Fréttir
Sérstakar skýjamyndanir hinn 24. júlí 2015.

Tíðarfar í júlí 2015

Stutt yfirlit

4.8.2015

Júlímánuður var mjög kaldur um mestallt land. Á litlu svæði um landið suðvestanvert var hann þó lítillega hlýrri en meðaltal áranna 1961 til 1990 en meir en 2 stig undir því víða inn til landsins um landið norðaustan- og austanvert. Hiti var undir meðallagi júlímánaða síðustu tíu ára um land allt. Óvenjuþurrt var við norðanverðan Faxaflóa, Breiðafjörð, á sunnanverðum Vestfjörðum og á stöku stað á Norðurlandi vestanverðu. Sólarlítið var um landið norðaustanvert og mjög dauf þurrkatíð.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 11,3 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,4 stig. Svo kalt hefur ekki verið í júlí á Akureyri síðan 1993 en litlu hlýrra var í júlí 1998. Á Egilsstöðum hefur meðalhiti aðeins tvisvar orðið lægri í júlí en nú, frá því samfelldar mælingar hófust þar 1955. Það var 1993 og 1970.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalh. vik 1961 til 1990 röð af vik 2005 til 2014
Reykjavík 11,3 0,8 46 145 -0,8
Stykkishólmur 9,3 -0,6 133 170 -2,0
Bolungarvík 8,1 -0,9 109 118 -2,6
Grímsey 6,4 -1,1 119 142 -2,6
Akureyri 8,4 -2,1 127 134 -3,1
Egilsstaðir 7,6 -2,7 59 61 -3,5
Dalatangi 6,9 -1,0 71 77 -2,0
Teigarhorn 7,7 -1,4 119 143 -1,9
Höfn í Hornafirði 9,2 0,0
Stórhöfði 9,0 -0,7 130 til 131 139 -2,0
Hveravellir  6,3 -0,7 43 51 -2,5
Árnes 10,9 0,4 74 til 76 136 -1,2

Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2015

Að tiltölu var hlýjast á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á sunnanverðum Vestfjörðum, sérstaklega kalt var í efstu byggðum norðaustan- og austanlands, að tiltölu kaldast í Möðrudal þar sem hiti var -4,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Reykjavíkurflugvelli, 11,4 stig, en lægstur á Gagnheiði, 1,6 stig (949 m y.s.). Þetta er lægsti meðalhiti sem vitað er um í júlí hér á landi. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, 5,9 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir meðallagi síðustu tíu ára alla daga mánaðarins. Hann var undir 7,5 stigum þ. 10., 19. og 20. og voru það köldustu dagar mánaðarins. Hiti var ofan 10 stiga aðeins tvo daga, þ.4. og 5.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,0 stig í Stafholtsey þann 5. Daginn áður mældist hæsti hiti á sjálfvirkri stöð, Fíflholtum á Mýrum, 20,8 stig. Lægsti hiti á landinu mældist -2,5 stig í Gæsafjöllum þann 29. Jafnaði sá hiti landsdægurlágmark. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 29., -1,5 stig.

Úrkoma

Sérlega þurrviðrasamt var víða á norðanverðu Vesturlandi en úrkoma yfir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 34,6 mm og er það um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 5,1 mm eða um 12 prósent meðalúrkomu. Þetta er þurrasti júlímánuður í Stykkishólmi síðan 1939, úrkoman var þó litlu meiri en nú í júlí 1974. Á Akureyri mældist úrkoman 34,2 mm og er það í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 65,8 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 9 í Reykjavík, einum færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 9, tveimur fleiri en í meðalári. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 1 mm eða meiri aðeins 1 dag, átta dögum færri en í meðalári, og þar hafa slíkir dagar aðeins þrisvar verið jafnfáir í júlí, það var 1939, 1888 og 1881. Úrkomumælingar hófust í Stykkishólmi 1856.

Á eftirtöldum stöðvum hefur úrkoma aldrei mælst jafnlítil eða minni í júlí heldur en nú: Á Hjarðarfelli, í Bláfeldi, í Ásgarði, á Lambavatni, í Hænuvík, í Mjólkárvirkjun, á Hólum í Dýrafirði og á Bassastöðum við Steingrímsfjörð.

Ingólfshöfði í fjarska
""
Horft frá veðurstöðinni á Fagurhólsmýri í átt að Ingólfshöfða sem sést í fjarska. Myndin er tekin 16. júlí 2015. Ljósmynd: Vilhjálmur S. Þorvaldsson.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 225,5 og er það 54 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 30 stundum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mikið vantar þó upp á met, en síðast mældust sólskinsstundirnar í júlí fleiri en nú í Reykjavík árið 2009. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 77,6 og er það 81 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 98 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Svo fáar sólskinsstundir hafa ekki mælst í júlí á Akureyri síðan 1993 en þá voru þær 58,5. Sólskinsstundir júlímánaðar 1954 voru lítillega færri á Akureyri heldur en nú.

Vindur og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var rétt ofan meðallags. Norðlægar áttir voru nær einráðar í mánuðinum.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,7 hPa og er það 2,6 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn í Surtsey og í Önundarhorni þann 1., 1000,4 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1026,3 hPa á Dalatanga þann 4.

Fyrstu sjö mánuðir ársins 2015

Fyrstu sjö mánuðir ársins 2015 hafa verið venju fremur kaldir, sérstaklega suðvestanlands. Meðalhiti í Reykjavík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur verið undir meðalhita áranna 1961 til 1990, -0,3 stig á fyrrnefnda staðnum en -0,6 stig á þeim síðarnefnda. Öllu hlýrra hefur verið í öðrum landshlutum en síðustu þrír mánuðir hafa þó jafnað stöðu landshlutanna frá því sem var fyrr á árinu. Á Akureyri er meðalhiti mánaðanna sjö 0,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, 0,3 stigum ofan við í Stykkishólmi og 0,2 stigum yfir meðallagi á Teigarhorni.

Úrkoma er í rétt rúmu meðallagi áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en er í meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir hafa verið 174 umfram meðallag áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en 152 stundum undir meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir fyrstu sjö mánuði ársins 2012 voru fleiri en nú í Reykjavík, en á Akureyri þarf að fara allt aftur til ársins 1983 til að finna færri sólskinsstundir fyrstu sjö mánuði ársins heldur en nú.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2015 (textaskjal).

Þessa grein er einnig hægt lesa sem pdf (0,3 Mb).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica