Fréttir
Við Elliðavatn.

Tíðarfar í nóvember 2015

Stutt yfirlit

6.12.2015

Tíð var lengst af hagstæð. Framan af mánuðinum var hlýtt í veðri, úrkoma var þá mikil um landið sunnanvert en þurrviðrasamt nyrðra. Skammvinnt kuldakast gerði í kringum þann 20. og aftur var kalt í lok mánaðarins. Þá snjóaði óvenjumikið á höfuðborgarsvæðinu. Í heild var hiti í mánuðinum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, mest um landið austanvert, en nær meðallagi suðvestanlands. Úrkoma var um 75 prósent umfram meðalúrkomu í Reykjavík, en þriðjung umfram meðallag á Akureyri.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 1,8 stig, 0,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,9 stig, 1,6 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 0,2 ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á öðrum stöðvum má sjá í töflu:

stöð mhiti vik 1961-1990 röð af vik 2005 til 2014
Reykjavík 1,8
0,7 64 145 -0,8
Stykkishólmur 2,2 1,3 44 til 45
169 0,3
Bolungarvík 2,0
1,2 31
118 0,8
Grímsey 2,2 1,6
25 til 26
142 0,6
Akureyri 0,9
1,2 44
134 0,2
Egilsstaðir 0,5 1,2
24
61 -0,1
Dalatangi 3,3
1,5
25
77 0,3
Teigarhorn 2,8 1,5 34
143 0,2
Höfn í Hornafirði 2,8
1,8



Stórhöfði 3,2 0,8
52
139 -0,5
Hveravellir  vantar


51
Árnes -0,1
0,1 78
136 -1,3

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2015

Að tiltölu var hlýjast við Upptyppinga en þar var hiti 1,0 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Einnig var hlýtt að tiltölu norðan til á Vestfjörðum. Kaldast að tiltölu var á Suðurlandsundirlendi, hiti í Árnesi var -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,4 stig, en lægstur í Sandbúðum -5,0 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal og Svartárkoti, -2,2 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var lægstur þann 28., -5,0 stig, en hæstur þann 6., 7,0 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist á Hornbjargsvita þann 22., 12,8 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Sauðanesvita sama dag, 11,7 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist á Brúarjökli þann 29., -23,1 stig. Mest frost í byggð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum og við Mývatn þann 20., -19,1 stig. Mest frost á mannaðri stöð mældist -16,0 stig, það var á Grímsstöðum á Fjöllum þann 20.

Tunglbogi
""
Tunglbogi - regnbogi í myrkri. Myndin er tekin í Stykkishólmi 22. nóvember 2015 kl. 20:55.
Ljósmynd: Víðir Björnsson. Sjá einnig fróðleiksgrein um tunglboga.

Úrkoma

Mjög þurrt var norðanlands langt fram eftir mánuðinum og sérlega úrkomusamt um landið sunnanvert. Nokkuð skipti um eftir miðjan mánuð. Úrkoma í Reykjavík mældist 129,0 mm og er það 77 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Þetta er mesta úrkoma í nóvember í Reykjavík síðan 1993, en þá var hún reyndar tvöföld á við það sem nú var. Á Akureyri mældist úrkoman 73,5 mm, um 35 prósent umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 59,2 mm, 12 prósent undir meðallagi.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 18,5 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 15, fjórum fleiri en í meðalári.

Snjór

Lengst af var fremur snjólétt á landinu, en skipti mjög um undir lok mánaðarins. Alhvítir dagar urðu 4 í Reykjavík, 3 færri en að meðaltali 1971 til 2000, en 7 á Akureyri, 9 færri en að meðaltali sama tímabils. Mesta snjódýpt í Reykjavík mældist hins vegar 32 cm og er sú mesta sem mælst hefur þar í þessum mánuði síðan 1978.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mældust 42,3 í Reykjavík, 3,7 umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 25,5, 11,2 fleiri en í meðallári. Í nóvember hafa sólskinsstundir mælst flestar 30,9, það var árið 1937.

Vindur og loftþrýstingur

Vindhraði var um 0,5 m/s undir meðallagi á landinu og lítið var um útbreidd illviðri. Meðalvindhraði hefur ekki verið jafnlítill í nóvember frá 2010 og ekki minni síðan 2003, Á landsvísu var hvassast þann 16 og þá af suðvestri. Suðlægar áttir voru ríkjandi fyrstu 12 dagana og aftur þann 20. til 26.

Loftþrýstingur var lágur, meðalþrýstingur mánaðarins í Reykjavík var 993,9 hPa og er það -10,3 hPa undir meðallagi. Lægstur mældist þrýstingurinn í Bolungarvík þann 23., 968,5 hPa, og hæstur á sama stað þann 19., 1024,0 hPa.

Haustið (október og nóvember)

Meðalhiti haustsins í Reykjavík var 3,5 stig. Það er 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 2,8 stig, 1,5 stigi ofan meðallags 1961 til 1990, en 1,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.  

Haustið var mjög úrkomusamt í Reykjavík, úrkoma mánuðina tvo mældist samtals 288,5 mm, það mesta að hausti síðan 1993, en þó var nánast sama úrkoma haustið 2007 og nú. Á Akureyri mældist úrkoma haustsins 108,9 mm, það er í rétt tæpu meðallagi.  

Fyrstu 11 mánuðir ársins 2015

Meðalhiti ársins til þessa í Reykjavík er 5,0 stig, það lægsta sömu mánuði síðan árið 2000, en 0,3 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990 og -0,9 undir meðalhita síðustu tíu ára. Á lista sem sýnir meðalhita sama hluta árs aftur til 1871 er árið í 56. til 57. sæti (af 145). Hlýjast var á síðastliðnu ári, 6,6 stig, en kaldast 1892, 2,9 stig. Á Akureyri er meðalhiti ársins til þessa 4,4 stig, 0,7 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990 og -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Í Reykjavík er úrkoma fyrstu 11 mánuði ársins 925 mm, um 28 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Þetta er mesta úrkomuvik á þessum tíma síðan 2007 en þá var úrkomumagnið nánast það sama og nú. Fara þarf aftur til áranna 1991 og 1989 til að finna meira. Á Akureyri mældist úrkoma fyrstu 11 mánuði ársins um 10 prósent umfram meðallag, samt mun minna en í fyrra.

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2015 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í nóvember 2015, er einnig hægt að lesa sem pdf (0,3 Mb)

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica