Fréttir
Adlogun6
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum stýrihóps um gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. F.v. Anna Hulda Ólafsdóttir, Finnur Ricart Andrason, Hugrún Elvarsdóttir og Hrönn Hrafnsdóttir. Á myndina vantar formann hópsins Jens Garðar Helgason.

Skýrslan Loftslagsþolið Ísland kynnt í gær

Markar upphaf nýrrar þverfaglegrar áætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.

27.9.2023

Loftslagsþolið Ísland er yfirskriftin á skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis, orku og loftslagsráðuneytið. Skýrslan inniheldur tillögur stýrihóps sem skipaður var af ráðuneytinu í október 2022 um gerð landáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Eins og segir í skýrslunni þá er nauðsyn aðlögunaraðgerða orðin veruleiki vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar á þessari öld og því þarf að líta til loftslagsþols byggðar, innviða, atvinnuvega og seiglu mismunandi hópa fólks og lífríkis frammi fyrir loftslagsbreytingum.

Fjórar forgangsaðgerðir

Loftslagsatlas, vöktunaráætlun, loftslagsáhættuvísar og tilraunaverkefni um gagnagátt fyrir náttúruvá eru fjórar forgangsaðgerðir sem stýrihópinn vill sjá verða að veruleika. Gert er ráð fyrir að með landsáætlun fái stjórnvöld yfirsýn yfir aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga þvert á ólíka málaflokka og framkvæmdaaðila, hvort sem það eru önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög eða aðrir haghafar.

0-Ti_mali_na_landsa_aetlunar

Landsáætlun er ætlað að gagnast við að móta aðgerðir, fylgja þeim eftir, styðja og fjármagna. Aukinheldur nýtist hún til að taka reglulega og greinargóða stöðu á aðlögun íslensks samfélags og lífríkis að loftslagsbreytingum.

Adlogun5

Anna Hulda Ólafsdóttir skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands var í stýrihópnum og sagði að það sem staðið hafi upp úr í öllum þessum vinnustofum í samtali við samfélagið er að það þurfi að koma á fót einhvers konar Loftslagsatlas þar sem við erum að horfa á framtíðarsviðsmyndir með gögnum frá Íslandi þar sem búið er að endurreikna þau gögn sem koma frá milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðanna (IPCC). Anna Hulda kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar og aðgerðaráætlun í beinu streymi frá Hannesarholti í gær.  

Stýrihópinn skipuðu:

  • Jens Garðar Helgason, formaður
  • Anna Hulda Ólafsdóttir, Veðurstofu Íslands
  • Hrönn Hrafnsdóttir, Reykjavíkurborg (tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga)
  • Hugrún Elvarsdóttir, Samtök atvinnulífsins
  • Finnur Ricart Andrason,  Ungir umhverfissinnar

Samvinna, samstarf og bestu mögulegar upplýsingar lykill að velgengni.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, orku og loftslagsráðherra sagði á kynningarfundinum í gær að skýrslan markaði tímamót. Hann sagði að mikilvægt væri að sýna fyrirhyggju og hugsa fram í tímann. „Það skiptir miklu máli að við byggjum þær ákvarðanir sem varða samfélagið okkar til lengri tíma á bestu mögulegu upplýsingum. Þessi skýrsla er mikilvæg varða á þeirri leið og gagnleg fyrir fólkið í landinu, fyrirtækin og sveitarfélögin sem skipuleggja byggð. Það skiptir líka máli að við vinnum saman og að sem flestir komi að þessum málum, sagði ráðherra.

Gulli

93 aðgerðir í 14 málaflokkum

Haldin var röð af vinnustofum í tengslum við vinnu stýrihópsins með helstu hópum haghafa og fagaðila byggt á flokkum markmiða í aðlögunarstefnu. Alls voru haldnar 13 vinnustofur með um 300  fulltrúum úr helstu geirum atvinnulífsins,  ráðuneytum, stofnunum, sveitarfélögum og félagasamtökum. Samráðsferlið skilaði 93 aðgerðum í 14 málaflokkum og lá áhersla á nauðsyn og mikilvægi þverfaglegs samstarfs sem rauður þráður í gegnum allar vinnustofurnar.

Afrakstur vinnustofanna var samantekt um helstu málaflokka aðlögunar er að finna hér og hugmyndabanka aðgerða á þessari slóð.

Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að þróa þurfi fjölbreytt úrval aðgerða undir landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum svo  auka  megi seiglu og samkeppnishæfni Íslands frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og þurfa þær að ná allt frá heimilum að sveitarfélögum og fyrirtækjum. Bindur stýrihópurinn  vonir við hefja megi innleiðingu fyrstu aðgerðaáætlunar landsáætlunar strax árið 2025, að loknu u.þ.b. árslöngu áætlanagerðarferli.

Loftslagsþolið Ísland - Tillögur fyrir gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica