Fréttir
Ummerki snjóflóðs sem féll mánudaginn 27. mars á 17 metra háum þvergarði undir Drangagili í Neskaupstað. Snjóflóðið rakst á garðinn á miklum hraða og snjórinn klesstist inn í netgrindur sem eru til styrkingar á brattri garðhliðinni. Snjórinn kastaðist upp á garðtoppinn á um 80 m löngum kafla og náði 10-20 m niður á neðri garðhliðina. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Ragnar Heiðar Þrastarson).

Varnarvirki í Neskaupstað sönnuðu gildi sitt

5.4.2023

Undanfarna daga hefur verið unnið að mælingum á snjóflóðunum sem féllu í Neskaupstað í síðustu viku (27.-31. mars) og hafist handa við að vinna úr gögnum. Snjóathugunarmenn og fleiri sérfræðingar Veðurstofunnar og verkfræðistofa hafa farið um snjóflóðatungurnar og kannað umfang þeirra og kortlagt ummerki á gróðri og mannvirkjum. Upptök og úthlaupssvæði flóðanna hafa verið ljósmynduð af jörðu og úr lofti og fjallshlíðin kortlögð með flygildum. Mikilvæg aðstoð hefur fengist frá heimamönnum og hefur flygildi Björgunarsveitarinnar Gerpis nýst vel. Áfram verður unnið að mælingum og úrvinnslu gagna næstu daga og vikur.

Mikilvæg gögn safnast um hegðun snjóflóða sem nýtast við hönnun varnarvirkja

Snjóflóðahrinan hófst snemma mánudagsmorguninn 27. mars með þurrum flekaflóðum úr Miðstrandar­skarði/Klofagili, Tröllagiljum, Skágili, Nesgili og Bakkagili. Snjóflóðin féllu í kjölfarið á skammvinnri en ákafri snjókomu sem hófst aðeins 6–8 klst áður, en töluverður snjór var þá fyrir. Talsvert frost var þegar hrinan hófst og þykk lausamjöll víða. Þessi fyrstu flóð náðu langt og lentu á efstu húsum undir Nesgili og stöðvuðust skammt ofan byggðar neðan Bakkagils þar sem ekki eru varnir. Snjóflóðið neðan Miðstrandarskarðs náði í sjó fram innan við byggðina, flóð úr Tröllagiljum féllu á keilur og að varnargarði og flóðið úr Skágili féll á keilur og varnargarð sem er undir Skágili og Drangagili.


Fyrsta uppkast að útlínum snjóflóða sem féllu í Neskaupstað 27.-31. mars 2023. Unnið verður áfram úr gögnum og útlínur kunna að breytast eða fleiri útlínur bætast við. Kortið var unnið í samvinnu verkfræðistofunnar Verkís og Veðurstofunnar. (Smellið á myndina til að sjá hana stærri)

Miðvikudaginn 29. mars kom ný lægð að landinu með mikilli ofankomu, snjókomu í fyrstu, en svo tók að hlýna smátt og smátt og endaði úrkoman í rigningu alveg upp í fjallahæð á föstudag og laugardag. Mörg stór flekaflóð féllu ofan Neskaupstaðar í þessari seinni lotu hrinunnar, m.a. á snjóflóðakeilur ofan við varnargarða í Neskaupstað. Flóðin voru blautari og efnismeiri í síðari hluta hrinunnar en náðu engu að síður langt og féllu á miklum hraða m.v. lýsingar heimamanna sem urðu vitni að þeim. 

Þegar snjóflóðin úr Nesgili og Bakkagili voru skoðuð nánar, eftir að skafrenningssnjór sem þakti snjóflóðstungurnar hafði bráðnað, kom í ljós að þau höfðu eyðilagt trjágróður á stórum svæðum og borið fram grjót og gróðurtorfur. Stór grenitré rifnuðu upp með rótum eða kubbuðust í sundur neðarlega. Birki og víðirunnar virtust aflagast og leggjast undan flóðinu án þess að brotna.

Rýna þarf í eðli snjóflóða til að skýra kraftana sem eru að verki

Stór, þurr snjóflóð eru samsett af þéttum kjarna, eðlisléttari þætti sem nefndur hefur verið iðufaldur á íslensku og mjög léttu kófi. Iðufaldurinn er loftblandaður og léttur í sér miðað við þétta kjarnann. Iðufaldurinn myndast framan við þétta kjarnann og ferðast því fremst niður hlíðar í flóðinu og á meiri hraða. Iðufaldurinn einkennist af hvirflum og mikilli óreiðu og iðuköstum.  Hann getur náð nokkur hundruð metra framan við þétta kjarnann í flóðinu.

Edli-snjofloda_Stefna

Einföld skýringarmynd af snjóflóði sem líkist flóðunum sem féllu í Neskaupstað 27. mars. Stefna flóðsins er frá hægri til vinstri. (Mynd byggð á skýringarmynd Betty Sovilla við Svissnesku snjóflóðarannsóknastofnunina SLF í Davos)

Eftir þessar fyrstu athuganir er talið að þétti kjarni snjóflóðanna úr Nesgili og Bakkagili hafi stöðvast um 50-100 m ofan við byggð, en að iðufaldur flóðanna hafi náð lengra og að það hafi verið sá hluti flóðanna sem olli tjóni á húsum og bílum á mánudagsmorgni. Talað var um „kófhlaup“ í fréttum af þessari hrinu en  orðið „iðufaldur“ eða „iðukastafaldur“ , er notað um þennan hluta flóðsins sem er fremsti hluti í þurrum snjóflóðum sem ferðast hratt og með miklum iðuköstum. Á ensku er iðufaldurinn nefndur „fluidized head eða fluidized regime“. Það myndast ekki alltaf öflugur iðufaldur í þurrum snjóflóðum og líklega hafa sérstakar aðstæður með frosti og lausamjöll orðið til þess að hann varð jafn kröftugur og raun bar vitni á mánudag

Álag frá iðufaldi snjóflóða er ekki vegna mikils massa af snjó sem lendir á mannvirkjum, heldur er um að ræða flókin iðuköst sem geta valdið endurteknum þrýstihöggum á mannvirki. Það getur orðið til þess að rúður og hurðir brotna, hús fyllast af léttum snjó og bílar kastast til.

Keilur ofan varnargargarða í Neskaupstað virkuðu vel

Iðufaldur er talinn hafa borist áfram á miklum hraða fremst í snjóflóðunum á Flateyri í janúar 2020. Iðufaldurinn barst yfir leiðigarða undir Skollahvilft og Innra-Bæjargili og snjóflóðið úr Innra-Bæjargili olli að mörgu leyti svipuðu tjóni á húsi og bílum og varð í Neskaupstað á mánudaginn. Leiðigarðurinn bægði hinsvegar þétta kjarnanum frá og kom þar með í veg fyrir mun meiratjón en varð. Til þess að minnka hættu á að iðufaldur fari yfir leiðigarðana á Flateyri hefur verið lagt til að reisa keilur ofan garðanna og endurbyggja þvergarðinn á milli leiðigarðanna með meiri bratta. Keilurnar munu bæði brjóta upp iðufaldinn og þétta kjarna flóðanna sem á þeim lenda og draga þannig úr hraða og afli flóða. Fyrstu vettvangskannanir benda til þess að keilur ofan varnargarða í Neskaupstað sem og brattir þvergarðar hafi virkað vel til þess að draga úr krafti iðufaldsins.

Neskaupstaddur_Skemmdir_Grodur

Skemmdir á trjágróðri neðan Nesgils ofan hverfisins þar sem snjóflóð lenti á fjölbýlishúsi utarlega í byggðinni í Neskaupstað að morgni mánudags 27. mars. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Óliver Hilmarsson).

Upptakastoðvirki ofarlega í giljum hönnuð til þess að koma í veg fyrir að stór snjóflóð fari af stað efst í upptakasvæðum

Þegar flekasnjóflóð fara af stað myndast svokölluð „brotstál“ í upptakasvæðunum. Brotstálin eftir snjóflóðin sem fóru af stað á mánudaginn 27. mars eru víða illgreinanleg vegna þess að mikið fennti dagana á eftir. En brotstálin eftir snjóflóðin sem féllu seinni hluta vikunnar eru skýr. Í Tröllagiljum og Drangagili í Neskaupstað eru svokölluð „upptakastoðvirki“ ofarlega í giljunum. Þau eru hönnuð til þess að draga úr stærð þeirra snjóflóða sem geta farið af stað. Þau gegna líka því hlutverki að fækka snjóflóðum, því flóðin eiga oft upptök efst undir klettum, þar sem stoðvirkin eru. Á þessum svæðum má ætla að snjóflóðin hafi orðið minni en ella vegna þess að stoðvirkin komu í veg fyrir að snjóflóð færu af stað á stórum svæðum. Ekki er unnt að reisa stoðvirki á öllum upptakasvæðunum og hafa því einnig verið reistar brattar keilur og þvergarðar ofan byggðarinnar á þessum svæðum til þess að verjast snjóflóðum sem eiga upptök utan stoðvirkjasvæðanna eða ef stoðvirki færu á kaf þegar snjódýpt er óvenju mikil í fjöllum Meðfylgjandi ljósmynd sýnir upptakasvæði Tröllagilja, ofan innsta hluta þéttbýlisins í Neskaupstað. Sjá má brotlínur sem þræða sig upp undir stoðvirkin og liggja samsíða neðstu röðinni alllanga vegalengd.

Neskaupstadur_Stodvirki_Gerpir

Efri hluti hlíðarinnar ofan Tröllagilja þar sem reist hafa verið stoðvirki til þess að draga úr stærð snjóflóða sem fara af stað. Sjá má brotlínur snjóflóða víða um hlíðina. Brotlínur ná upp undir stoðvirkin en ekki inn í stoðvirkjasvæðið. (Ljósmynd: Hlynur Sveinsson, Björgunarsveitin Gerpir).




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica