Fréttir
Hvassviðri í Berufirði 15. desember 2014.

Íslenski veturinn 2014-2015

Stutt yfirlit

21.4.2015

Veturinn, frá fyrsta vetrardegi 25. október 2014 til 23. apríl 2015 var ívið kaldari um landið sunnan- og vestanvert heldur en að meðaltali síðustu tíu ár, en hins vegar yfir því norðaustanlands.

Veturinn 2014 til 2015 Reykjavík vik 2005 til 2014 Akureyri vik 2005 til 2014 
gormánuður 5,2 2,3 2,5 1,6
ýlir 0,0 -0,6 -0,8 0,1
mörsugur 0,0 -0,9 -1,0 -0,5
þorri 0,2 -1,6 -0,2 -0,8
góa 0,7 -0,8 0,7 0,7
einmánuður 2,0 -1,1 2,8 1,0
vetur 1,3 -0,4 0,7 0,4

Meðalhiti vetrarins var +1,3 stig í Reykjavík. Það er +0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Vetrarhitinn nú er sá sami og var veturinn 2010 til 2011 og 2007 og 2008.

Á Akureyri var meðalhiti vetrarins +0,7 stig. Það er +1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,4 stigum ofan meðalhita síðustu tíu ára. Síðustu tíu árin hefur veturinn aðeins einu sinni verið hlýrri en nú, það var 2012, en jafnhlýtt var á Akureyri í fyrravetur og nú.

Mesta frost sem mældist á landinu í vetur var -26,0 stig sem mældist við Setur þann 11. janúar. Mest frost í byggð mældist í Svartárkoti 21. febrúar -24,1 stig.

Mest frost í Reykjavík mældist -9,6 stig, þann 3. febrúar. Það er sjaldan sem vetrarlágmarkshitinn hefur verið svona hár. Mesta frost á Akureyri í vetur mældist -14,0 stig. Það gerðist 22. febrúar. Mesta frostið sem mældist á Ísafirði var -11,5 stig, það var 12. febrúar og á Egilsstöðum mældist mest frost -18,8 stig þann 19. janúar.

Mesti vindhraði vetrarins (10-mínútna meðaltal) mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 22. febrúar, 46,3 m/s. Mesta vindhviða mældist við Miðfitjahól á Skarðsheiði 14. mars, 73,5 m/s.

Veðrið 14. mars var það versta í vetur (hvað vind áhrærir).

Mest sólarhringsúrkoma mældist á Hánefsstöðum í Seyðisfirði þann 13. nóvember, 164,2 mm, og mest snjódýpt í Reykjahlíð 23. og 24. desember, 150 cm.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica