Fréttir

Samanburður á færsluhraða GPS stöðva

Sig öskjunnar í Bárðarbungu undir smásjá

22.2.2015

Nú er hægt að skoða kort sem ber saman færsluhraða á GPS stöðvum í nágrenni Bárðarbungu síðastliðinn mánuð við færsluhraða frá 21. september 2014 til dagsins í dag.

Dagsetningin 21. sept. er valin vegna þess að þá er talið að færslur tengdar framrás kvikugangsins hafi hætt og að færslumerkin kringum Bárðarbungu, eftir það, tengist eingöngu sigi öskjunnar.

Þetta tilraunaverkefni á að vakta langtímaþróun á aflögun umhverfis Bárðarbungu. Eftir að gos hófs í Holuhrauni hafa GPS stöðvar kringum Bárðarbungu sýnt stöðugar færslur í átt að öskjunni (sigmerki). Sigið hefur farið hægt minnkandi en breytingarnar eru svo hægar að þær sjást ekki frá degi til dags heldur hægist á þeim hægar og hægar, þ.e.a.s. með veldisfalli af tíma.

Hafa ber í huga að aðstæður í lofthjúp jarðar geta valdið bjögun í viðmiðunarkerfinu þannig að tímabundið lítur út eins og um aflögun sé að ræða. Slík bjögun getur spannað nokkra daga og sýnt aflögun sem er ekki raunveruleg. Því ber að hafa allan varann á þegar breytingar í færslusviðinu eru túlkaðar.

Sjá nánari skýringar undir GPS kort, samanburður á færsluhraða.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica