Fréttir
Kortaspá. Dæmi um virkni í veðurappinu.

Veðurappið endurbætt

Spárit aftur aðgengileg

16.10.2015

Veðurappið auðveldar notendum skoða veðurspár í snjallsíma og það hefur nú verið endurbætt.

Eins og áður er hægt að sjá staðaspár allra stöðva á einu gagnvirku og þysjanlegu korti og biðja um tilkynningu í símann ef veðurspáin uppfyllir valin skilyrði varðandi hitastig, vind og/eða úrkomu.

Búið er að samræma veðurspárnar sem birtast í appinu við þær sem notaðar eru á vefnum. Fyrir næstu tvo sólarhringa eru komin klukkustundarspágildi í stað 3ja klst áður.

Spárit

Spáritin eru aftur orðin aðgengileg úr appinu. Þegar veðurstöð hefur verið valin, og ítarleg spá birtist með klukkustundargildum, sést valkosturinn SPÁRIT efst til hægri. Ef smellt er á „stækka mynd“ er hægt að skoða spáritið lárétt (landscape). Hér fylgir dæmi um spárit fyrir Reykjavík:

Fyrir langflestar stöðvar eru spárit í boði, jafnt á vefnum sem og í appinu.

Leiðbeiningar með veðurappinu

Sé kveikt á staðsetningakerfinu GPS sýnir snjallsímaforritið sjálfkrafa veðurspá þar sem notandinn er staddur. Fyrir þá sem vilja ekki hafa kveikt á GPS er auðvelt að velja eigin landssvæði og festa á upphafsskjá.

Síðasta veðurathugun birtist efst. Síðan má skoða veðurspá nokkra sólarhringa fram í tímann og velja á milli myndrænnar spár og textaspár. Sjónskertir geta nýtt sér appið með því að velja upplestur á textaspá. Enn skal minnt á þá staðreynd, að sé mikill munur á staðaspá og textaspá þá gildir textaspáin.

Spáritin eru nú aftur í boði fyrir þá sem kjósa slíka framsetningu.

Í appinu er hægt að skoða viðvaranir Veðurstofunnar. Biðja má um tilkynningu í símann ef veðurspáin uppfyllir skilyrði að eigin vali, t.d. varðandi hitastig, vind og/eða úrkomu.

Appið er sótt á Google Play Store eða Apple App Store (leitarorðið er „veður“ eða „vedur“).

Kennslumyndband

Myndskeið kennir notkun á veðurappinu. Hentugt er að sjá helstu skjámyndir áður en snjallsímaforritið er sett upp og skoðað í snjallsímanum.

Á vef Veðurstofunnar eru leiðbeiningar um notkun staðaspáa, leiðbeiningar með textaspám og listi yfir veðurtákn en þetta gæti nýst sem ítarefni fyrir þá sem hyggjast taka snjallsímaforritið í notkun.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica