Fréttir
Grimsvotn-nr-1
 Uppsetning á jarðskjálftanemum á íshellu Grímsvatna (Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir).

Engar sýnilegar breytingar í virkni í Grímsvötnum

Frá áramótum hafa um 10-30 skjálftar mælst í hverjum mánuði í Grímsvötnum

19.6.2023

Árleg vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands á Vatnajökul, var farin í fyrstu viku júní.   

Í vorferð Jöklarannsóknafélagsins á Vatnajökul dagana 28. maí-3. júní var unnið að verkefnum Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, auk annarra rannsóknaverkefna. Í ferðinni voru auk starfsmanna þessarra stofnana, sjálfboðaliðar á vegum félagsins, og félagar í björgunarsveitum. Í ferðinni var viðhaldi m.a. sinnt á jarðskjálftamælum og GPS stöðvum á jöklinum, einnig voru settur út jarðskjálftanemar á íshellu Grímsvatna. Leiðbeiningar voru settar upp í skálanum á Grímsfjalli varðandi viðbrögð við eldgosi eða öðrum jarðhræringum á svæðinu fyrir ferðafólk.   

KB_Vorferd_2023_aerial_A045_C003_20230530_R00300

Hér er mynd af Grímsfjalli og Grímsvötnum. Ljósmynd: Kieran Baxter

Gasmælingar hafa verið gerðar árlega í vorferðinni nærri gosstöðvunum 2011 í Grímsvötnum, en það var ekki mögulegt í ár vegna þess að virknin hefur minnkað og jökullinn búinn að skríða fram og yfir svæðið þar sem mælingar hafa farið fram. Einnig var aðgengi erfitt, en talsvert var af sprungum í kringum svæðið. Veðurstofan rekur gasmæli uppi á Saltaranum, nærri Grímsfjalli, sem sendir gögn í rauntíma og hefur ekki sýnt breytingar undanfarið.  

Frá síðustu áramótum hafa um það bil 10 - 30 skjálftar (stærri en 1,0) mælst í hverjum mánuði í Grímsvötnum þar sem mest virknin var í seinnihluta apríl og byrjun maí. Stærsti skjálfti ársins 2023 mældist 3,3 að stærð þann 23. Apríl. Frá því um miðjan maí hefur dregið úr skjálftavirkni.  

Nánari upplýsingar um Grímsvötn má finna í Íslensku Eldfjallavefsjánni. 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica