Fréttir
Fjölmargar mælistöðvar eru á svæðinu.

Bárðarbunga vöktuð en ekki merki um gos

Þensla og skjálftar en gos þó ekki talið yfirvofandi

18.11.2015

Náttúruváreftirlitshópur Veðurstofu Íslands fundaði í morgun og ræddi nýjustu mælingar við Bárðarbungu.

GPS-mælingar sýna merki um þenslu á svæðinu kringum Bárðarbungu sem benda til kvikusöfnunar undir Bárðarbunguöskjunni. Þessi merki hafa orðið greinilegri nú á haustmánuðum.

Algengt er að þenslumerki mælist í nánd við eldstöðvar eftir eldgos. Til að mynda hafa eldfjöllin Eyjafjallajökull, Grímsvötn og Hekla sýnt slíka hegðun.

Samfara þenslunni hefur skjálftum í öskjunni af stærðinni 2,5 - 3,8 fjölgað en skjálftavirknin hefur að öðru leyti lítið breyst.

Bárðarbunga er vöktuð allan sólarhringinn á Veðurstofu Íslands og engin augljós merki sjást nú um yfirvofandi gos. Vísindaráð Almannavarna hittist á næstunni og mun ræða stöðu Bárðarbungu.

Nánar

Kort sem sýnir láréttar færslur á GPS stöðvum  (stækkanlegt) kringum Bárðarbungu síðan 10. júlí 2015 leiðir í ljós nokkur merki um þenslu (baugar utan um örvarodda afmarka óvissu).

Áberandi færslur út frá Bárðarbungu sjást á GPS stöðinni á Kistu, sem auðkennd er með stöfunum KISA. Einnig sjást merki um mögulega þenslu á öðrum stöðvum.

Leiðrétt hefur verið fyrir reki jarðskorpuflekanna en hafa verður í huga að ekki hefur verið leiðrétt fyrir færslum sem verða vegna fargbreytinga á jöklum, færslum vegna þess að jarðskorpan er að jafna sig eftir innskotið í Holuhraun og færslum sem verða vegna aflögunar á flekaskilum.

Það er ekki ljóst að hve miklu leyti færslurnar eru vegna ferla utan Bárðarbungu nema á KISA stöðinni á Kistu, þar sem færslur út frá Bárðarbungu yfirgnæfa öll önnur merki. Lesa má um uppsetningu stöðvarinnar og viðhald í fróðleiksgrein.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica