Tíðarfar í janúar 2023
Stutt yfirlit
Janúar var kaldur um allt land, kaldasti janúarmánuður aldarinnar hingað til á landsvísu. Fyrri hluti mánaðarins mjög kaldur, sérstaklega á vestari helmingi landsins þar sem var bjart, þurrt og hægviðrasamt. Þ. 20. janúar lauk svo óvenjulega langri og samfelldri kuldatíð sem hófst í byrjun desember. Umhleypingasamt var það sem eftir var mánaðar.
Hiti
Mánuðurinn var kaldasti janúar aldarinnar á öllum spásvæðum á vestari helmingi landsins að undanskildum Vestfjörðum þar sem einn janúarmánuður hennar hefur verið kaldari. Hann var því sá kaldasti á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Ströndum og Norðurlandi Vestra. Fyrri hluti mánaðarins var mjög kaldur, sérstaklega á vestari helmingi landsins, og var beint framhald af þeirri kuldatíð sem var ríkjandi á landinu í desember.
Meðalhiti janúarmánaðar var -1,8 stig í Reykjavík. Það er 2,5 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 2,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi janúarmánaða beggja tímabila. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -1,7 stig og hann var 0,4 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik fleiri stöðva má sjá í eftirfarandi töflu.
Meðalhiti (t) í janúar 2023 á nokkrum stöðvum. Einnig má sjá vik miðað við meðalhita janúar 1991 til 2020 (vik 30) annars vegar og 2013 til 2022 (vik 10) hins vegar í °C, ásamt röðun meðalhita mánaðarins í samanburði við aðra janúarmánuði frá því að mælingar hófust.
stöð | t | vik 30 | röð | af | vik 10 |
Reykjavík | -1,8 | -2,5 | 111 til 112 | 153 | -2,6 |
Stykkishólmur | -1,7 | -1,9 | 110 | 178 | -2,0 |
Bolungarvík | -1,5 | -1,4 | 75 | 126 | -1,4 |
Grímsey | -0,6 | -1,1 | 71 | 150 | -1,4 |
Akureyri | -1,5 | -1,0 | 71 | 143 | -1,0 |
Egilsstaðir | -1,7 | -0,8 | 34 | 69 | -1,1 |
Dalatangi | 1,1 | -0,6 | 42 | 85 | -0,9 |
Teigarhorn | 0,7 | -0,3 | 59 | 151 | -0,6 |
Höfn í Hornaf. | 0,4 | -1,0 | |||
Stórhöfði | 1,2 | -1,1 | 83 | 147 | -1,2 |
Hveravellir | -7,3 | -2,2 | 42 | 59 | -2,2 |
Árnes | -3,0 | -2,1 | 101 | 144 | -2,3 |
Hitavik mánaðarins miðað við undanfarinn áratug var neikvætt á öllum veðurstöðvum. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Suðvestur- og Vesturlandi en hlýrra að tiltölu á Norðaustur- og Austurlandi. Neikvætt hitavik var minnst -0,3 stig á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði, en mest -4,1 stig á Þingvöllum.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í janúar miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 2,4 stig í Surtsey en lægstur -7,9 stig í Sátu norðan við Hofsjökul. Lægsti meðalhiti í byggð mældist -5,2 stig í Svartárkoti.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,1 stig á Dalatanga þ. 21. Lægstur mældist hitinn -23,5 stig við Setur sunnan Hofsjökuls þ. 1. og í Víðidal í Reykjavík þ. 18.
Úrkoma
Mánaðarúrkoman mældist 74,2 mm í Reykjavík, en það eru um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma mánaðarins 42,4 mm sem eru um 75% meðallags úrkomu tímabilsins 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 77,9 mm og á Höfn í Hornafirði mældust 133,9 mm.
Dagar þegar úrkoma var 1,0 mm eða meiri voru 11 í Reykjavík, eða fjórum dögum færri en í meðalári. Slíkir dagar voru 12 á Akureyri sem er einum degi oftar en að meðallagi.
Snjór
Alhvítir dagar mánaðarins voru 22 í Reykjavík sem er tíu dögum oftar en í meðalári. Þar var jörð alauð þrjá morgna mánaðarins. Á Akureyri voru 18 alhvítir dagar í mánuðinum, 4 færri en í meðalári. Jörð var alauð einn janúarmorgun á Akureyri.
Sólskinsstundafjöldi
Í Reykjavík mældust 46,8 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 24,3 stundum yfir meðallagi. Aðeins þrisvar sinnum frá upphafi mælinga hafa mælst fleiri sólskinsstundir í janúar í höfuðborginni, síðast árið 1977. Á Akureyri mældust 2,5 sólskinsstundir í mánuðinum, en það er fjórum stundum undir meðallagi.
Vindur
Undir lok mánaðar var nokkuð um að lægðir gengju á land með hvassviðri og almennt erfiðum veðuraðstæðum sem ollu m.a. samgöngu- og rafmagnstruflunum. Hvassast var 20. (SSA-átt), 22.(VSV-átt) , 26. (S-átt) og 27. (VSV-átt) dag mánaðarins.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 998,9 hPa í Reykjavík. Það er 1,6 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1035,1 hPa í Skaftafelli þ. 25. og lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 963,8 hPa í Surtsey þ. 31.
Skjöl fyrir janúar
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar
2023
(textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.