Fréttir

Tíðarfar í ágúst 2023

Stutt yfirlit

5.9.2023

Ágúst var hlýr um meginhluta landsins, nema allra austast. Það var óvenju hægviðrasamt og úrkoma undir meðallagi. Það var mjög þurrt fram eftir mánuðinum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á mörgum stöðum féll meirihluti mánaðarúrkomunnar á einum til tveimur sólarhringum seint í mánuðinum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 12,2 stig og er það 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var 6. hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 11,5 stig, 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig 0,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 11,1 stig og 10,9 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík 12,2 1,1 6 153 1,2
Stykkishólmur 11,1 0,6 17 til 18 178 0,7
Bolungarvík 11,1 1,4 6 126 1,5
Grímsey 9,1 0,3 25 til 26 150 0,2
Akureyri 11,5 0,7 21 til 22 143 0,7
Egilsstaðir 10,1 -0,3 32 69 -0,1
Dalatangi 9,0 -0,2 32 til 33 86 -0,5
Teigarhorn 9,4 -0,2 41 151 -0,4
Höfn í Hornaf. 10,9


0,4
Stórhöfði 11,2 0,8 7 147 0,9
Hveravellir 8,1 0,9 7 59 0,9
Árnes 12,0 1,1 6 144 1,2

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2023

Mánuðurinn var hlýr um meginhluta landsins, nema allra austast. Að tiltölu var mjög hlýtt á Suðvesturlandi, inná miðhálendi og á Vestfjörðum. En að tiltölu kalt á Austfjörðum og á annesjum norðaustanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,2 stig á Þverfjalli við Skutulsfjörð. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,7 stig á Fonti á Langanesi.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,9 stig við Reykjanesvita en lægstur 5,2 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 7,8 stig á Fonti á Langanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 26,4 stig á Torfum í Eyjafirði þ. 25. Mest frost í mánuðinum mældist -2,3 stig á Hveravöllum þ. 22. Mest frost í byggð mældist -1,7 stig á Reykjum í Fnjóskadal þ. 22.

Úrkoma

Úrkoma var undir meðallagi í ágúst. Það var mjög þurrt fram eftir mánuðinum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á mörgum stöðum féll meirihluti mánaðarúrkomunnar á einum til tveimur sólarhringum seint í mánuðinum. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru óvenju fáir víða þó svo að heildarúrkoma mánaðarins hafi oft verið minni. Á Dalatanga voru slíkir dagar t.a.m. einungis 3 og hafa ekki verið færri í áratugi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 59,2 mm sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 29,3 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Það var mjög þurrt á Akureyri fram eftir mánuðinum, en meiri hluti mánaðarúrkomunnar er skráð að morgni þess 27., þegar sólarhringsúrkoman mældist 24,2 mm. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 19,0 mm sem er aðeins um 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 22,4 mm sem er með því minnsta sem þekkist þar í ágústmánuði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 3 daga sem er fimm færri en í meðalári. Í Stykkishólmi voru úrkomudagarnir 4 og á Höfn í Hornafirði voru þeir 3.

Sólskinsstundafjöldi

Mánuðurinn var sólríkur bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 208,7 í ágúst sem er 43,9 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 176,8 sem er 38,8 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Mánuðurinn var óvenju hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,7 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,5 hPa og er það 4,9 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingur 1025,6 hPa á Kambanesi þ. 18. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 996,5 hPa í Grindavík þ. 28.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarmánuðirnir hafa verið mjög ólíkir, þá sérstaklega júní og júlí. Í júní voru suðvestlægar áttir ríkjandi. Það var óvenjulega hlýtt og sólríkt á norðaustan- og austanverðu landinu. Þetta var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum og jafnframt hlýjasti sumarmánuðurinn þar þetta árið. Á meðan var júnímánuður sérlega úrkomusamur og sólarlítill á sunnan- og vestanverðu landinu. Í júlí voru aftur á móti norðan- og norðaustanáttir ríkjandi allan mánuðinn. Það var kalt á Norður- og Austurlandi en að tiltölu hlýrra suðvestanlands. Þá var óvenju þurrt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu og var þetta víða þurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga í þeim landshlutum. Ágúst var svo tiltölulega hlýr, hægviðrasamur og þurr.

Meðalhiti sumarsins það sem af er í Reykjavík var 11,1 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja er í 22. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhitinn einnig 11,1 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja þar raðast í 18. til 19. hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 169,8 mm sem er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Meira en helmingur sumarúrkomunnar í Reykjavík féll í júní. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 70,0 mm sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 8 færri en í meðalári í Reykjavík en jafn margir og í meðalári á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 618,2 í Reykjavík sem er 80,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 544,1 sem er 63,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins mældist 5,5 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna átta raðast í 41. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna átta 5,3 stig, sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en jafn meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 19. hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 597,8 mm sem er um 15% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 237,9 mm sem er um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica