Fréttir
Gervitunglamynd: Ísland snævi þakið

Tuttugu ár frá snjóflóðaslysunum miklu á Vestfjörðum

Opin dagskrá á Veðurstofu Íslands

5.10.2015

Í ár eru tuttugu ár liðin frá því að 35 manns létust í snjóflóðum á Vestfjörðum í þremur slysum. Í janúar 1995 fórust 14 manns í Súðavík og einn maður á Grund í Reykhólasveit. Í október sama ár fórust 20 manns í snjóflóði á Flateyri.

Slysin breyttu viðhorfi stjórnvalda og almennings til snjóflóða sem náttúruvár og árið 1995 varð vendipunktur í vinnu við hættumat, varnir og vöktun vegna ofanflóða.

Til að minnast slysanna og til að fara yfir það sem áunnist hefur á síðustu 20 árum stendur ofanflóðavakt Veðurstofunnar að opinni dagskrá á Bústaðavegi 7, miðvikudaginn 7. október 2015 kl. 16:00 - 17:15. Allir eru velkomnir.

Dagskrá:

  • Theodór Freyr Hervarsson, framkvæmdarstjóri Eftirlits- og spásviðs Veðurstofu Íslands, býður gesti velkomna.
  • 16:00-16:10 Hlutverk Ofanflóðasjóðs Hafsteinn Pálsson, verkefnisstjóri Ofanflóðasjóðs, fjallar um aukið hlutverk sjóðsins eftir 1995 og helstu verkefni hans í dag.
  • 16:10-16:20 Vöktun náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands Theodór Freyr Hervarsson, framkvæmdastjóri Eftirlits- og spásviðs Veðurstofunnar, segir frá vöktunarhlutverki stofnunarinnar sem nær til allar náttúruvár.
  • 16:20-16:35 Hvað höfum við lært frá árinu 1995? Harpa Grímsdóttir segir frá því sem gerst hefur eftir 1995 í hættumati, vörnum og vöktun vegna ofanflóða. Harpa er fagstjóri ofanflóðavaktar á Veðurstofu Íslands og útibússtjóri Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar á Ísafirði.
  • 16:35-16:50 Hörmungar og hugarfar Halldór Halldórsson fjallar um breytingar á aðferðum og hugarfari hjá sveitarfélögum eftir þessi áföll. Halldór er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og var bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar til margra ára.
  • 16:50-17:10 Snjór getur verið dauðans alvara! Eiríkur Finnur Greipsson segir frá reynslu sinni af snjóflóðinu á Flateyri en hann lenti sjálfur í flóðinu. Á þessum tíma var hann bæði hreppsnefndarmaður á Flateyri og framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Boðið er upp á kaffi og spjall eftir erindin.

Samráðsfundur

Hinn árlegi samráðsfundur snjóathugunarmanna og ofanflóðavaktar verður haldinn dagana 7.-9. október 2015, fyrst á Veðurstofu Íslands en á fimmtudag flyst fundurinn yfir til Víkur í Mýrdal.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica