Fréttir
Vindskafin ský.

Tíðarfar í september 2015

Stutt yfirlit

6.10.2015

Tíðarfar var almennt talið hagstætt á landinu og hlýtt var í veðri. Á fáeinum stöðvum varð mánuðurinn sá hlýjasti á árinu. Úrkoma var lítillega yfir meðallagi um landið sunnanvert, en víðast undir meðallagi fyrir norðan. Á fáeinum stöðvum vestan til á Norðurlandi var óvenjuþurrt.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 9,1 stig, 1,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,6 stig, 3,2 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 1,7 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 9,8 stig og 9,5 á Egilsstöðum.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2005 til 2014 °C
Reykjavík 9,1 1,8 25 til 26 145 0,6
Stykkishólmur 9,1 2,4 15 169 1,1
Bolungarvík 8,9 2,8 13 118 1,6
Grímsey 8,4 3,1 8 142 1,6
Akureyri 9,6 3,2 11 134 1,7
Egilsstaðir 9,5 3,3 3 61 1,8
Dalatangi 8,8 2,2 9 77 0,8
Teigarhorn 9,3 2,4 8 143 1,1
Höfn í Hornaf. 9,8 2,1 1,3
Stórhöfði 9,1 1,8 19 139 0,6
Hveravellir  5,4 3,0 5 51 1,8
Árnes 8,8 2,1 15 136 1,1

Meðalhiti og vik (°C) í september 2015.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði þann 7., 24,1 stig og er það jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á árinu. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu þennan almanaksdag, 7. september. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Skjaldþingsstöðum sama dag, 23,4 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Möðruvöllum þann 24., -3,7 stig. Lægsta lágmark septembermánaðar hefur ekki mælst jafnhátt síðan 2002. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist í Stafholtsey þann 24., -2,0 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Kvískerjum, 10,4 stig, en lægstur á Þverfjalli, 3,3 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Svartárkoti, 7,3 stig.  Að tiltölu var hlýjast á Gagnheiði, þar var hiti 2,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast í Seley þar sem hitinn var í meðallagi.

September varð hlýjasti mánuður ársins á 47 sjálfvirkum stöðvum (rétt um 30 prósent allra stöðva), og á 23 stöðvum vegagerðarinnar (rúm 25 prósent). Þetta er er óvenjulegt - þessi hlutfallstala virðist þó hafa verið enn hærri í september 1958.

Úrkoma

Úrkoma var lítillega yfir meðallagi um landið sunnanvert, en víðast undir meðallagi fyrir norðan. Á fáeinum stöðvum vestan til á Norðurlandi var óvenjuþurrt.

Úrkoman í Reykjavík mældist 76,7 mm og er það um um 15 prósent umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 66,9 mm og er það um 18 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 34,0 mm og er það um 13 prósent undir meðallagi.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 18 í Reykjavík, 6 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 4, 4 færri en í meðalári. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 1 mm eða meiri 13 daga, 2 fleiri en í meðalári.

Frá Berufirði
""
Teigarhorn í Berufirði, veðurstöð frá 1882. Ljósmynd: Vilhjálmur Smári Þorvaldsson, 3. september 2015.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 93,0 og er það 32 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 26 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 104,5 og er það 12 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var nærri meðallagi. Austlægar og suðlægar áttir voru ríkjandi lengst af í mánuðinum. Ekki var mikið um illviðri. Þó var mjög víða hvasst þann 9. og 10. og voru þá sett ný septembervindhraðamet á 15 sjálfvirkum stöðvum (sem athugað hafa meir en 4 ár) og á 6 stöðvum Vegagerðarinnar. Minniháttar foktjón varð þessa tvo daga. Ökumenn með tengivagna lentu einnig í erfiðleikum á vegum landsins fleiri daga.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1008,2 hPa og er það 2,7 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er hæsti meðalþrýstingur í september frá 2002. Lægstur mældist þrýstingurinn í Grindavík þann 23., 982,3 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1029,1 hPa á Húsavík
þann 4.

Sumarið (júní til september)

Þótt ágúst og sérstaklega september bættu nokkuð úr þótti sumarið kalt um landið norðan- og austanvert. Þó þarf ekki að leita nema fáein ár aftur í tímann til að finna jafnköld eða kaldari sumur. Meðalhitinn í Reykjavík var 10,1 stig og er það 0,8 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en aftur á móti -0,5 stigum undir meðalhita síðustu tíu sumra. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 9,2 stig. Það er 0,2 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,8 undir meðallagi síðustu tíu sumra.

Sumarúrkoman í Reykjavík var um 86 prósent meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira var 43 og er það í meðallagi. Á Akureyri var úrkoman um 20 prósent umfram meðallag; sérlega mikið rigndi þar í ágúst. Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira var 26 á Akureyri og er það 3 færra en í meðalári.

Sólskinsstundir sumarsins mældust 670 í Reykjavík og er það 58 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 27 stundum undir meðallagi síðustu tíu sumra. Á Akureyri mældust sólskinsstundir mánaðanna júní til september 441 og er það 115 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 159 færri heldur en mældust að meðaltali sömu mánuði síðustu tíu ár. Sólskinsstundir sumarsins hafa ekki verið jafnfáar á Akureyri síðan 1993, en voru þó litlu fleiri en nú sumarið 2002.

Fyrstu níu mánuðir ársins (janúar til september)

Meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins í Reykjavík er 5,3 stig, 0,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára og mánuðirnir saman þeir köldustu síðan 1999. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu níu mánaðanna 4,7 stig. Það er 0,5 stigum ofan meðallags sömu mánaða áranna 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára og það kaldasta síðan 2002.

Úrkoma í Reykjavík hefur verið rúm 10 prósent umfram meðallag áranna 1961  til 1990, en um 15 prósent umfram á Akureyri.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2015 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í september 2015, er einnig hægt lesa sem pdf (0,3 Mb).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica