Fréttir

Tíðarfar í mars 2023

Stutt yfirlit

5.4.2023


Mars var mjög kaldur um land allt, kaldasti marsmánuður á landinu síðan 1979. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi nánast allan mánuðinn og að tiltölu var kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Óvenju þurrt og sólríkt var á suðvestanverðu landinu. Í Reykjavík var mánuðurinn bæði næstþurrasti og næstsólríkasti marsmánaður frá upphafi mælinga, en heildarúrkoma mánaðarins þar mældist aðeins 5,0 mm. Það var mjög úrkomusamt á Austfjörðum í lok mánaðar og töluverð snjóþyngsli. Fjöldi snjó- og krapaflóða féllu þar í lok mánaðar, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu tjóni.

Hiti

Mars var mjög kaldur um land allt. Meðalhiti í byggðum landsins var rúmlega 3 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Marsmánuður hefur ekki verið kaldari á landvísu síðan 1979, en þá var hann töluvert kaldari.

Í Reykjavík var meðalhitinn í mars -1,6 sig sem er 2,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -4,0 stig sem er 4,0 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 4,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -2,5 stig og hann var -1,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík -1,6 -2,8 127 153 -3,3
Stykkishólmur -2,5 -2,8 136 178 -3,3
Bolungarvík -2,8 -2,3 97 126 -3,0
Grímsey -3,4 -3,2 119 150 -3,9
Akureyri -4,0 -4,0 120 143 -4,6
Egilsstaðir -3,8 -3,5 62 69 -4,2
Dalatangi -1,8 -3,0 76 85 -3,8
Teigarhorn -2,1 -3,4 132 151 -4,0
Höfn í Hornaf. -1,6


-3,9
Stórhöfði -0,2 -2,5 132 147 -2,9
Hveravellir -8,9 -4,0 57 59 -4,6
Árnes -3,3 -3,3 123 til 124 143 -3,9

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2023

Meðalhitinn í mars var langt undir meðallagi á landinu öllu. Nánast samfelld kuldatíð ríkti í rúmar 3 vikur (6. til 28. mars). Dagarnir 11. og 12. voru sérlega kaldir. Að tiltölu var kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Þar var þetta kaldasti marsmánuður síðan 1979. Á sunnan- og vestanverðu landinu var að tiltölu hlýrra, en þó þarf að fara aftur til ársins 1995 til að finna kaldari marsmánuð í þeim landshlutum. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -5,3 stig á Torfum í Eyjafirði, en minnst -2,2 stig á Steinum undir Eyjafjöllum.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 1,3 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -10,8 stig við Sátu norðan Hofsjökuls. Í byggð var meðalhitinn lægstur -7,9 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,7 stig á Möðruvöllum þ. 31. Mest frost í mánuðinum mældist -25,7 stig við Mývatn þ. 12.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju þurr vestantil á landinu og þar mældist úrkoma víða sú minnsta sem mælst hefur í áratugi.

Í lok mánaðar var óvenjulega úrkomusamt á Austurlandi, sérstaklega á Austfjörðum. Í fyrstu féll úrkoman sem snjókoma en síðar sem rigning. Í kjölfarið féll mikill fjöldi snjó- og krapaflóða.

Úrkoma í Reykjavík í mars mældist aðeins 5,0 mm sem er 6% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þetta er næstþurrasti marsmánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga, en það var þurrara í mars 1962 þegar úrkoman mældist 2,3 mm. Á Akureyri mældist úrkoman 48,3 mm sem er rétt yfir meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist mánaðarúrkoman 15,2 mm sem er um 20% af meðalúrkomu og hefur ekki mælst eins lítil úrkoma þar í marsmánuði síðan 1962, líkt og í Reykjavík. Á Austfjörðum mældist úrkoma aftur á móti vel yfir meðallagi á öllum veðurstöðvum.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 2, tólf færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 11 daga mánaðarins, tveimur fleiri en í meðalári.

Snjór

Mars var mjög snjóléttur suðvestanlands. Í Reykjavík var alautt allan mánuðinn, en að meðaltali eru 9 alhvítir dagar þar í marsmánuði. Töluverður snjór var hins vegar um landið norðan- og austanvert. Alhvítir dagar á Akureyri voru 21, fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Mjög snjóþungt var á Austfjörðum í lok mánaðarins. Mikið snjóaði á svæðinu aðfaranótt þess 27. og í kjölfarið féll mikill fjöldi snjóflóða. Þau stærstu í Neskaupstað, þar sem þau ollu miklu eignatjóni. Fleiri snjóflóð auk krapaflóða féllu svo dagana 30. og 31. eftir að veðrið versnaði aftur.

Sólskinsstundafjöldi

Það var óvenjulega sólríkt suðvestanlands í mars. Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 207,5 sem er 97,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er næstsólríkasti marsmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, en það var sólríkara í mars 1947. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 74,2, sem er 3,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi nánast allan mánuðinn. Hvassast var dagana 21. og 22. (norðaustanátt).

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var óvenjuhár í mánuðinum. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1013,5 hPa sem er 10,3 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1041,2 hPa á Önundarhorni og í Skaftafelli þ. 1. Lægstur mældist þrýstingurinn 977,8 hPa á Fagurhólsmýri þ. 30.

Fyrstu þrír mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu þrjá mánðuði ársins mældist -0,4 stig sem er 1,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna þriggja raðast í 93. til 94. hlýjasta sæti á lista 153 ára í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -1,2 stig, sem er 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 62. hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 220,5 mm sem er 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 131,4 mm sem er 82% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Veturinn (desember 2022 til mars 2023)

Veturinn 2022 til 2023 var óvenjulega kaldur á landinu öllu. Á landsvísu hefur veturinn ekki verið eins kaldur síðan 1995 (desember 1994 til mars 1995).

Eftir mjög hlýjan nóvembermánuð hófst nær samfelld kuldatíð á landinu sem stóð frá 7. desember til 19. janúar. Kuldatíðin var sérstaklega óvenjuleg á suðvesturhorninu, og voru þessar 6 vikur t.d. þær köldustu í Reykjavík síðan 1918 (en þá var mikið kaldara). Á þessu tímabili var þrýstingur sérlega hár, vindur hægur og það var óvenju þurrt og bjart, sérstaklega suðvestanlands. Það var umhleypingasamt seinni hluti janúar og í febrúar. Töluverðir vatnavextir voru í ám í kjölfar leysinga um miðjan febrúar. Ástandið var verst á vestanverðu landinu. Þar flæddu ár víða yfir bakka sína og skildu sums staðar eftir sig stærðar klaka eftir að hafa rutt sig eftir kuldatíðina fyrr um veturinn.

Það kólnaði svo aftur í mars og nánast samfelld kuldatíð ríkti frá 6. til 28. mars. Að tiltölu var þá kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var óvenju þurrt og sólríkt á suðvesturlandi á þessu tímabili. Töluverður snjór var hins vegar um landið norðan- og austanvert. Það var mjög úrkomusamt á Austfjörðum í lok mars og snjóþungt. Mikill fjöldi snjóflóða féll á svæðinu á tímabilinu 27. til 31. mars, þau stærstu féllu í Neskaupstað og ollu þar miklu tjóni.

Meðalhiti í Reykjavík í vetur var -1,3 stig og er það 2,1 stigi undir meðallagi sömu mánaða 1991 til 2020, en 2,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Veturinn er í 25. sæti yfir köldustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík árið 1871. Veturinn í Reykjavík var sá kaldasti síðan 1995. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -2,2 stig sem er 1,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var veturinn í 48. sæti yfir köldustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881. Þar líkt og í Reykjavík var veturinn sá kaldasti síðan 1995.

Veturinn var þurr í Reykjavík. Desember og mars voru óvenjulega þurrir en það var úrkomusamt í febrúar. Heildarúrkoma vetrarins í Reykjavík mældist 254,6 mm sem er 72% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma í vetrarmánuðunum fjórum 196,8 mm sem er 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Í Reykjavík voru alhvítir dagar í vetur 45, tveimur færri en að meðaltali 1991 til 2020. Óvenju langt samfellt hvítt tímabil var í Reykjavík frá 17.desember til 19. janúar eða í 34 daga og hefur einungis 5 sinnum verið lengra. Á Akureyri voru alhvítir dagar 68, 5 færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Veturinn var óvenjulega sólríkur í Reykjavík. Þar mældust sólskinsstundirnar í vetrarmánuðunum fjórum 341,2 sem er 134,2 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Veturinn í Reykjavík er sá næstsólríkasti frá upphafi mælinga, en sólríkara var veturinn 1947 (des 1946 til mars 1947). Á Akureyri mældust sólskinsstundir vetrarins 132,4 sem er 13,8 stundum yfir meðallagi.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.















Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica