Fréttir
Stafholtsey í Borgarfirði hinn 28. maí 2015.

Tíðarfar í maí 2015

Stutt yfirlit

3.6.2015

Mjög kalt var á landinu í maí. Tíðarfar var óhagstætt og gróður tók lítt við sér. Mun kaldara var þó í maí 1979 og víða á landinu var ámóta kalt í maí 1982 og nú. Kuldinn var að tiltölu mestur á hálendinu, en þar var hiti allvíða -3 til -4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára, en mildast var á Austfjörðum þar sem hiti var um -1,1 til -1,5 undir sama meðaltali. Fyrstu tvær vikurnar voru sérlega kaldar og tíð þá erfið en síðari hluta mánaðarins var tíðin skárri og heldur hlýrra var í veðri lengst af.

Hiti

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist +4,6 stig, -1,8 stig undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og -2,4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +4,0 stig, -1,5 stig undir meðallagi 1961 til 1990 og -2,0 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð mhiti vik 1961-1990 röð af vik 2005-2014
Reykjavík 4,6 -1,8 131 til 132 145 -2,4
Stykkishólmur 3,9 -1,1 131 170 -2,0
Bolungarvík 2,8 -1,1 136 til 137 118 -2,0
Grímsey 2,2 -0,6 94 142 -1,5
Akureyri 4,0 -1,5 109 134 -2,0
Egilsstaðir 3,3 -1,5 53 61 -1,8
Dalatangi 2,7 -0,6 64 77 -1,4
Teigarhorn 3,8 -0,6 96 143 -1,4
Höfn í Hornaf. 5,0 -1,3
Stórhöfði 4,4 -1,4 132 139 -2,1
Hveravellir  -1,7 -2,4 49 51 -3,6
Árnes 3,9 -2,0 119 136 -2,7

Meðalhiti í maí 2015 á nokkrum veðurstöðvum

Að tiltölu var hlýjast á Austfjörðum, mjög kalt var suðvestanlands og sérstaklega kalt á hálendinu þar sem snjóa leysti lítt eða ekki. Mesta jákvæða hitavik miðað við meðaltal síðustu tíu ára var -1,2 stig á Eskifirði, en mesta neikvæða vikið var í Veiðivatnahrauni, -4,1 stig undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Skarðsfjöruvita og í Önundarhorni, 5,3 stig, en lægstur á Gagnheiði, -3,8 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, 0,2 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 6 daga snemma í mánuðinum. Það var sá 7. sem var kaldastur að tiltölu.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,7°C í Skaftafelli þann 22. Lægsti hiti á landinu mældist -18,1 stig á Brúarjökli þann 10. Lægsti hiti í byggð mældist -12,2 stig á Þingvöllum þann 5.

Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 13,4 stig í Ásgarði og á Bergstöðum þann 30., en lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 10, -10,5 stig.

Úrkoma

Mjög þurrt var fram eftir mánuði um landið vestanvert, en talsverð úrkoma var þá á Austfjörðum. Síðari hluta mánaðarins var úrkoma jafndreifðari um landið en endaði samt nokkuð undir meðallagi á Suðvestur-, Vestur- og Norðvesturlandi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 32,3 mm og er það 74 prósent af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 18,4 mm. Það er 55 prósent af meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 20,2 mm og er það í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 60,1 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 8 í Reykjavík, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 6 og er það einum fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 277,9 og er það 86 stundir yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 35 stundir yfir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir á Akureyri mældust aðeins 99,8, 74 stundir undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 78 undir meðallagi síðustu tíu ára. Ekki hafa jafnfáar sólskinsstundir mælst í maí á Akureyri síðan 1983.

Í ríki trölla
""
Úr vorferð sérfræðinga Veðurstofunnar á Hofsjökul í byrjun maí 2015. Hér er áð hinn 6. maí við suðvestanverðan Hofsjökul í nánd við Kerlingarfjöll. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Snjólag

Alhvítt varð öðru hvoru í byggð á Norðausturlandi og norðan til á Vestfjörðum, einkum framan af mánuði, og undir lok hans varð aftur alhvítt á fáeinum stöðvum. Á Suðurlandi mátti heita alveg snjólaust – þó var einn alhvítur dagur í Reykjavík. Ekki varð alhvítt á athugunartíma á Akureyri.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var um 0,5 m/s ofan við meðallag, sá mesti í maí frá 2009.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1006,1 hPa og er það -6,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn á Stórhöfða þann 15., 969,1 hPa, og er með því lægsta sem mælst hefur hér á landi í maímánuði. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1024,3 hPa í Bolungarvík þann 8.

Vorið (apríl og maí)

Vorið var kalt, einkum um landið sunnan- og vestanvert, sem og á hálendinu. Í Reykjavík var vorið það kaldasta frá 1989 og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum frá 1983 en þá var jafnkalt og nú. Þó nokkuð kaldara var þar vorið 1979. Á Akureyri var hiti nú hins vegar rétt undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og var vorið 2013 heldur kaldara þar en vorið nú. Sama á við um landið austanvert, að vorið 2013 var þar kaldara en nú.

Úrkoma var um 30 prósent umfram meðallag á Akureyri í apríl og maí en um 25 prósent undir því í Reykjavík.

Fyrstu fimm mánuðir ársins 2015

Fyrstu fimm mánuðir ársins hafa í heild verið kaldir á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er +1,5 stig og eru mánuðirnir saman þeir köldustu síðan 1997 en þá var jafnkalt og nú; kaldara var 1995. Frá upphafi samfelldra mælinga er hiti mánaðanna fimm í 92. sæti af 145. Í Stykkishólmi (55. af 170) og á Akureyri (48. af 134) eru mánuðirnir fimm þeir köldustu síðan árið 2002 en á Dalatanga (23. af 77) voru þeir kaldari árið 2008. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (103. af 138) hefur árið ekki byrjað jafnkalt síðan 1995.

Úrkoma í Reykjavík og á Akureyri er um 20 prósent ofan meðallags fyrstu fimm mánuði ársins. Meðalvindhraði hefur verið óvenjumikill, hann var síðast ámóta mikill og nú sömu mánuði 1993.

Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2015 (textaskjal).

Grein þessa má einnig lesa sem Pdf-skjal (0,3 Mb).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica