurt og svarað um virkni á Reykjanesskaga. 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica