Fréttir
Vindaspá fyrir hádegi, laugardaginn 14. mars 2015. Rauðir og gulbrúnir litir tákna hættulegasta vindinn. Smellt á til að stækka.

Afar slæmt veður, laugardaginn 14. mars

Óvarlegt að vera á ferli

13.3.2015

Veðurviðvörun

Spár um afar slæmt veður á morgun, laugardaginn 14. mars eru enn stöðugar og ástæða til að vara við roki eða ofsaveðri, sunnan 20-30 m/s og vindhviðum yfir 50 m/s. Veður verður sérstaklega slæmt um allt vestan- og norðanvert landið og vert að taka fram að hvassara verður en var síðastliðinn þriðjudag.

Veðurhæðinni fylgja hlýindi um allt land og mikil rigning og snjóleysing sunnan- og vestantil. Í veðurhæð sem þessari geta tré rifnað upp með rótum og þakplötur fokið. Einnig má búast við grjót- og malarfoki.

Viðvaranir vegna vatnavaxta og leysinga eru í gildi, sem og viðvaranir vegna votra snjóflóða, krapaflóða og skriðufalla. Ölduhæð suður af landinu er einnig há og er athygli vakin á ágjöf af ölduróti af suðri sem gæti verið til vandræða í höfnum við suðvesturstöndina, svo sem í Grindavík og Þorlákshöfn.

Sérstök athygli er vakin á því að á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir sunnan 20-30 m/s frá því snemma morguns á laugardag fram yfir hádegi. Óvarlegt er að vera á ferli í slíku veðri. Ferðalög á milli landshluta eru alls ekki ráðleg á þessum tíma.

Spár og viðvaranir eru uppfærðar á 3 klukkustunda fresti á vefsíðu Veðurstofunnar.

Vatnaviðvörun

Sú viðvörun sem send var út í gær vegna vatnavaxta og hláku er enn í fullu gildi. Hér er uppfært kort:

Afrennslisspá
""
Uppsafnað afrennsli (mm), fljótandi úrkoma plús leysing (snjór/ís); spá gerð föstudag 13.3.2015 12:00. Gildir þar til á hádegi sunnudaginn 15. mars, stækkanleg.

Föstudaginn 13. mars 2015 kl. 16:00;
fyrir hönd Eftirlits og spásviðs Veðurstofu Íslands,
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.
Matthew J. Roberts, fagstjóri vatnavár.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica