Fréttir
Askja_samanburdur_20230213
Samanburður á breytingum á ísnum í Öskjuvatni frá 8.-13. febrúar 2012. Byggt á gögnum frá Copernicus (Sentinel-2). Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.

Engar mælingar sem útskýra bráðnun íss á Öskjuvatni

Á nýlegum gervitunglamyndum sést að ísinn á Öskjuvatni hefur hörfað að miklu leyti

15.2.2023

Á nýlegum gervitunglamyndum sést að ísinn á Öskjuvatni hefur hörfað að miklu leyti. Það er óvenjulegt að slíkt gerist svo snemma árs, en venjulega hefur það gerst í júní eða júlí. Síðast gerðist það árið 2012 að ísinn hörfaði svo snemma árs en þá gerðist það í mars.

Orsök þess að Öskjuvatn er nú íslaust að stórum hluta er ekki þekkt og engar mælingar sem útskýra bráðnunina. Ýmsar mögulegar orsakir hafa verið viðraðar. Ein möguleg skýring er aukning í jarðhita en engin merki um það eru á landi. Niðurstöður úr mælingum 2012 þegar sambærileg bráðnun átti sér stað, sýndu heldur engin mælanleg merki um aukinn jarðhita. Nægur varmi er í vatninu sjálfu til að bræða ísinn en til þess þarf að koma vatninu undir ísnum á hreyfingu, þetta gætu verið breytingar í jarðhita, gasuppstreymi, skriður eða vindur sem kemst í opna vök. Önnur skýring gæti verið sú að sérstakar veðuraðstæður hafi orsakað þessa bráðnun. Sterkir suðlægir vindar hafa geysað um hríð ásamt nokkrum hlýindum, en hitastig við Upptyppinga mældist 5-9° á tímabili. Veðurstöð við Upptyppinga er í um 25km fjarlægð frá Öskjuvatni sem stendur um 600 m hærra. Önnur vötn á Hálendinu eru þó enn ísilögð og engin merki um að þau séu að opnast vegna veðuraðstæðna.

Hraði á landrisi haldist stöðugur

Frá því í ágúst 2021 hefur land risið í Öskju líklega vegna kvikuinnskots sem talið er vera á um 2-3 km dýpi. Hraði landrissins hefur verið stöðugur allt frá upphafi og nemur það nú um 50 sm nærri miðju Öskju. „Engar teljandi breytingar hafa orðið á skjálftavirkni í Öskju undanfarnar vikur sé miðað við virkni eftir að landris hófst“, segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum á Veðurstofu Íslands. „Það eru engin gögn sem tengja ísleysið nú og 2012 við landrisið sem hefur verið í gangi síðan í ágúst 2021, en það er þó ein möguleikin að ísleysið tengist aukinni virkni í eldfjallinu. “ segir Benedikt.

Vísindamenn Veðurstofunnar munu halda áfram að vakta stöðuna í Öskju  og birta upplýsingar í takti við þróun stöðunnar.

Askja_samanburdur_20230208

Askja_samanburdur_20230211

Askja_samanburdur_20230213

Myndaröð sem sýnir breytingar á ísnum í Öskjuvatni frá 8.-13. febrúar 2012. Byggt á gögnum frá Copernicus (Sentinel-2). Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica