Fréttir

Tíðarfar í febrúar 2023

Stutt yfirlit

3.3.2023


Febrúar var hlýr um allt land. Mánuðurinn var umhleypingasamur, sérstaklega fyrri hluti mánaðar. Hann var einnig úrkomusamur á vestanverðu landinu en þurrari á Norðaustur- og Austurlandi. Það endurspeglast í sólskinsstundafjölda, en febrúar var t.a.m. sólríkur á Akureyri en fremur sólarsnauður í Reykjavík. Töluverðir vatnavextir voru í ám í kjölfar leysinga um miðjan mánuðinn. Ástandið var verst á vestanverðu landinu. Þar flæddu ár víða yfir bakka sína og skildu sums staðar eftir sig stærðar klaka eftir að hafa rutt sig. Víða urðu talsverðar skemmdir á túnum og vegum.

Hiti

Meðalhiti mánaðarins mældist 2,1 stig í Reykjavík, eða 1,6 stig umfram meðallag áranna 1991 til 2020 og 1,0 stig umfram meðallag síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist meðalhitinn 2,0 stig sem er 2,8 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 2,3 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Mánaðarmeðalhitinn mældist 2,0 stig í Stykkishólmi og 2,4 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

Meðalhiti (t) í febrúar 2023 á nokkrum stöðvum. Einnig má sjá vik miðað við meðalhita febrúar 1991 til 2020 (vik 30) annars vegar og 2013 til 2022 (vik 10) hins vegar í °C, ásamt röðun meðalhita mánaðarins í samanburði við aðra febrúarmánuði frá því að mælingar hófust.

stöð t vik 30 röð af vik 10
Reykjavík 2,1 1,6 18 153 1,0
Stykkishólmur 2,0 2,1 10 til 11 178 1,6
Bolungarvík 1,4 2,0 15 126 1,2
Grímsey 1,7 1,8 9 150 1,1
Akureyri 2,0 2,8 10 143 2,3
Egilsstaðir 0,9 1,9 10 69 1,3
Dalatangi 2,8 1,6 9 85 0,9
Teigarhorn 2,0 1,2 27 151 0,5
Höfn í Hornaf. 2,4


0,7
Stórhöfði 2,3 1,3 18 147 0,9
Hveravellir -3,1 2,3 9 59 1,8
Árnes 0,8 1,7 18 143 1,0

Febrúar var hlýr um allt land í samanburði við undanfarna tíu febrúarmánuði. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðurlandi. Hitavikið var alls staðar jákvætt að undanskildum Stjórnarsandi við Kirkjubæjarklaustur þar sem það var 0,0 stig. Mest var jákvæða hitavikið 2,9 stig á Sauðárkróksflugvelli og Torfum í Eyjafirði.



Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í febrúar miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 4,4 stig í Surtsey en lægstur -4,5 stig í Sandbúðum. Lægsti mánaðarmeðalhiti í byggð mældist -2,2 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,4 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 5. en mest mældist frostið -19,0 stig á Hágöngum þ. 17. Í byggð mældist lægsti hiti mánaðarins -15,3 stig á Þingvöllum þ.18.

Úrkoma

Mánuðurinn var úrkomusamur á vestanverðu landinu en úrkoma var almennt undir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi. Úrkoma í Reykjavík mældist 141,3 mm, eða 56% umfram meðallag febrúarmánaða áranna 1991 til 2020 og 66% umfram meðallag undanfarins áratugar. Á Akureyri mældist úrkoman 40,7 mm sem er 78% af meðallagi febrúarúrkomu tímabilsins 1991 til 2020 og 61% af meðalúrkomu febrúarmánaða síðustu tíu ára.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 20, sex fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins, eða tveimur dögum sjaldnar en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru átta sem er fjórum dögum undir meðaltali áranna 1991 til 2020. Á Akureyri voru sjö alhvítir dagar í mánuðinum, níu færri en að meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust 35,9 sólskinsstundir í mánuðinum, en það er 25,7 stundum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Aðeins einu sinni hafa mælst færri sólskinsstundir í Reykjavík í febrúar það sem af er 21. öldinni, en það var árið 2015 þegar þær mældust 34,3. Á Akureyri var mánuðurinn hins vegar sólríkur. Þar mældust 54,8 sólskinsstundir sem er 20,9 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þar hafa ekki mælst fleiri sólsinsstundir í febrúar síðan árið 1986.

Vindur

Febrúar var umhleypingasamur og rakti hver vindasama lægðin aðra fyrri hluta mánaðar. Vindur á landsvísu var 0,5 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hvassast var 5. (S-átt), 11. (SSV-átt) og 13. (S-átt) daga mánaðarins en fleiri hvassviðri ollu einnig vandræðum þennan mánuðinn.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 1000,6 hPa í Reykjavík sem er 1,8 hPa yfir meðallagi febrúar 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1040,7 hPa á Önundarhorni þ. 28., en lægstur mældist loftþrýstingurinn 959,0 hPa á Vattarnesi.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu tveggja mánaða ársins mældist 0,2 stig í Reykjavík sem er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti janúar og febrúar raðast í 56. sæti 153 ára í Reykjavík. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar og febrúar einnig 0,2 stig. Þar er það hins vegar 0,9 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 0,7 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn raðast í 22. sæti á lista 143 ára á Akureyri.

Heildarúrkoma janúar og febrúar mánaða í Reykjavík mældist 215,5 mm sem er 21% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 18% yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust 83,1 mm í mánuðunum tveimur, en það eru um 74% af meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 64% meðallags undanfarins áratugar.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.












Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica