Fréttir
Header-fyrir-FB

Norræn ráðstefna um loftslagsbreytingar og aðlögun fer fram í Reykjavík í næstu viku

Sjónum beint að því hvernig sveitarfélög Norðurlandanna búa sig undir breyttan heim  

14.4.2023

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023 og af því tilefni stendur Veðurstofa Íslands, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, fyrir norrænni ráðstefnu um loftslagsbreytingar og aðlögun, NOCCA23. 

Fyrri dagur ráðstefnunnar samanstendur af fjölbreyttum fyrirlestrum en á seinni deginum gefst fundargestum tækifæri á að taka í áhugaverðum og skemmtilegum vinnustofum þar sem meðal annars verður notast við íslensk tilfelli til þess leita að úrlausnum áskorana. Dagskrá ráðstefnunnar er að finna á www.nocca.is.

NOCCA fer fram dagana 17. og 18. apríl á Grand hótel. Rafrænni skráningu er lokið en mögulegt er að skrá sig á ráðstefnuna við innganginn. Þeir sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með fyrri ráðstefnudeginum í beinu streymi

Beint streymi

Ekki verður streymt frá vinnustofunum sem fram fara á seinni deginum en hægt verður að skrá sig sérstaklega á þær við innganginn. 

Mikilvægur vettvangur til þess að skiptast á reynslu og þekkingu 

„Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur til þess að þróa áfram stamstarf á milli Norðurlandanna með það að markmiði að skapa loftslagsþolnari framtíð fyrir alla,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands. 

Twitter-card---Anna-Hulda-Olafsdottir

„Á ráðstefnunni í ár verður sérstakur fókus settur á borgir og sveitarfélög, en hlutverk þeirra er stórt þegar kemur að aðlögunaraðgerðum. Leitast verður við að koma auga á sameiginlegar hindranir Norðurlandanna varðandi aðlögunaraðgerðir og hvernig unnt sé að hrinda þeim úr vegi. Þrátt fyrir að aðlögunaraðgerðir taki almennt mið af umhverfinu hverju sinni þýðir það ekki endilega að þær séu sértækar fyrir hvert tilfelli. Það er ljóst að Íslendingar hafa tækifæri á að læra margt af nágrannalöndunum þegar kemur að þessum málaflokki, bæði af því sem vel hefur verið gert en mögulega líka því sem hefur misfarist. Það er von mín að á þessari NOCCA ráðstefnu lærum við hvert af öðru og eflum þannig þekkingu á því hvernig sveitarfélög búa sig undir óhjákvæmilegar afleiðingar loftslagsbreytinga“, segir Anna Hulda. 

Áhersla á lausnir á sveitarfélagastigi   

Á ráðstefnunni í ár verður lögð sérstök áhersla á hvernig sveitarfélög á Norðurlöndunum búa sig undir áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga. Meðal annars verður fjallað um skipulagsgerð með það að markmiði að auka loftslagsþol, áskoranir tengdar hækkandi sjávarstöðu, áhrif loftslagsbreytinga þvert á landamæri og náttúrumiðaðar lausnir sem leið til þess að búa sig undir breyttan heim. 

Á viðburðinum verða saman komnir norrænir sérfræðingar í viðfangsefninu frá sveitarfélögum og ráðuneytum, fagstofnunum og fyrirtækjum, háskólum og félagasamtökum. Það er því ljóst að um einstakt tækifæri er að ræða til þess að skiptast á þekkingu og læra af því sem vel hefur verið gert og jafnvel því sem illa hefur farið.  

Niðurstöður ráðstefnunnar verða teknar saman í stefnuskjal sem mun nýtast sem leiðarvísir fyrir áframhaldandi norrænt samstarf á þessu sviði. 

Viðburðurinn er fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni en Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands sér um skipulagningu.  

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands 

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica