Greinar

Leiðbeiningar um notkun staðaspáa

Helgi Borg 13.1.2007

Staðaspár eru sjálfvirkar veðurspár fyrir ákveðna staði. Svo hægt sé að framleiða veðurspár fyrir staðinn þurfa reglulegar veðurathuganir að vera gerðar þar, þ.e.a.s. á staðnum þarf að vera veðurstöð.

Nýjar staðaspár eru reiknaðar út nokkrum sinnum á sólarhring.

Í stuttu máli

  • Skoðið einnig textaspár í stað þess að treysta eingöngu á sjálfvirku spárnar. Ef mikill munur er á sjálfvirkri staðaspá og textaspá fyrir viðkomandi svæði þá gildir textaspáin.
  • Hafið í huga að líklegra er að spár til skamms tíma gangi eftir frekar en spár langt fram í tímann.
  • Til að skoða mismunandi gildistíma er sleðinn neðan við kortin notaður. Hægt er að styðja á sleðann sjálfann, á dagana, klukkustundirnar eða pílurnar hvoru megin. Einnig er hægt að nota vinstri/hægri örvahnappana á lyklaborðinu.
  • Á kortunum koma fram veðurtákn, hiti, vindstyrkur og vindátt.
  • Græni punkturinn á kortunum sýnir staðsetningu viðkomandi staðar.
  • Ef músin er færð yfir stað birtist nafn staðarins, ásamt spánni á textaformi með frekari upplýsingum um úrkomu.
  • Ef stutt er á stað á korti birtist yfirlit fyrir neðan kortið með veðurspá á hádegi næstu daga, auk síðustu veðurathugunar. Í yfirlitinu er hægt að smella á hnapp til þess að skoða spárit fyrir viðkomandi stað.
  • Fyrir ofan kortið er fellivalmynd til að velja aðra flokka af stöðum, t.d. strandstöðvar eða vegastöðvar.
  • Fyrir neðan kortin er leitarform til að finna spá fyrir staði. Sláið inn fyrstu stafina í nafninu og veljið staðinn síðan úr listanum sem birtist.
  • Með því að styðja á Töflu-flipann fyrir ofan kortin má skoða spárnar á töfluformi.

Ítarlegri upplýsingar

Ef mikill munur er á textaspá og sjálfvirkum staðaspám þá gildir textaspáin

Eðlilegt er að einhver munur sé á sjálfvirkum staðaspám og textaspá fyrir viðkomandi spásvæði. Textaspáin gildir fyrir stórt spásvæði á meðan staðaspá gildir fyrir einn ákveðinn stað. Nokkur munur getur verið á veðri á einum stað og veðurlaginu á öllu svæðinu.

Í ákveðnum tilfellum getur sjálfvirka spáin þó beinlínis verið röng. Það er því rétt að skoða einnig textaspár í stað þess að treysta eingöngu á sjálfvirku spárnar. Ef mikill munur er á sjálfvirkri staðaspá og textaspá fyrir viðkomandi svæði þá gildir textaspáin.

Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að sjálfvirkar staðaspár verða rangar:

  1. Við snöggar veðurbreytingar hættir leiðréttingaralgóriþma í staðaspánum til að gefa rangar niðurstöður. Þetta gerist einkum þegar spáð er skyndilegri veðurbreytingu eftir að veðurlag hefur verið einsleitt í langan tíma (t.d. 5 daga eða meira).
  2. Veðurspálíkanið, sem staðaspárnar byggjast á, geta skilað röngum niðurstöðum. Veðurstofunni berast á hverjum degi niðurstöður úr mörgum spálíkönum. Veðurfræðingur yfirfer niðurstöðurnar og byggir textaspárnar á niðurstöðum sem líklegastar eru til að ganga eftir á hverjum tíma. 

Framsetning spágagna á spákortunum

Upplýsingar á spákortumSpágögn, sýnd á kortunum, eru: Veðurtákn, hiti, vindstyrkur og vindátt. Appelsínuguli punkturinn sýnir staðsetninguna. Sjá nánar á myndinni hér til hliðar.

Vindörin sýnir úr hvaða átt vindurinn blæs. Sé norðanátt þá vísar örin niður.

Veðurtáknið er í raun samantekt á öðrum þáttum í spánni. Sjá einnig: Veðurtákn sem notuð eru í staðaspám og athugunum.

Ef músin er færð yfir stað birtist nafn staðarins í boxi við hliðina. Þar birtist einnig gildistími og spágögnin á textaformi. Sé stutt á staðinn birtist yfirlit fyrir hann neðan við kortið. Í yfirlitinu eru hádegisspár næstu dagana og nýjasta veðurathugun. Þar er einnig hnappur til að skoða spárit fyrir staðinn.

Þegar stutt er á stað breytist slóðin í vafranum. Ef spá fyrir sama staðinn er skoðuð reglulega getur verið hentugt að bókmerkja slóðina.

Sleðinn fyrir neðan kortin er notaður til að skipta um gildistíma

Mögulegt er að skipta um gildistíma á marga vegu:

  • Hægt er að styðja hvar sem er á sleðann.
  • Hægt er að styðja á dagana fyrir ofan sleðann til að skoða hádegisspá fyrir viðkomandi dag.
  • Hægt er að styðja á tímann fyrir neðan sleðann.
  • Hægt er að styðja á pílurnar báðum megin við sleðann til að skoða fyrri eða næsta gildistíma.
  • Hægt er nota vinstri og hægri örvahnappana á lyklaborðinu til að skoða fyrri eða næsta gildistíma.

Leitarform og valmynd til að skipta um flokk spástaða

Til þess að finna stað/stöð er handhægt að nota leitarformið fyrir neðan kortin. Sláið inn fyrstu stafina í nafninu og veljið staðinn síðan úr listanum sem birtist.

Fellivalmyndin fyrir ofan kortin er notuð til að skipta um flokk spástaða. Staðirnir eru settir í nokkra flokka því spárnar komast oft ekki allar fyrir á sama kortinu. Algengt er að sami staðurinn sé í fleiri en einum flokki.

Einnig er hægt að skoða staðaspárnar á töfluformi

Með því að styðja á töfluflipann fyrir ofan kortið er hægt að skoða staðaspárnar á töfluformi. Í töflunum er að finna spágögn fyrir hvern spátíma. Þar koma fram fleiri veðurþættir en á kortunum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica