Fréttir
Ský séð frá Kópavogskirkju í Kópavogi.

Skýjamyndir

Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO, óskar eftir myndum

26.9.2015

Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO, er að undirbúa nýja útgáfu af skýjaatlas - International Cloud Atlas, ICA. Skýjaatlasinn samanstendur af skýjamyndum og/eða myndskeiðum ásamt nákvæmri lýsingu á skýjunum með hverri mynd eða hverju myndskeiði.

WMO sendi Veðurstofunni boð um þátttöku og ákveðið var að bjóða almenningi að senda inn myndir. Kröfurnar eru miklar en í leiðbeiningum WMO er þeim lýst nákvæmlega.

Sá sem tekur ljósmyndirnar verður að senda þær inn sjálfur og gefa WMO um leið leyfi til þess að nota myndirnar að vild. WMO mun m.a. nýta vefinn til þess að koma myndunum á framfæri.

Skýjaatlas (ICA) WMO kom síðast út árið 1987 og innihélt þá yfir 200 myndir af skýjum og öðrum loftfyrirbærum. WMO sækist núna eftir stafrænum gæðamyndum í lit, teknum á fullkomnar myndavélar. Þeir sem senda inn myndir þurfa að lesa vel leiðbeiningar WMO og byrja á að skrá sjálfa sig. Senda þarf eins nákvæmar upplýsingar og mögulegt er um tilurð myndar, stað, stund, aðstæður og fleira. Því ítarlegri og nákvæmari sem upplýsingarnar, sem fylgja myndinni, eru þeim mun meiri líkur eru á að hún hljóti náð fyrir augum ritstjóranna.

Myndir af sjaldséðum skýjum og öðrum loftfyrirbærum eru líklegri að komast að en myndir af algengum skýjum. Í leiðbeiningum WMO eru þrjár töflur:

1.tafla: Upplýsingar sem þurfa að fylgja hverri mynd

2.tafla: Listi yfir fágætar og þar með eftirsóttar (,,most wanted“) myndir

3.tafla: Myndskeið eða myndaröð af fágætum (,,most wanted“) skýjabreytingum

Gert er ráð fyrir að það taki ljósmyndara milli 10 og 30 mínútur að skrá mynd. Við á Veðurstofunni hvetjum fólk til að senda WMO góðar myndir og værum þakklát fyrir að fá afrit til varðveislu í myndasafni stofnunarinnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica