Fréttir
Christiana Figueres og Laurent Fabius.

Tímamótasamningur um markmið í loftslagsmálum samþykktur

Gleði ríkir á loftslagsráðstefnunni í París og um allan heim

12.12.2015

Tímamótasamningur um markmið í loftslagsmálum var samþykktur í kvöld á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París.

Samningurinn var samþykktur einróma, með atkvæðum 195 þjóða, laust fyrir klukkan hálf sjö að íslenskum tíma. Mikil fagnaðarlæti brutust út í fundarsalnum þegar ljóst var að samkomulagið væri í höfn; fulltrúar margra þjóða táruðust af gleði yfir því að samkomulag hefði náðst. Utanríkisráðherra Frakklands lýsti því yfir að loftslagssamningurinn hefði verið samþykktur samhljóða og barði með hamri sínum í borðið til marks um að allir væru nýja samningnum samþykkir (texti úr frétt af vefsíðu RÚV).

Ban Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði að nú væri vinna fyrir höndum: "Let's finish the job". Nánari útlistun á samningnum má sjá á vef umhverfisráðuneytisins. Frakkar fá einróma hrós fyrir gott skipulag og stjórn viðræðna, sem hefur átt sinn þátt í að samkomulag náðist nú (sjá skjöl, m.a. á ensku).

Sjá einnig frétt á vef BBC en þar segir:

Samningur um að reyna að halda hnattrænni hlýnun undir 2°C hefur verið samþykktur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, eftir tvær vikur af áköfum samningaumleitunum. Þetta er fyrsti samningurinn þar sem öll ríki veraldar heita því að minnka kolefnisútblástur. Samkomulagið er að hluta til lagalega bindandi en gefur ríkjum einnig að hluta til frjálsar hendur. Á ensku; spurt og svarað um samninginn.

Á vef The Guardian eru fleiri fréttir um samþykkt Parísarsamningsins, ásamt myndasafni frá ráðstefnunni.

Framlag Íslands

Þess má geta, að í rafrænu sérhefti tengdu ráðstefnunni er grein eftir sérfræðinga Veðurstofunnar, þá Árna Snorrason, Tómas Jóhannesson og Þorstein Þorsteinsson er nefnist Glaciers and ice caps: Vulnerable water resources in a warming climate. Í eldri frétt má lesa um framlag Íslands í Norræna skálanum á loftslagsráðstefnunni.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica