Fréttir

Enn tækifæri til þess að bregðast við hlýnun jarðar og skapa byggilega framtíð fyrir alla

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna segir lausnirnar felast í skilyrðislausum samdrætti, auknu fjármagni, nýrri tækni, alþjóðlegu samstarfi og samþættingu aðlögunar og mótvægisaðgerða.

20.3.2023

Í dag gaf Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) út samantektarskýrslu um loftslagsbreytingar, Climate Change 2023: Synthesis Report (SYR). Skýrslan markar endalok sjötta matshrings (AR6) nefndarinnar og byggir á ályktunum allra vinnuhópa sem að honum hafa komið. Í skýrslunni eru niðurstöður fyrri skýrsla matshringsins samþættar og ljósi varpað á stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og afleiðingum.   

Skýrslan er gefin út í kjölfar samþykktarþings sem fór fram í Interlaken í Sviss þann 13.-17. mars síðastliðinn. Á þinginu fór fram yfirferð á rýni stjórnvalda og sérfræðinga og eru niðurstöðurnar samþykktar af öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.  

Í skýrslunni kemur fram að athafnir mannsins, þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis, hafa leitt til hlýnunar loftslags um 1,1 gráðu frá iðnbyltingu. Allar líkur eru á því að farið verði fram úr markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5 gráðu hlýnun innan áratugs.   

Fram kemur að loftslagsbreytingar hafa alvarlegar afleiðingar fyrir náttúru og íbúa um allan heim. Þær leiða til hnignunar heilsu, vatnsbúskapar og þeirrar náttúru sem mannkynið byggir lífsviðurværi sitt á. Staðan er sú að þeir íbúar jarðar sem hafa orðið hvað verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga eru þeir sem minnst framlag hafa átt til hlýnunar jarðar.   

Mynd 1 setur líftíma þriggja kynslóða sem tákna mannkynið í samhengi við loftslagsbreytingar, bæði orðnar breytingar (1900-2020) og mismunandi framtíðarsviðsmyndir (2021-2100) byggðar á framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda.

Fig-spm1-fgd-part-c-fyrir-FB--003-

Mynd 1: Hér er líftími þriggja kynslóða sem tákna mannkynið (sem fæðast 1950, 1980 og 2020, tilgreint í sömu röð) settur í samhengi við breytingar á loftslagstengdum þáttum og áhrifum orðinna breytinga (1900-2020) og fimm framtíðarsviðsmyndir (2021-2100) á hnattrænum hitabreytingum (miðað við samanburðartímabilið 1850-1900). Þær fimm framtíðarsviðsmyndir af hnattrænum hitabreytingum sem eru sýndar, eru byggðar á mismikilli framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda: mjög lág (SSP1-1.9), lág (SSP11-2.6), miðlungs (SSP2-4,5), há (SSP3-7) og mjög há (SSP5-8.5). Munur á milli sviðsmynda er tilgreindur með lóðréttum línum með kynslóðatáknum. (Sjá fyrirvara á þýðingu fyrir myndtexta neðst á þessari síðu).  

Í skýrslunni kemur fram að enn sé tækifæri til þess að tryggja sjálfbæra og byggilega framtíð fyrir alla íbúa jarðar. Til þess þurfi þó skjótan og skilyrðislausan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, aukna áherslu á aðlögunaraðgerðir, sanngjarnar lausnir og aukið fjármagn. Auk þess skipti notkun nýrrar tækni höfuðmáli sem og alþjóðlegt samstarf.

Einnig er ríkari áhersla lögð á samlegðaráhrif mótvægis- og aðlögunaraðgerða en gert er í fyrri skýrslum matshringsins. Þá er ekki einungis einblínt á jákvæð áhrif fyrir þróun loftslags heldur einnig jákvæð áhrif á heilsufar, efnahag og samfélag.

Fram kemur að enn sé tækifæri til þess að skapa sjálfbærari og sanngjarnari heim. Lausnirnar og tækifærin séu þegar til staðar og því sé mál að bregðast við þegar í stað með viðtæka samvinnu að leiðarljósi; allir þurfi að leggja sitt af mörkum.

Veðurstofa Íslands mun birta ítarlega samantekt á niðurstöðum skýrslunnar á næstu dögum. Þangað til bendum við á fyrri fréttir Veðurstofunnar af útgáfu IPCC á einstökum köflum þessarar sjöttu matsskýrslu (AR6).

Loftslagsbreytingar eru ógn við velferð fólks og heilsu jarðar | Fréttir | Veðurstofa Íslands (vedur.is)

Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu hefur aukist seinasta áratug | Fréttir | Veðurstofa Íslands (vedur.is)

Afdráttarlaus skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar | Mat á vísindalegri þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum (WGI, AR6) | Veðurstofa Íslands (vedur.is)

Nánar um IPCC

Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar vísindanefnd sem fjallar um loftslagsbreytingar. Á ensku heitir nefndin Intergovernmental Panel on Climate Change, sem er skammstafað IPCC, en á íslensku er nefndin kölluð Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Úttektir nefndarinnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til þess að sporna við þessum breytingum.

Úttektir milliríkjanefndarinnar eru gerðar á opinn og gagnsæjan hátt. IPCC stundar hvorki rannsóknir né eftirlit með veðurfari heldur eru samantektir nefndarinnar að mestu byggðar á faglegri ritrýni og á greinum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum. Ritraðir með úttektarskýrslum á vegum nefndarinnar komu út 1990, 1995, 2001, 2007, 2013–2014, en auk þess hafa verið gefnar út sérstakar skýrslur, t.d. um 1.5°C hlýnun árið 2018 og um Hafið og freðhvolfið (e: cryosphere) árið 2019. Samantektarskýrsla IPCC er lokahluti 6. ritraðar matsskýrslna (Assessment Report 6 eða AR6) þar sem niðurstöður allra hlutanna eru samþættar.

Enskur titill skýrslunnar er: Climate Change 2023: Synthesis Report (SYR). Hún skiptist í fjóra hluta ef með er talinn inngangskaflinn. Annar hluti tekur á núverandi stöðu og þróun, þriðji hluti fjallar um þróun loftslags til langs tíma og mögulegar sviðsmyndir til framtíðar og fjórði hlutinn snýr að viðbrögðum í nálægri framtíð.

Úttektir nefndarinnar eru unnar af þremur mismunandi vinnuhópum. Vinnuhópur 1 (WG1) fjallar um jarð- og náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur 2 (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar

Nánari upplýsingar veitir

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar.

Netfang: annaol@vedur.is  - 5226000

*Þessi þýðing á mynd SPM1 í samantektarskýrslu sjöttu matsskýrslu IPCC, samantekt fyrir stefnumótendur, er ekki IPCC þýðing, heldur þýdd af Veðurstofu Íslands, tengilið við IPCC með það að markmiði að endurspegla hvað best innihald IPCC. Sem eining innan sameinuðu þjóðanna þá birtir IPCC skýrslurnar sínar á sex opinberum tungumálum sameinuðu þjóðanna (Arabískum Kínverskum, Ensku, Frönsku, Rússnesku og Spænsku). Hægt er að nálgast útgáfur á þessum tungumálum hér: www.ipcc.ch. Fyrir frekari upplýsingar er bent á skrifstofu IPCC (Heimilisfang: 7bis Avenue de la Paix, C.P. 2300, 1211 Geneva 2, Switzerland; e-mail: ipcc-sec@wmo.int)."



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica