Fréttir
Klósigar á sumarsólstöðum 21. júní 2015.

Tíðarfar í júní 2015

Stutt yfirlit

1.7.2015

Júnímánuður var kaldur miðað við hitafar það sem af er öldinni en nærri meðallagi sé miðað við tímabilið 1961 til 1990. Í Reykjavík var hann sá kaldasti síðan 2001 og síðan 1993 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Víðast hvar á landinu var júní 2011 þó kaldari en nú. Að tiltölu var kaldast á hálendinu og inn til landsins á Austurlandi en hlýjast að tiltölu um hluta Vesturlands þar sem var hagstæð tíð síðari hluta mánaðarins. Annars var tíðarfar óhagstætt lengst af og gróður tók seint við sér. Lítið var um illviðri í mánuðinum.

Hiti

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist 9,1 stig, 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +8,8 stig, -0,4 stigum undir meðallagi 1961 til 1990 en -1,3 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð mhiti vik 1961-1990 röð af vik 2005-2014
Reykjavík 9,1 0,1 86 til 88 145 -1,3
Stykkishólmur 8,3 0,2 79 til 81 170 -1,3
Bolungarvík 7,3 0,2 78 118 -1,6
Grímsey 5,6 -0,8 86 142 -1,7
Akureyri 8,8 -0,4 85 134 -1,3
Egilsstaðir 7,4 -1,3 52 61 -1,8
Dalatangi 5,9 -0,3 55 77 -1,2
Teigarhorn 6,8 -0,4 89 143 -1,1
Höfn í Hornafirði 8,2 -0,2
Stórhöfði 7,5 -0,5 122 til 123 139 -1,6
Hveravellir  4,9 0,0 32 51 -1,9
Árnes 8,9 0,0 85 136 -1,3

Meðalhiti og vik (°C) í júní 2015

Að tiltölu var hlýjast á Austfjörðum, mjög kalt var suðvestanlands og sérstaklega kalt á hálendinu þar sem snjóa leysti lítt eða ekki. Hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt, minnst var vikið í Skaftafelli, -0,8 stig, en mesta neikvæða vikið var á Laufbala þar sem hiti var -4,0 stig undir meðallagi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Þingvöllum og Korpu, 9,3 stig, en lægstur á Gagnheiði, 0,5 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, 5,5 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir 5 stigum 4 daga fyrri hluta mánaðarins. Það var sá 2. sem var kaldastur.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,0 stig á Húsafelli þann 26. Lægsti hiti á landinu mældist -6,7 stig á Setri þann 13. Lægsti hiti í byggð mældist -3,8 stig á Reykjum í Fnjóskadal þann 13.

Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 21,8 stig í Stafholtsey þann 28., en lægstur á Grímssstöðum á Fjöllum þann 6., -3,2 stig.

Þann 15. mældist lágmarkshiti á Brúarjökli -4,3 stig og er það jafnlágt því lægsta sem áður hefur mælst á landinu þann almanaksdag. Það var á Gagnheiði 1997.

Sumartíð
""
Elliðavatn og Elliðavatnsbærinn, góðviðrisdaginn 25. júní 2015. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Úrkoma

Þurrviðrasamt var víðast hvar á Vestur- og Norðurlandi en úkoma var í ríflegu meðallagi austast á landinu og á stöku stað um landið suðaustanvert.

Úrkoman í Reykjavík mældist 20,9 mm og er það aðeins 42 prósent af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 27,9 mm. Það er 69 prósent af meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 3,9 mm og er það aðeins 14 prósent meðallags – júnimánuður hefur þó verið þurrari á Akureyri nokkrum sinnum, síðast 2010. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 48,1 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 5 í Reykjavík, sex færri en í meðalári. Á Akureyri var aðeins 1 slíkur dagur og fimm færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 193,1 og er það 32 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 7 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 161,1 og er það 16 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 44 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir í júní 2011 voru talsvert færri en nú á Akureyri.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var lítillega ofan við meðallag, sá mesti í júní frá 2011.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,5 hPa og er það 2,4 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn á Gufuskálum þann 16., 990,8 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1028,4 hPa í Vestmannaeyjakaupstað og á Önundarhorni þann 8.

Fyrstu sex mánuðir ársins 2015

Fyrstu sex mánuðir ársins 2015 hafa verið venju fremur kaldir um landið suðvestanvert. Meðalhiti í Reykjavík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur verið undir meðalhita áranna 1961 til 1990, -0,3 stig á fyrrnefnda staðnum en -0,6 stig á þeim síðarnefnda. Öllu hlýrra hefur verið í öðrum landshlutum. Á Akureyri er meðalhiti mánaðanna sex 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, 0,4 stigum ofan við í Stykkishólmi og 1,4 stigum yfir meðallagi á Teigarhorni.

Úrkoma hefur mælst um 10 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en er nærri meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir hafa verið 119 umfram meðallag áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en 72 stundum undir meðallagi á Akureyri.

Skjöl fyrir júní

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2015 (textaskjal).

Þetta skjal má einnig lesa sem pdf (0,3 Mb).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica