Fréttir
COP28_S_engl_landscape-01-1200x940
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna 2023, COP 28, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem stendur yfir frá 30. nóvember í um tvær vikur.

Veðurstofan stendur fyrir viðburði á COP28

Aðlögun sveitarfélaga og tækifæri í samstarfi þjóða

7.12.2023

Hvert er hlutverk ríkisvaldsins þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum? En sveitarstjórnastigsins? Hvernig getum við fest aðlögun að loftslagsbreytingum í sessi þegar kemur að ákvörðunum til framtíðar? Hvernig komum við auga á samlegð á milli mótvægisaðgerða og aðlögunar? Hvernig er norrænu samstarfi háttað og hvaða tækifæri felast í frekara samstarfi um aðlögun að loftslagsbreytingum? Hvaða áhrif geta Norðurlöndin haft á alþjóðavísu á sviði aðlögunar?

Þessar spurningar og margar fleiri verða ræddar á hliðarviðburði sem skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar stendur fyrir í Norræna skálanum á COP28 í Dubai. Viðburðurinn fer fram þann 9. desember en einnig verður hægt að fylgjast með honum í streymi í gegnum þennan hlekk.

Viðburðurinn byggir á niðurstöðum NOCCA 2023, norrænnar ráðstefnu um loftslagsbreytingar og aðlögun, sem skrifstofan stóð fyrir í apríl síðastliðnum. Ráðstefnan var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og var eitt af forsætisverkefnum Íslands í nefndinni þetta árið. Á ráðstefnunni var sjónum sérstaklega beint að aðlögun sveitarfélaga og borga, hvert hlutverk stjórnvalda væri og hvernig best væri að festa aðlögun í sessi í stefnumótun til framtíðar. Á viðburðinum á COP28 munu þessi atriði rædd áfram auk þess sem frekari áhersla verður lögð á samstarf þvert á landamæri.  

Þar sem viðburðurinn fer fram í Norræna skálanum á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu munum við leggja sérstaka áherslu á að ræða tækifæri sem felast í samstarfi þjóða og hvað Norðurlöndin geta lagt af mörkum hvað varðar aðlögun að loftslagsbreytingum á alþjóðavísu,“ segir skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar, Anna Hulda Ólafsdóttir.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar mun ávarpa viðburðinn en í pallborði sitja Adrian Lema sem fyrir skrifstofu loftslagsrannsókna hjá Dönsku veðurstofunni, Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna og Anna Salminen sérfræðingur hjá landbúnaðar- og skógræktarráðuneyti Finnlands. Auk þeirra taka Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar, og Theódóra Matthíasdóttir, sérfræðingur hjá skrifstofunni, þátt í viðburðinum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica