Fréttir

Tíðarfar í október 2023

Stutt yfirlit

2.11.2023

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í október. Hiti á landsvísu var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Það var að tiltölu kaldast á Norðausturlandi en hlýrra suðvestanlands. Það var sérlega hægviðrasamt í lok mánaðar.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í október var 5,4 stig. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en jafnt meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,7 stig, 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,3 stigum undir meðallagi síðustu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 4,8 stig og 5,2 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík 5,4 0,5 40 153 0,0
Stykkishólmur 4,8 0,4 45 178 -0,2
Bolungarvík 3,9 0,2 49 til 50 126 -0,6
Grímsey 3,9 0,1 49 150 -0,8
Akureyri 2,7 -0,8 86 143 -1,3
Egilsstaðir 2,9 -0,8 48 67 -1,4
Dalatangi 4,9 -0,2 46 til 47 86 -1,0
Teigarhorn 4,7 -0,4 68 151 -0,8
Höfn í Hornaf. 5,2


-0,5
Stórhöfði 6,2 0,8 22 146 0,4
Hveravellir -0,5 0,1 24 59 -0,4
Árnes 4,2 0,4 49 144 -0,1

Meðalhiti og vik (°C) í október 2023

Hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára á nær öllu landinu nema á suðvesturhorninu. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en hlýjast við suðurströndina. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -1,8 stig á Torfum í Eyjafirði. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,5 stig á Skarðsheiði.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 7,3 stig. Lægstur var hann á Gagnheiði -2,3 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal -0,3 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,7 stig við Mörk á Landi og í Skaftafelli þ. 19. Mest frost í mánuðinum mældist -14,6 stig í Möðrudal þ. 31.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 125,3 mm sem er um 60% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 64,4 mm sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í október 39,0 mm og 87,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 15, tveimur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 7 daga sem er fjórum færri en í meðalári.

Snjór

Jörð var alauð alla morgna í Reykjavík nema einn dag þegar það var flekkótt. Á Akureyri voru fjórir flekkóttir morgnar en annars alautt. Fyrsti snjór mánaðarins féll víða þ. 12. Þá var einnig töluvert hvassviðri og þónokkrar samgöngutruflanir urðu á fjallvegum.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 88,9, sem er 2,7 stundum færri en að meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 71,7, sem er 23,8 stundum fleiri en að meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,2 m/s undir meðallagi. Hvasst var þ. 10. (norðvestanátt), þ. 12.(norðaustanátt) og dagana 18. til 20. (suðaustanátt). Hægviðrasamt var í lok mánaðar.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,4 hPa sem er 1,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist á 1028,7 hPa á Önundarhorni undir Eyjafjöllum þ. 7. Lægstur mældist loftþrýstingur 967,9 hPa á Fonti á Langanesi þ. 10.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins mældist 5,8 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna tíu raðast í 35. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tíu 5,3 stig, sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 23. hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 788,7 mm sem er um 15% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 401,7 mm sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.











Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica