Fréttir
Esjuskafl-24-8
Skaflinn við efstu brún Kistufellsmegin í Gunnlaugsskarði er allur horfinn en hann hvarf síðast árið 2019. Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Árni Sigurðsson.

Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni er horfinn í ár

Sumur þurfa að vera óvenju hlý til þess að skaflinn hverfi. Hann hvarf síðast árið 2019 

29.8.2023

Það hefur verið fylgst með Esju skaflinum síðan á 19. öld og hann stundum nefndum óformlegur mælikvarði á tíðarfar á suðvesturhorni landsins. Skaflinn hefur ekki horfið síðan 2019 en þá hafði hann ekki horfið í ein sjö ár. Skaflinn sést venjulega vel frá höfuðborginni, en hann er staðsettur við efstu brún Kistufellsmegin í Gunnlaugsskarði.

Þegar skaflinn hvarf í fyrsta skipti árið 1929, þá mundu elstu menn ekki eftir að það hafði gerst áður. Það er þó ekki útilokað að hann hafi mögulega horfið 1847 og 1852.  Hann hvarf síðan flest ár í kjölfarið til 1947. Hann hélt áfram að hverfa sum ár til 1964, en þá kólnaði skyndilega og talað er um Hafísárin 1965 til 1971, en þá virðist skaflinn hafa fest sig rækilega í sessi. Hægt af hlýnað eftir það þó tók skaflinn ekki að hverfa aftur fyrr en 1998.    Skaflinn hvarf alltaf 10 ár í röð, frá árinu 2001 til 2010, en þá virðist hafa kólnað aðeins og yfirleitt hvarf hann ekki eftir það. Aðeins árin 2012, 2019 og einnig nú 2023. Til eru upplýsingar um að skaflinn hafi tvö ár horfið mjög snemma, en hann hvarf í júlí 1941 og 2010.

Sumir vetur eru óvenju snjóléttir, þegar norðaustlægar vindáttir eru meira og minna ríkjandi og úrkoma lítil af þeim sökum. Þannig var einnig veturinn 2010 þegar skaflinn hvarf í júlí. Síðasta vetur sem leið safnaðist lítill snjór í löngum frostaköflum og lægðabrautin lengst af langt fyrir sunnan landið. Það var ansi vætusamt í júní, en síðan hefur verið óvenju þurrt og sólríkt. Til að skaflinn hverfi þarf helst að fara saman að vetur sé snjó léttur á undan hlýju sumri. Sérfræðingar hér á Veðurstofunni hafa fjallað um skaflinn og tíðarfar tengt honum í gegnum tíðina. Hér má finna ítarlega umfjöllun sem Páll Bergþórsson tók saman um hinar ýmsu athuganir tengdar skaflinum.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica