Fréttir

Litakóði flugs vegna Bárðarbungu nú grænn

Engin merki um vaxandi ókyrrð

24.4.2015

Veðurstofa Íslands tilkynnti 24. apríl 2015 að litakóði fyrir flug vegna Bárðarbungu væri nú GRÆNN.

Litakóðinn er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldfjalla, sjá skýringar.

Þessi ákvörðun er tekin í ljósi nýlegra jarðeðlisfræðilegra og landfræðilegra gagna varðandi svæðið umhverfis eldfjallið. Hitamyndir úr gervitunglum og ratsjárgögn úr fyrirfram ákvörðuðum fluglínum yfir svæðið hafa einnig verið skoðuð.

Engin merki um vaxandi ókyrrð hafa sést í Bárðarbungu síðan eldgosinu í Holuhrauni lauk, 27. febrúar 2015. Jarðskjálftavirkni í öskjunni og í kvikuganginum heldur áfram að dvína, sem er í samræmi við það að samfelldar GPS mælingar þessa landshluta sýna að eldfjallið er ekki að fyllast af kviku, nú sem stendur.

Bárðarbungueldstöðin er enn vöktuð vandlega og verði nokkur markverð breyting á ástandinu verður strax látið vita. Í grein um eftirmála atburðanna má t.d. lesa punkta úr vettvangsferðum frá því í mars.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica