Fréttir
Mynd-2
Vik meðalhita frá meðaltali áranna 1850 til 1900. Svört lína sýnir vik árshita, og rauð lína sýnir vikin ef miðað er við janúar til október hvert ár. Rauður punktur sýnir hitavik fyrstu 10 mánaða ársins 2023.

Hitafar ársins 2023

Síðustu mánuðir eru óvenjuheitir og byggt á því er reiknuð hitaspá fyrir árið 2023. Hlýnun jarðar síðustu áratugi má reka til losunar gróðurhúsalofttegunda.

30.11.2023

Síðustu mánuðir eru óvenjuheitir og byggt á því er reiknuð hitaspá fyrir árið 2023. Líklega verður hnattrænn hiti ársins 1,43 ± 0,04°C  umfram meðaltal áranna 1850 – 1900. Þessar niðurstöður byggja á fyrstu 10 mánuðum ársins.

Þetta er 0,1°C heitara en síðasta  metár, en í Parísarsamningnum  er má finna loforð um að  “halda hækkun á hitastigi á heimsvísu vel undir 2°C yfir gildum fyrir iðnvæðingu og fylgja eftir viðleitni til að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C”.

Hlýnun jarðar síðustu áratugi má reka til losunar gróðurhúsalofttegunda. Á nokkurra ára fresti bætist svo við hlýnun sem drifin er af veðurfarsfyrirbærinu El Nino, og í ár gætir einmitt El Nino. Þar sem mörg ár líða á milli öflugra El Nino atburða veldur hnattræn hlýnun í millitíðinni því að þau verða yfirleitt metár.

Hitamet og El Nino

Það er vel þekkt að þau ár þar sem gætir áhrifa sjávarhitafráviksins sem kennt er við El Nino, eru heitari á hnattræna vísu en þau ár þar sem áhrifa El Nino gætir ekki. El Nino lýsir sér í því að yfirborðshiti sjávar nærri miðbaug í austanverðu Kyrrahafi hlýnar um nokkurra mánaða skeið. Þetta gerist á nokkurra ára fresti og er gjarnan talað um 2 til 7 ár í því samhengi. Síðan um aldamótin hafa slíkir atburðir átt sér stað árin 2002–03, 2004–05, 2006–07, 2009–10, 2014–16, 2018–19 og El Nino hófst árið 2023 og því er spáð að hann standi fram á árið 2024.

Hlýnunin í Kyrrahafi er mismikil og El Nino atburðir því misöflugir. Síðasti öflugi atburður hófst haustið 2014 og stóð fram á vor 2016 og í kjölfar hans varð árið 2016 heitasta árið fram að því. Taflan hér að neðan sýnir 10 heitustu ár frá upphafi mælinga og sjá má elsta ártalið er 2010 sem var einmitt El Nino ár. Tölurnar í töflunni sýna vik hnattræns meðalhita frá meðaltalinu 1850 til 1900. Ef taflan er skoðuð sést líka að árið 2015 var 0,13°C heitara en fyrra metár (2010) en þetta met var svo slegið á næsta ári, 2016, sem var 0,18°C heitara. Hitametið frá 2016 hefur svo staðið þangað til í ár, en árin 2019 og 2020 voru reyndar álíka heit (óvissan í hnattrænu hitaviki er um 0,05°C).

Heitustu 10 ár síðan mælingar hófust. Árshitavikin eru miðuð við tímabilið 1850 til 1900. Gögn frá Kópernikus gagnaþjónustunni (C3S)

Ár Árshitavik (°C)
2016 1,32
2020 1,31
2019 1,28
2017 1,22
2022 1,18
2021 1,15
2018 1,14
2015 1,14
2010 1,01
2014 0,98

En hvað með árið 2023?

Hitametið 2016 er 1,32°C sem er tæplega 0,2 gráður undir 1,5°C en í Parísarsamningnum eru ákvæði um að “halda hækkun á hitastigi á heimsvísu vel undir 2 °C yfir gildum fyrir iðnvæðingu og fylgja eftir viðleitni til að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C”. Árið í ár hefur slegið öll hitamet, m.a. var júní í ár heitari nokkur annar júní mánuður síðan mælingar hófust og sama gilti fyrir júli, svo águst, þá september og loks nú í október.

Þetta vekur upp tvær spurningar.

1.          Verður árið 2023 nýtt metár ?

2.          Verður árið 2023 heitar en 1,5°C ?

Kópernikus (C3S) þjónustan gaf nýlega út lista yfir hitavik hvers mánaðar frá janúar 1940 til október 2023. Byggt á þessum lista má reikna bæði árshitavikin og einnig vikin miðað við fyrstu 10 mánuði hvers árs.

Mynd-2

Mynd 1: Vik meðalhita frá meðaltali áranna 1850 til 1900. Svört lína sýnir vik árshita, og rauð lína sýnir vikin ef miðað er við janúar til október hvert ár. Rauður punktur sýnir hitavik fyrstu 10 mánaða ársins 2023.

Myndin sýnir þróun hnattræns hita frá 1940 (svart), og einnig þróunina ef bara er miðað við hitann frá janúar til október (rautt). Augljóslega munar ákaflega litlu. Rauður punktur sýnir hvar meðalhiti fyrstu 10 mánaða ársins 2023 lendir. Augljóslega er árið í ár mun heitara en fyrri ár.

Hin sterka samsvörun sem er á milli árshitavika og vika ef miðað er við fyrstu 10 mánuði ársins sést vel ef þessar tölur eru teiknaðar saman.

Mynd-3-medalatal-jan-til-okt

Mynd 2: Árshitavik og hitavik miðuð við fyrstu 10 mánuði ársins. Svartir punktar sýna niðurstöður fyrir árin 1940 til 2022 og rauður punktur spá fyrir árið 2023 byggða á fyrstu 10 mánuðum árins. Rauða þverstrikið sýnir 95% vikmörk fyrir spána.

Það kemur ekki á óvart að sterkt línulegt samband er á milli þessara breyta, enda má segja að meðalhiti ársins sé ákvarðaður að 10/12 hlutum þegar komið er fram yfir lok október. Brota línan sýnir bestu línu í gegnum punktasafnið, og einnig hefur verið bætt á hana spá fyrir árið 2023 byggt á þessu línulega sambandi (rauður punktur). Niðurstaðan er sú að líklega verður meðalhiti ársins 2023 um 1,43°C með 95% vikmörkum á bilinu 1,39 til 1,47°C.

Svarið við spurningunum tveimur er því að árið 2023 verður nánast örugglega metár, líklega 0,1°C gráðu yfir meti ársins 2016. Það er hinsvegar líka mjög ólíklegt að hitavik ársins fari yfir 1,5°C.

Af hverju er svona heitt?

Gangi þessi spá eftir er eðlilegt að spurja sig hvað valdi því að árið er svona heitt. Og einnig hvort þetta sé langt umfram það sem búast mátti við af El Nino ári. Ef besta lína er reiknuð fyrir ársgildin frá 1991 til 2020 á mynd 1 og sú lína framlengd til ársins 2023 (sjá mynd 3) fæst spá um að hiti ársins verði 1,3 (1,08,1,52) °C. Þetta mat hefur mjög rífleg vikmörk en er mun lægra en matið byggt á fyrstu 10 mánuðum ársins (1,43, sjá mynd 2).

Með því að nota öll árin frá 1991 til 2020 hefur allur náttúrulegur breytileiki, og þ.m.t. munurinn á milli El Nino og annarra ára, áhrif á breidd vikmarkanna, en spáin á mynd 2 tekur tillit til þess að árið er þegar hlýtt og því eru vikmörkin minni.

Mynd-4-throun-hnattraens-arsmedalhita

Mynd 3: Árshitavik frá 1991 til 2020 ásamt framreikningi fyrir árið 2023. Brotalínan sýnir bestu aðfellu að gögnunum og svartur punktur sýnir hita ársins 2023 ef línan er framlengd og vört þverstrik sýna 95% vikmörk. Rauði punkturinn og þverstrik sýna spána á mynd 2.

Það er yfir vafa hafið að hnattræn hlýnun síðustu áratuga stafar af aukningu gróðurhúsalofttegunda. Línan á mynd 3 sýnir vel hversu mikil þessi hlýnun er, en breytileiki milli ára þýðir að veruleg óvissa er á spá þegar línan er framreiknuð (sjá svartan punkt og þverstrik). Með því að nota okkur vitneskju um það hversu heitt árið hefur verið hingað til má fá betra mat og með minni vikmörkum (sjá rauðan punkt og þverstrik). Sú spá er hinsvegar innan þeirra óvissumarka sem stafar af breytileika milli ára. Skýringin á því hversvegna þetta ár er svona heitt er því einfaldlega hnattræn hlýnun veldur því að hvert ár hefur tilhneigingu til að vera heitara en fyrri ár, og El Nino ár verða heitari en fyrri El Nino ár.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica